Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.11.2018, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.11. 2018
LESBÓK
Þetta er sannkölluð barna- og fjölskyldu-sýning, enda er markmiðið að ná tilnýrra áhorfenda jafnt í hópi barna og
fullorðinna,“ segir Þórunn Sigþórsdóttir leik-
stjóri ævintýraóperunnar Hans og Grétu eftir
Engelbert Humperdinck sem Íslenska óperan
frumsýnir í Norðurljósum Hörpu á morgun,
sunnudag, kl. 15. „Óperan byggist á hinu klass-
íska ævintýri Grimmsbræðra sem fjallar um
systkinin Hans og Grétu sem búa í skóginum
ásamt foreldrum sínum og lenda í klónum á
vondu norninni en tekst með samvinnu og hug-
rekki að klekkja á henni. Þetta er mjög lifandi
og skemmtilegt verk þar sem margar ólíkar
tilfinningar ríkja – allt frá fölskvalausri gleði,
til ótta og hugrekkis,“ segir Þórunn og rifjar
upp að Humperdinck hafi samið tónlistina við
leiktexta systur sinnar, Adelheid Wette.
„Upphaflega sá Adelheid Wette fyrir sér að
börnin í fjölskyldunni gætu flutt verkið í
heimahúsi. Humperdinck samdi hins vegar
heila óperu á árunum 1891-92 sem var frum-
sýnd í Weimar á Þorláksmessu árið 1893 undir
stjórn Richards Strauss við miklar vinsældir,
enda er tónlistin dásamlega falleg,“ segir Þór-
unn og bendir á að óperan um Hans og Grétu
hafi í gegnum tíðina iðulega verið sýnd í að-
draganda jólanna í óperuhúsum heimsins.
Áhorfendur ganga inn í skóginn
„Okkur fannst mjög spennandi að fara alveg
inn í ævintýrið og leyfa áhorfendum að ganga
bókstaflega inn í skóginn,“ segir Þórunn og
bendir á að ákveðin nostalgía sé ríkjandi í sjón-
rænni umgjörð sýningarinnar, en Eva Signý
Berger hannar leikmynd, María Th. Ólafs-
dóttir búninga og Jóhann Friðrik Ágústsson
lýsingu. „Þó að ævintýri séu auðvitað tímalaus
fannst okkur skemmtilegt að vísa í leikmynd
og búningum til þess tíma þegar Grimms-
bræður gáfu ævintýrið fyrst út á prenti á fyrri
hluta 19. aldarinnar,“ segir Þórunn og tekur
fram að nostalgían henti vel jólunum sem snú-
ist að stórum hluta um hefðir.
„Eitt af því sem er svo skemmtilegt við
ævintýrin er að það er hægt að upplifa þau og
endurupplifa þau með ólíkum hætti allt eftir
því á hvaða aldri þú ert þegar þú lest þau eða
þau eru lesin fyrir þig,“ segir Þórunn og tekur
fram að þegar komi að óperunni spilli ekki fyr-
ir hversu undurfalleg tónlist Humperdinck sé.
Að sögn Þórunnar verður sýningin sungin á
íslensku í þýðingu Þorsteins Gylfasonar, sem
Reynir Axelsson yfirfór, og tekur flutning-
urinn um 100 mínútur. „Verkið er í þremur
þáttum og tekur venjulega um tvo klukkutíma
í flutningi, en við styttum verkið ögn,“ segir
Þórunn og bendir á að gert sé hlé milli annars
og þriðja þáttar til þess að töfra fram pipar-
kökuhús nornarinnar á sviðinu.
Eins og föt sem smellpössuðu
Þórunn segir mikið fagnaðarefni að með upp-
færslunni sé hópi ungra söngvara gefinn kost-
ur á að spreyta sig hjá Íslensku óperunni.
„Þegar við Steinunn Birna Ragnarsdóttir óp-
erustjóri ræddum fyrst hugmyndina að upp-
setningunni fannst mér spennandi að fá tæki-
færi til að opna óperuheiminn samtímis fyrir
ungum áhorfendum og ungum söngvurum.“
Í hlutverkum Hans og Grétu eru Arnheiður
Eiríksdóttir og Jóna G. Kolbrúnardóttir, í
hlutverkum foreldra þeirra eru Hildigunnur
Einarsdóttir og Oddur Arnþór Jónsson, norn-
ina syngur Dóra Steinunn Ármannsdóttir og
Óla lokbrá túlkar Kristín Einarsdóttir Män-
tylä. „Þau eru ekki aðeins með dásamlegar
raddir heldur flott í leik og túlkun. Það hefur
verið einstaklega gott að vinna með þeim, því
þau hafa verið svo fljót að tileinka sér hlutina
og framkalla það sem ég hef beðið um, sem eru
algjör forréttindi. Þau búa yfir mikilli orku.
