Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.11.2018, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.11.2018, Blaðsíða 31
Edgar Hoover hætta. Segja má að Lyndon B. John- son hafi orðað það svo fyrir alla kollega sína í Hvíta húsinu: „Betra er að hafa J. Edgar inni í tjaldinu pissandi út en fyrir utan það pissandi inn.“ Þess utan náðu þeir saman Johnson og Hoover þegar Hoover tók að lána forsetanum skýrslur um bandaríska stjórnmálamenn samtímans. Sagt var að forsetinn, sem var starfsamur mjög, hefði haft þetta lesefni helst á náttborðinu þegar hann fór í rúmið. Falsfréttir Donald Trump er sá sem dregið hefur „falsfréttir“ í sterkara kastljós en þær hafa lengi verið. Þar hefur hann sjálfan sig í forgrunni eins og oftast nær. Enda má viðurkenna að jafnvel „virtustu“ fjölmiðlar Bandaríkjanna hafa gengið mjög langt í fréttaflutn- ingi af forsetanum. Ónafngreindir „heimildarmenn“ eru þá fyrirferðarmiklir og óþægilega oft hefur inni- stæða í þeim fréttum reynst smá í sniðum. Það er merki um að jafnvel öflugur fjölmiðill hafi látið „heimildarmann“ rugla sig, ef hann var þá til. Upp á síðkastið hefur forsetinn haldið því fram að ekki liggi ótvírætt fyrir að krónprins Sádi-Arabíu hafi gefið fyrirmæli um óhuggulegt dráp á samland- anum Jamal Kashoggi, sem skrifað hafði pistla í Washington Post og haft starfsleyfi í Bandaríkj- unum. Stórblöðin og sjónvarpsstöðvarnar sem hafa síð- ustu tvö árin flutt fréttir af Trump sem mælast vel yfir 90% neikvæðar, hafa fullyrt í kjölfar eigin frétta að forsetinn fari þar gegn leyniþjónustum sínum. Forsetinn segist nú hafa skýrslu CIA í höndunum og storkar miðlunum til að birta heimildir frá CIA um annað. Þeir vitni í „heimildarmann“ sem segi „CIA telja“ að krónprinsinn hafi staðið fyrir drápinu. Hvaða menn innan CIA „telja“ það? Er það heimild- armaðurinn? Eða er það einhver annar? Er það bréf- að? Svona fréttir eru sagðar til að veikja forsetann en til lengdar gætu þær veikt trúverðugleika fjöl- miðlanna. Stórbrotnar heimildir Bréfritari minnist þess að háttsettur starfsmaður ut- anríkisráðuneytis kom að máli við hann í forsætis- ráðuneytinu og sagði að ESB liti tiltekna umræðu á Íslandi „mjög alvarlegum augum“. „Hvernig veistu það?“ Eftir nokkurt hik kom þetta svar: „Starfs- maður á minni deild sem staddur var í Brussel hitti í kokteilboði, reyndar garðveislu, mann sem starfað hefur lengi hjá einum af aðallögfræðingum á einni af aðalskrifstofum forsætisnefndar, sem sagði honum þetta í trúnaði.“ Kannski hefði þetta risið undir forsíðufrétt um „að samkvæmt traustum heimildum væri mikið uppnám í ESB vegna umræðu á Íslandi um“ einhvern tittlinga- skít. Stundum heyrist í fréttaþáttum talað um hinar skaðlegu „falsfréttir“ sem fréttir sem Donald Trump standi fyrir. Er forsetinn þá kominn í sömu stöðu og Jón sá sem stolið var frá forðum tíð og hét jafnan Jón þjófur eftir það. Það eru vissulega mörg dæmi til um að forsetinn fari frjálslega með og að æði margt hafi ekki staðist skoðun. Sumar þær fullyrðingar hans sem mest hafa verið gagnrýndar, eins og sú um versnandi þjóð- félagsaðstæður í Svíþjóð, hafa þó staðist betur en opinberar leiðréttingar. Svo vel vill til að fjölmiðlarnir öflugu sem ráða sér illa vegna óbeitar á Trump liggja yfir hverju orði og slá því myndarlega upp sem vafasamt er í fullyrð- ingum hans. Það er þarft verk þótt lakara sé hversu oft ein fjöður verður að hænsnabúi. Ruglandin hér Segja má að ruglandi í umræðu sé síst betri en hinar frægu falsfréttir. Nú ber á því að snúningurinn í þjóðfélaginu sé minnkandi. Þar kemur