Skírnir - 01.09.2013, Page 60
290
PÁLLSKÚLASON
SKÍRNIR
Magna Charta-yfirlýsingu sem fjöldi háskólarektora undirritaði á
1000 ára afmæli Bolognaháskóla haustið 1988.3 Þá þegar var ljóst
að þróun þjóðfélagsins hafði skapað ákveðið kreppuástand í nú-
tímaháskólum, ekki síst vegna þess að þeim var gert að sinna æ fleiri
nemendum án þess að fjárveitingar væru auknar. Með yfirlýsingu
sinni viidu rektorarnir minna á grundvallargildi háskólastarfs og
forsendur þess að það beri frjóan ávöxt.
Á síðustu áratugum hefur þróunin hins vegar orðið mun örari en
menn sáu fyrir, alls kyns nýir háskólar hafa litið dagsins ljós, sam-
keppni háskóla hefur harðnað svo að það ógnar samstarfi fræði-
manna, efnahagslífið gerir sívaxandi kröfur um fræðilega færni til
að reka fyrirtæki og framleiða og selja nýjar vörur, og unga fólkið
vill kynnast nýjum fræðasviðum. Um leið hefur hið opinbera átt
erfitt með að auka framlög til vísinda og mennta í takt við vaxandi
verkefni háskólanna, meðal annars vegna kostnaðar við aðra mikil-
væga innviði samfélagsins, svo sem heilbrigðisþjónustuna.
Til að leggja megi ígrundað mat á stöðu háskóla nú á dögum þarf
að gera margvíslegar rannsóknir og úttektir á starfsemi þeirra og
umsvifum. Slíkar rannsóknir og úttektir þurfa að byggja á skýrum
fræðilegum skilningi á því hvað háskóli er og hvaða þættir skipta
mestu máli í starfi hans. Þess vegna komumst við ekki hjá því að
takast á við spurninguna sem hér er varpað fram: Hvað er góður há-
skólif Þessi spurning á að vera leiðarljósið í því mikilvæga umbóta-
starfi sem háskólafólk um allan heim þarf nú að takast á hendur.
1. Tvœr meginkröfur
Hlutverk háskóla frá fornu fari hefur verið að mennta einstaklinga
í vísindum og fræðum svo að þeir þroskist og geti nýtt þekkinguna
til góðs fyrir samfélagið. I samræmi við þetta hafa verið gerðar tvær
meginkröfur til háskóla í aldanna rás. Annars vegar eiga þeir að
leggja rækt við fræðileg gildi, sjá til þess að fræðileg þekking sé
varðveitt frá einni kynslóð til annarrar og að stöðugt sé róið á ný
3 Sigmundur Guðbjarnason, rektor Háskóla íslands, undirritaði yfirlýsinguna, en
fjölmargir háskólar víða um heim hafa undirritað hana á síðari árum.