Síðan spillir ekki fyrir hversu góðar mann-
eskjur þau öll eru,“ segir Þórunn og hrósar
Bjarna Frímanni Bjarnasyni hljómsveitar-
stjóra einnig í hástert. „Hann er einstaklega
hæfileikaríkur, þannig að það er frábært að
vinna með honum.“
Aðrir flytjendur eru hljómsveit Íslensku
óperunnar og Gradualekór Langholtskirkju.
„Það er ótrúlega skemmtilegt hversu margir
einsöngvanna hafa starfað með Jóni Stefáns-
syni kórstjóra á sínum yngri árum,“ segir Þór-
unn sem sjálf nam söng við Söngskólann í
Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur,
ekkju Jóns. Þórunn lauk diploma-prófi frá
Tónlistarháskólanum í Trossingen í Suður-
Þýskalandi og fyrir um 15 árum meistaragráðu
í óperusöng og leikstjórn við International
Opera Academy í Ghent í Belgíu undir hand-
leiðslu óperuleikstjórans Guy Joosten. Hún
var í framhaldinu aðstoðarleikstjóri hans og
ýmissa íslenskra leikstjóra hér heima eftir að
hún flutti heim. Hérlendis hefur hún leikstýrt
bæði söngleikjum og leikritum, en Hans og
Gréta er hins vegar fyrsta óperan sem hún
leikstýrir hér á landi.
„Mér finnst ég vera á heimavelli í leikstjórn-
inni. Þegar ég lagði leikstjórnina fyrir mig á
sínum tíma var það eins og að fara í föt sem
smellpössuðu,“ segir Þórunn og tekur fram að
sér finnist dásamlegt að geta sameinað leik-
stjórn og tónlistina. „Minn bakgrunnur liggur í
gegnum tónlistina þannig að það er auðvitað
draumur að geta leikstýrt óperu,“ segir Þór-
unn og tekur fram að hún búi einnig að því í
uppsetningarvinnunni að kunna þýsku eftir
áralanga búsetu erlendis.
Söngvurum líði vel á sviði
„Þegar ég hugsa til baka sé ég að það bjó aug-
ljóslega í mér leikstjóri meðan ég var í tónlist-
arnáminu. Því þegar ég fór með öðrum söngv-
urum á óperusýningar höfðu þau mestan
áhuga á söngnum meðan ég var alveg jafn upp-
tekin af sviðsetningunni og sjónrænni um-
gjörð,“ segir Þórunn og tekur fram að móðir
hennar, Jónína Michaelsdóttir, hafi verið mik-
ill örlagavaldur í lífi hennar. „Ég var 17 ára
þegar hún skrifaði æviminningar Þuríðar Páls-
dóttur óperusöngkonu. Á háskólaárunum, þeg-
ar ég vissi ekki alveg hvað ég vildi, stakk
mamma upp á því að ég færi í söngnám. Þegar
ég fór upp á svið uppgötvaði ég hvað mér
fannst það gaman. Leikstjórnin kom síðan í
beinu framhaldi af tónlistinni. Mamma hvatti
mig einmitt til að fara til útlanda í nám.“
Spurð hvernig leikstjóri hún sé svarar Þór-
unn því til að hún sé mjög skipulögð, sem skýr-
ist sennilega af búsetu hennar í Þýskalandi.
„Ég sæki mér orku frá náttúrunni, enda mikið
náttúrubarn. Áður en ég byrja að leikstýra
kynni ég mér auðvitað verkið mjög vel, bæði
tónlist og texta, og nýt þess að ganga úti í nátt-
úrunni, en þá koma til mín alls kyns myndir í
huganum. Mér finnst mikilvægt – ég tala nú
ekki um í uppfærslu eins og núna þar sem mik-
ið er um unga söngvara – að þeim líði vel og
séu örugg á sviðinu þannig að þau geti notið sín
vel. Hluti af vinnu leikstjórans felst einmitt í
því að láta söngvarana njóta sín vel á sviði.“
Þess má að lokum geta að næstu sýningar á
Hans og Grétu verða fimmtudaginn 29. nóv-
ember kl. 19 og laugardaginn 8. desember og
sunnudaginn 9. desember kl. 15 báða daga.
Þórunn Sigþórsdóttir segir
mikið fagnaðarefni að með upp-
færslunni sé hópi ungra söngv-
ara gefinn kostur á að spreyta
sig hjá Íslensku óperunni.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Lifandi og skemmtilegt verk“
Íslenska óperan frumsýnir Hans og Grétu eftir Engelbert Humperdinck í Norðurljósum Hörpu á morgun, sunnudag, kl. 15 í
leikstjórn Þórunnar Sigþórsdóttur. Hún segir ævintýri eiga erindi við fólk á öllum aldri, enda upplifunin ólík eftir æviskeiðum.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is
’Þegar ég hugsa til baka sé égað það bjó augljóslega í mérleikstjóri meðan ég var ítónlistarnáminu. Því þegar ég fór
með öðrum söngvurum á óperu-
sýningar höfðu þau mestan
áhuga á söngnum meðan ég var
alveg jafn upptekin af sviðsetn-
ingunni og sjónrænni umgjörð.