Breiðfirðingur - 01.04.1996, Blaðsíða 92
Einar G. Pétursson
Góði maðurinn Þórður
- dýrlingur í Dölum
Eflaust þykir flestum þessi fyrirsögn frekar furðuleg og scgja
að dýrlingar eða helgir menn hafa aldrei verið í Dölum, en frá
Þórði góða manni, sem var dýrkaður um 1400, er hér ætlunin
að segja eftir því sem fátæklegar heimildir greina.
Flestir Breiðfirðingar kannast við það, að samkvæmt Land-
námu, en ekki Laxdælu, var Auður djúpauðga (-úðga) Ketils-
dóttir landnámskona í Hvammi kona kristin en Landnáma
segir:
Hún hafði bænahald sitt á Krosshólum; þar lét hún reisa
krossa, því að hún var skírð og vel trúuð. Þar höfðu frændur
hennar síðan átrúnað mikinn á hólana. Var þar þá gör hörg,
er blót tóku til; trúðu þeir því, að þeir dæi í hólana, og þar
var Þórður gellir leiddur í, áður hann tók mannvirðing, sem
segir í sögu hans.1
Hér kom fram að kristni hefur ekki gengið í ættir, en af Þórði
gelli er það að segja, að faðir hans var Olafur feilan, sonur
Þorsteins rauðs, sem var sonur Auðar djúpauðgu, með öðrum
orðum: Auður var langamma Þórðar gellis. Þórður var talinn
mikill höfðingi á 10. öld, en ekki er meira vitað um sögu hans
en hér segir. Þótt e. t. v. hafi hún ekki verið stórvirki á við
Laxdælu, þætti okkur án efa mikill fengur í að hún væri til nú.
Krosshólar eru vel þekktur staður og 8. ágúst 1965 var til
minningar um kristni Auðar afhjúpaður þar kross og er um
afhjúpun hans margt sagt í Breiðfirðingi 1966.