Skírnir - 01.09.2013, Page 124
354 GUÐJÓN ÓLAFSSON FRÁ SYÐSTU-MÖRK SKÍRNIR
Finnur Jónsson segir að sagan breyti um stíl frá og með kristni-
þættinum. I Njáludraumnum segir að Höskulds saga hafi verið
glötuð, frá þeim kafla að Amundi blindi var að heimta föðurbætur
af Lýtingi á Sámstöðum. En kaflinn sem fjallar um það er næsti kafli
eftir kristniþáttinn. Eftir þessu er sami stíll á Gunnars sögu og því
sem ekki hafði glatast af Höskulds sögu. Hér er reiknað með því að
kristniþáttur hafi ekki komið inn í söguna fyrr en við endanlega
gerð hennar. Þetta styður þá kenningu að höfundur þeirrar Njálu,
sem skrifuð var um 1280, hafi skáldað kaflann um ástæðurnar fyrir
vígi Höskulds án þess að hafa heimildir um þá atburði eins og hann
virðist hafa haft um flesta aðra stærri atburði sögunnar.
Niðurstaða
Eg hef í grein þessari reynt að rökstyðja að kaflinn í Njáls sögu um
aðdragandann að vígi Höskulds Hvítanesgoða geti ekki staðist, en
hafi verið búinn til vegna þess að höfundurinn hafi ekki haft heim-
ildir um hina raunverulegu atburði.
Onnur aðalástæðan fyrir því að ég tel að ekki sé hægt að taka
Njálu trúanlega um þetta er sú að ekki hefði verið hægt að koma
þeim Njálssonum og Kára til að vinna þetta illvirki með lygaáróðri
einum. Hin ástæðan er sú að Mörður Valgarðsson, sem sagt er að
hafi rægt þá saman, var síðan fenginn til að flytja brennumálið á
Alþingi að því er segir í Njálu. Ekki er trúlegt að frændur Njáls og
sona hans, sem eftir þá áttu að mæla, hefðu fengið þann mann til
þess sem rægt hefði Höskuld og Njálssyni dauðarógi.
Þá hef ég líka leitast við að tína til rökfærslur fyrir því að Njálu-
höfundur hafi haft ritaðar heimildir fyrir flestum öðrum meiriháttar
atburðum sem sagan greinir frá.
I grein þessari vitna ég í Njáludrauminn. Það geri ég þó að ég
telji flesta drauma marklausa. En ég hef líka lesið frásagnir um
drauma sem mér þykir að hafi verið merkilegir og inntak þeirra at-
hyglisvert og íhugunarvert. Njáludraumur Hermanns Jónassonar
gæti verið einn þeirra. Að minnsta kosti finnst mér að þau atriði,
sem eru öðruvísi í honum en í Njálu, séu miklu sennilegri eins og frá
þeim er sagt í draumnum en sögunni.