Morgunblaðið - 08.05.2019, Page 18

Morgunblaðið - 08.05.2019, Page 18
18 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 8. MAÍ 2019 ✝ Kristberg Ósk-arsson fæddist í Reykjavík 14. febr- úar 1957. Hann lést í Reykjavík 30. apríl 2019. Foreldrar: Jó- hanna Margrét Þor- geirsdóttir, skóla- liði, frá Túnsbergi í Hrunamanna- hreppi, f. 6.9. 1926, og Óskar Sumar- liðason, húsamiður frá Ólafsvík, f. 25.6. 1920, d. 1.6. 1971. Systkini Kristbergs eru Gunn- hildur, f. 16.3. 1950, Katrín, f. 10.5. 1951, Pétur Árni, f. 28.8. 1952, Þorgeir og Sumarliði, f. 8.3. 1955, Hafsteinn, f. 11.12. 1959. og Margrét Dröfn, f. 21.12. 1963. Eftirlifandi eiginkona Krist- bergs er Ingiríður Brandís Þórhalls- dóttir, f. 12. ágúst 1956. Börn þeirra eru Harpa Stefáns- dóttir, f. 16. maí 1983, Brandís Krist- bergsdóttir, f. 12. október 1987, d. 17. febrúar 1997. og Bergþóra Krist- bergsdóttir, f. 3. september 1992. Kristberg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamra- hlíð 1979 og stundaði nám við Stokkhólmsháskóla. Lengst af ævinnar starfaði hann við skilta- gerð. Útför hans fer fram frá Ás- kirkju í dag, 8. maí 2019, klukkan 13. Það er svo margt fallegt hægt að segja um pabba minn; hvað hann var duglegur, gáfaður og hæfileikaríkur. Ég var svo stolt af pabba mínum. Í mínum huga vissi hann allt og gat allt. En það vita allir sem þekktu hann. Ég get varla lýst því hvað hann var óendanlega góður og blíður maður. Það er eiginlega lygilegt. Ég varð aldrei vitni að því að hann hafi verið ósann- gjarn í garð einhvers, hvorki manna eða dýra. Hann var mjög umburðarlyndur maður. Hann vildi alltaf hjálpa öllum og brást mér aldrei þegar ég bað hann um aðstoð. Hann var aldrei of upptekinn eða ekki í stuði. Hann hjálpaði með ánægju og ég held að stundum hafi hann skemmt sér betur en ég. Ég vildi einu sinni búa til Playmo stopmotion-kvikmynd og þá stillti hann upp kvikmyndaveri í borðstofunni og við eyddum heil- um degi í þetta. Hann hjálpaði mér að hanna nýja útgáfu af Pokémon-spilum sem ég kallaði Ubbamon. Við hönnuðum spilin í sameiningu og hann prentaði út ekta spil. Hann reyndi meira að segja að búa til gítar úr pepsidós af því ég bað hann um gítar. Það var frekar lélegur gítar en hann hafði gaman af því að búa hann til og spila á hann sjálfur. Ég hafði svo óbilandi trú á honum að á unglingsárunum bað ég hann um að smíða samuraisverð með mér. En það var í eina skiptið sem ég man eftir því að hann sagði nei við mig. Hann kannaði samt málið með mér en komst að því að þetta verkefni væri okkur ofviða. Það er svo skrítið að hugsa til þess að svona hélt ég að allir pabbar væru. En nú veit ég hvað við syst- urnar vorum heppnar að eiga svona ofurpabba. Það var alltaf svo gaman hjá okkur. Pabbi var eins og besti leikfélaginn. Það sem var vesen í mínum huga fannst honum skemmtilegt og áhugavert. Það var eins og hann hafi aldrei tap- að þessari barnslegu forvitni sem gerir tilveruna svo spenn- andi. Hann vildi skilja hvernig hlutirnir virkuðu og hann vildi alltaf vita meira. Hann var alltaf svo glaður. Hann var yfirvegað- ur og rólegur á yfirborðinu og tók sig ekki of alvarlega. Hann kunni að fíflast og samdi óteljandi góða pabba- brandara sem hann hló mest að sjálfur, á innsoginu. Alltaf stutt í brosið, svo innilegt og einlægt. Hjá honum fann ég öryggi. Ég gleymi því aldrei þegar ég fékk brjálæðiskast og var óhugg- andi. Þá hélt hann mér fast þó ég reyndi að sparka og lemja. Hann reiddist ekki og skamm- aði mig ekki. Hann hélt mér bara þangað til á endanum ég ró- aðist. Það var alltaf hægt að treysta á þennan yfirvegaða mann. Hann gerði allt fyrir okkur. Eftir að hann greindist með krabbamein vann hann hörðum höndum við að klára íbúðina fyr- ir mig, í kappi við tímann. Það tókst hjá honum. Þegar hann hafði heilsu til fór hann út í garð að vinna. Ég mun alltaf muna eftir honum þannig, hraustum, úti í garði að gera eitthvað. Bergþóra Kristbergsdóttir. „Þá er næst að segja frá Kidda, hann er alveg ágætur. Myndarlegur, skemmtilegur, duglegur, kurteis, tillitssamur, kátur, hjálpsamur, ég tel ekki fleiri kosti upp, en að síðustu, hann var hjá Ingu þegar hún fæddi og hann var látinn klippa á naflastrenginn.