Skírnir - 01.09.2013, Page 144
374
ARNGRÍMUR VÍDALÍN
SKÍRNIR
Þaðan þurfa þeir að sigla til Digraness þar sem Skalla-Grímr er graf-
inn. Ymsir hlutir fylgja honum í gröfina einsog siðvenja var, meðal
annars hesturinn hans, en einhver virðist hafa riðið á honum alla
leið að Digranesi meðan hinir úr föruneytinu sigldu fyrir Borgar-
fjörð. Frá sjónarhóli nútímalesanda virðist þetta vera helst til mikil
fyrirhöfn bara til að hola niður einu líki, en ef til vill er það einmitt
vegna varúðarráðstafana Egils að Skalla-Grímr gengur ekki aftur.
En jafnvel þótt svo virðist sem Egill og Arnkell hafi búið eins um lík
feðra sinna kemur það aðeins í veg fyrir afturgöngur annars þeirra.
I Gísla sögu býðst Þorgrímr Þorsteinsson til að binda Vésteini
helskó sem hann geti gengið á til Valhallar og bætir við að slíkt
tíðkist. Það er undarleg fullyrðing þar sem maður skyldi ætla að
aðstandendur Vésteins hljóti að vita eins vel og Þorgrímr hvað
tíðkast við útfarir, enda staðfestir Þorgrímr með þessu grun Gísla um
að hann hafi sjálfur drepið Véstein en sé að reyna að dylja það með
vinsemd sinni. I kjölfarið vegur Gísli Þorgrím í skjóli nætur, og
þegar hann spyr víg Þorgríms býðst hann til að greiða útförina:
Nú verpa þeir hauginn eftir fornum sið. Og er búið er að lykja hauginn þá
gengur Gísli til óssins og tekur upp stein einn, svo mikinn sem bjarg væri,
og leggur í skipið svo að nær þótti hvert tré hrökkva fyrir en brakaði mjög
í skipinu og mælti: „Eigi kann eg skip að festa ef þetta tekur veður upp.“ Það
var nokkurra manna mál að eigi þótti allólíkt fara því er Þorgrímur hafði gert
við Véstein er hann ræddi um helskóna. (Gísla saga Súrssonar 1943: k. 17)
Gísli gerir sig sekan um sömu látalæti og Þorgrímr í útför Vésteins
með því að draga athygli að nýstárlegum útfararsiðum sem fólki
þykja undarlegir, en ljóst má vera að báðir eru að reyna að koma í
veg fyrir afturgöngur fórnarlamba sinna: Þorgrímr með því að
tryggja Vésteini inngöngu í Valhöll og Gísli með því að festa skip
Þorgríms vandlega í haugnum svo aldrei veðrist upp. Hvorugur
snýr aftur að vísu, en ofgjörðir Þorgríms og Gísla ljóstra upp um
glæpi þeirra og fyrir vikið verða örlög þeirra ekki umflúin. Þannig
séð er því engin bein ,þörf‘ fyrir íhlutun afturgangna.
En jafnvel þótt búast megi við afturgöngum að einhverju leyti þá
fylgir þeim alltaf hryllingur, ofsahræðsla og vantrú; enginn býst við
því að hinir dauðu komi í raun og veru til með að ganga aftur. Þetta