Breiðfirðingur - 01.04.1996, Blaðsíða 23
GÖNGUKONA Á GRÝTTRI SLÓÐ
21
Reykjavík. Á ófáum bókum er nafn Þjóðu og verð ég að ætla
að hún hafi sjálf skrifað. Rithöndin er skýr og áferðarfalleg.
Um bóklestur Þjóðu eru vitnisburðir heimafólks á heimilum
sem Þjóðhildur réð sig til.
Erla Hjartardóttir frá Álfatröðum minnist þessa og segir svo
frá að gamla konan lagði tóvinnuna frá sér endrum og sinnum,
tók fram bók, og sagði við sjálfa sig: „Nú ætla ég að taka mér
grein“ eða „Nú ætla ég að fá mér grein.“ Þetta varð orðtæki
sem skólakrakkar í farskóla hreppsins gripu til og notuðu
þegar að því kom að lesa fyrir næsta dag. Bækur sem Erla sá
Þjóðu fara með voru vel frá gengnar, þvengir vafðir um og
brugðið um hnappa.
Jóhanna Einarsdóttir frá Dunk minnist þess frá því Þjóða
var í vistum hjá foreldrum hennar, Einari J. Jóhannessyni og
Guðrúnu Kristjánsdóttur, að Þjóða var með bækurnar sínar í
tösku sem hún festi tryggilega við belti á ferðum sínum og bar
undir kápu mikilli. Hefur þetta sjálfsagt varið bækurnar, en
ekki hefur það prýtt konuna.
Vitnisburð um bóklestur Þjóðhildar hef ég einnig frá
Blönduhlíð. Þar varð Kristbjörg Björgólfsdóttir vitni að því að
frænka hennar tók bók og bók upp úr kistunni sem þar var og
las án þess fólk gerði sér fyllilega ljóst hvers efnis bækurnar
voru.
Þá er vitnisburður sem mér hefur hefur borist úr Haukadal.
Þar var Þjóða í góðu vinfengi við húsfreyjuna á Giljalandi,
Sigurbjörgu Sigurðardóttur frá Litla-Vatnshorni. Sonur þeirra
hjóna Sigurbjargar og Jóhannesar bónda Jónssonar, Krist-
mundur Jóhannesson, kennari í Suðurdölum og fv. skólastjóri,
segir svo í bréfi til greinarhöfundar, Giljalandi 29. des. 1992:
Þjóðhildur kom til foreldra minna nokkuð oft, man ekki
hvort það var á hverju ári. Ég held hún hafi komið hingað á
haustin eða veturna og dvalið um hálfan mánuð eða þar um
bil. Hún spann á rokk fyrir móður mína, þá hún var hér. Far-
angur sinn hafði hún í tveimum sívölum, snyrtilegum böggl-
um, enda var hún einnig snyrtileg með sjálfa sig. Hún las oft
úr gömlum snjáðum bókum, sem við töldum bænabækur. Ekki