Skírnir - 01.09.2013, Page 129
SKÍRNIR AÐ MÆLA RÓTEINDIR MEÐ GRÁÐUBOGA 359
á góma og hvort flokkunarvandi fræðanna sé ekki hreinlega heima-
gerður.8
Það hlýtur því að vera alvarlegt umhugsunarefni hvort fantasíu-
hugtakið sé nothæft í umfjöllun um miðaldabókmenntir nema það
verði skilgreint betur. En er nokkur ástæða til þess? Ég er ósam-
mála Else Mundal um að aðgreining fantasíunnar frá yfirnáttúrunni
sé eins mikilvæg og hún leggur til, ekki aðeins vegna þess að skil-
greiningin sem aðgreiningin byggir á er ófullnægjandi, heldur fyrst
og fremst vegna þess að aðgreiningin leiðir hjá sér aðra mikilvægari
þætti sem taka þarf tillit til. Mundal viðurkennir að í mörgum til-
vikum sé ómögulegt sé að greina á milli hins fantasíska og hins yfir-
náttúrlega; í svo mörgum tilvikum raunar að sjálfur teldi ég best að
varpa fantasíuhugtakinu fyrir róða, enda þekktist þessi aðgreining
ekki á miðöldum.
Else Mundal nefnir trúverðugleika sem einn mögulegan mæli-
kvarða til aðgreiningar á yfirnáttúru frá fantasíu. Stephen A. Mitch-
ell (2009: 282) nefnir þetta líka, en spyr jafnframt hvort fantasíu-
hugtakið lýsi veruleika miðalda á fullnægjandi hátt. Trúverðugleiki
einn og sér hlýtur að vera ófullnægjandi mælikvarði, einfaldlega
vegna þess að það er erfitt að slá því föstu hverju miðaldafólk trúði
ekki eða gat ekki trúað á, og raunar er ýmislegt sem bendir til þess
að hinir fantasískari þættir Islendingasagna hafi ekki þótt ótrú-
verðugri en hvað annað einsog ég kem nánar að síðar í þessari grein.
8 Mér virðist Vésteinn Ólason (2007) heldur ekki gera skýran greinarmun á þessum
hugtökum í grein sinni í Griplu XVIII heldur noti þau jöfnum höndum þar sem
til þess sé talið „bæði það sem er yfirnáttúrlegt og stórkostlegar ýkjur“ (22). Mun-
dal notar hugtakið á annan hátt, einsog komið hefur fram, og Mitchell (2009) og
Torfi H. Tulinius (1999) nota það einnig hvor með sínum hætti. Dinzelbacher
(2005) fleygir því fram í umræðu um óvættir miðaldalandslagsins en útskýrir ekki
nánar hvað hann á við. Sverrir Jakobsson (2006) nefnir að risar og drekar séu al-
gengir í ókönnuðum löndum og að þær verur tilheyri „the realm of the unknown
and the fantastic" (940), en einsog hjá Dinzelbacher fylgir ekki nánari skýring á því
hvað við er átt. Helen F. Leslie (2009) talar á almennum nótum bæði um „fantas-
tic occurences" og „supernatural beings" en tilfærir ekki dæmi (119) þótt mér
sýnist það hljóta sumpart að eiga við það sama og Rosemary Power (1985: 156)
kallar „mythological", en að öðru leyti gerir hún lítinn greinarmun á yfirnáttúru,
fantasíu og hinu ævintýralega. Þessi ringulreið um notkun fantasíuhugtaksins
þykir mér benda til þess að hugtakið sé til heldur meiri óþurftar en gagns.