margt til og ekki allt óeðlilegt. Erfiðleikar flugfélagsins WOW eru þekktir og vaxandi umræða og efasemdir virðast vera um það að samruni þess og Flugleiða gangi eft- ir. Afleiðingar þessa, ef til kæmi, eru óljósar, þótt óþarft sé að gefa sér að þær yrðu bylmingshögg sem vankaði þjóðarbúskapinn. Annað, sem seinustu vikur og mánuði hefur ýtt undir samdráttarkvíða, gæti hins vegar komið ís- lensku atvinnu- og efnahagslífi í mikinn bobba. Það eru umræður í undanfara kjarasamninga. Þær eru einkennilegar og ólíkar því sem menn eiga að venjast. Við umræður um fjárlög í þinginu gerði Bjarni Benediktsson glögga og stillilega grein fyrir nokkr- um meginþáttum efnahagsumhverfisins og dró fram helstu staðreyndir. Ekkert af því ætti þó að vera mik- il frétt. En upplýsingar fjármálaráðherrans og fram- setning gekk þó í flestum efnum þvert á umræðuna í þjóðfélaginu í aðdraganda kjarasamninga. Kannski þess vegna tóku einhverjir þingmenn því af nokkurri vanstillingu hvers konar mynd ráðherrann dró rétti- lega upp. Mánuðum saman hafa verið endurteknar fullyrð- ingar sem eiga ekki stoð í neinum þeim staðreyndum sem eru aðgengilegar. Fullyrt er að „hinir lægst launuðu“ hafi borið minna úr býtum en allir aðrir seinustu árin. Það er ekki fótur fyrir því. Vel má hafa þá skoðun að meira hefði þurft en það er önnur saga sem lýtur öðrum lögmálum. Fullyrt er utan stans að launamunur á Íslandi sé meiri en í öðrum sambærilegum löndum og fari sífellt vaxandi. Það er líka skaðlegur skáldskapur. Verðlag í landinu er rætt eins og það hafi ekkert með kaupmátt að gera. Hefði það hækkað eins og látið er væri kaup- máttaraukningin í landinu horfin. Enginn hefur þá stefnu að ekki megi auka kaup- mátt í landinu. En það verður að viðurkenna í fullyrð- ingaflaumnum hvernig kaupmáttur hefur þróast síð- ustu misserin. Það væri t.d. æskilegt að bera þá þróun saman við það sem gerst hefur í ESB-löndum, sem ýmsir telja himnaríki á jörð. Það væri þarft mjög ef aðilar á vinnumarkaði köll- uðu sameiginlega til einhverja sem mætti treysta sem drægju upp stöðuna og þá einnig með hliðsjón af því sem annars staðar þekkist. Þess vegna frá útlönd- um, enda margir veikir fyrir því að sannleikans sé helst að vænta að utan. Spyrja mætti slíkan hóp hversu hratt kaupmáttur mætti aukast án þess að verðbólga og atvinnuleysi eyðilegði þá viðleitni. Ein bábiljan hér á landi er sú að verkalýðshreyfingin sé of veik. Verkalýðshreyfingin getur í kjarasamningum skammtað þá launahækkun sem hún vill að komi út úr viðræðunum. Hún getur á eigin spýtur farið í gamla farið og hækkað kaupmátt á pappírnum um 30% eða 300% á einu ári. En af þeim pappír fer kaupátturinn ekki yfir í veskið. Hann breytist fljótt í óviðráðanlega verðbólgu og þjakandi atvinnuleysi. Þetta eru ekki hótanir. Þetta er reikn- ingsdæmi. Forystumenn íslenskrar verkalýðshreyf- ingar hafa menn í vinnu hjá sér sem kunna að reikna ekki síður en aðrir. Hreyfingin hefur ráðið miklu um þá staðreynd, því staðreynd er það, að kaupmáttur hefur vaxið meir og öruggar hér á landi síðustu árin en í nokkru öðru þróuðu landi á sama tíma. Og einnig því að atvinnuleysi er með minnsta móti og verðbólga enn lág, þótt sá þáttur horfi ekki vel. Brýnt er að menn líti á staðreyndir sem vini sína en ekki óvini. Og í það minnsta sem hjálplegan þátt og hverfi frá þeim hugmyndum að bjagaðar staðreyndir séu betri en hinar. Þær hljóma kannski betur í eyrum óskhyggjunnar en þær endast illa. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon 25.11. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.