“ Þessi lýsing á fyrstu kynnum móðurömmu minnar af pabba fannst í bréfi sem hún sendi afa frá Stokkhólmi í maí 1983. Tveimur dögum eftir að ég fæddist. Ég er ekki Kristbergsdóttir því hann var ekki blóðfaðir minn, en hann ákvað að ganga mér í föðurstað þegar ég var enn í móðurkviði. Hann var með mér frá upphafi og hefur alltaf verið alvöru pabbi minn. Með árunum fór mér að þykja vænna og vænna um þessa upprunasögu og fannst samband okkar bara vera sérstakara fyrir vikið. Það var ekki okkar stíll að tala mikið eða opinskátt um tilfinn- ingar, en eitt sumarkvöldið þeg- ar við sátum saman við eldinn sagði hann mér söguna af því þegar hann kynntist mömmu úti í Svíþjóð og hún sagði honum að hún ætti von á barni. Þegar hann rifjaði upp hvern- ig hann hefði heldur betur verið til í að ala upp þetta barn, brosti hann sínu undurblíða brosi og ljómaði eins og sólin. Við þrjú áttum líka enda- lausar sólskinsstundir saman fyrstu árin. Þær sem ég man ekki eftir eru samt órjúfanlegur hluti af æskuminningunum. Vegna þess að eftir pabba liggja þúsundir ljósmynda og ótal kvik- myndir af okkur fjölskyldunni, sem við skoðuðum saman aftur og aftur þar til þær runnu saman við minningarnar. Svo bættust Brandís og Berg- þóra í hópinn og hann helgaði líf sitt okkur systrum og heimilinu á Hjallavegi 23. Hann var ævin- týrasmiður og virtist geta galdrað hvað sem er fram úr erminni. Það voru aldrei til mikl- ir peningar en hann bjó hlutina bara til sjálfur. Kofa, barbíhús, tréhesta, sverð, kanínubúr, trjá- stiga, rólur, sandkassa, snjóhús, trommur og hvað sem okkur datt í hug. Hann gat og kunni allt. Hann var alltaf til staðar og hjálpaði okkur við blaðaútgáfu, kvik- myndagerð, leikrit, ljósmyndun, myndsköpun og listasýningar. Þegar hugmyndir kviknuðu hvatti hann okkur til að fram- kvæma þær, veitti okkur sjálfs- traust til að gera hlutina sjálfar og fullvissuna um að hann myndi hjálpa með það sem við gátum ekki gert. Þegar ég fór til pabba með vandamál þá kom hann með lausnina. Þegar ég fékk hug- mynd, sama hversu óraunhæfa, var svarið alltaf „Það er allt hægt!“ Pabbi upplifði mikinn missi og djúpa sorg á lífsleiðinni. Hann var ekki trúaður maður, en þeg- ar eilífðina, dauðann og tilgang lífsins bar á góma lagði hann áherslu á að við lifum áfram í minningu annarra, í verkum okkar og þeim áhrifum sem við höfum á annað fólk. Hann hafði óendanlega mikil og góð áhrif á mig og kenndi mér svo margt. Ég er umkringd verkum hans alla daga og hann mun lifa í minningunni sem besti maður sem ég hef nokkurn tím- ann kynnst. Hjálpsamur, óeigin- gjarn og réttsýnn mannvinur. Lífsglaður, brosmildur, listrænn og skapandi maður með yfir- náttúrulegt verksvit. Ævintýrasmiður æsku minnar. Heimsins blíðasti og besti pabbi. Harpa Stefánsdóttir. Í dag kveðjum við Kristberg bróður okkar, Kidda eins og við kölluðum hann alla tíð. Hann bjó í foreldrahúsum í Mosgerði til 23 ára aldurs. Þá hélt hann til Stokkhólms til kvikmyndanáms og þar kynntist hann Ingu. Þegar í barnaskóla sást hve sérlega laginn Kiddi var við teikningu og smíðar. Afköstin voru mikil og gæðin og hug- myndaflugið langt umfram það sem búast mátti við af jafn- öldrum. Hann smíðaði alls kyns listilega skreytt vopn til að nota í leik og vöktu smíðagripir hans athygli. Þegar faðir okkar féll frá var Kiddi á unglingsaldri. Þá tók hann á sig aukna ábyrgð með bræðrum sínum á framkvæmd- um heima við. Á unglingsárum beindist athygli Kidda að mynd- list. Málaði hann nokkrar mynd- ir áður en hann sneri sér að kvikmyndagerð. Nokkur súr- realísk verk prýða enn veggi í Mosgerði. Kiddi hafði mikinn áhuga á báta- og skipasmíði í gagnfræða- skóla og tók því stefnuna á skipatæknifræði eftir landspróf. Hann hætti náminu og fékk vinnu í Stálsmiðjunni þar sem hann lærði að vinna með stál og aðra málma. Áhugi hans á skipa- smíði sést vel á skipalíkönum og teikningum sem eftir hann liggja. Í foreldrahúsum hannaði Kiddi, smíðaði og málaði her- bergi sitt svo það var sem eitt samfellt listaverk. Hugmynda- auðgi hans og handlagni naut sín vel í ævistarfi hans síðar meir við skiltagerð. Kiddi eignaðist kvikmynda- tökuvél 17 ára gamall og byrjaði þá að gera 8 mm stuttmyndir þar sem systkini og vinir léku ýmis hlutverk. Hann lék þó sjálfur í mynd sinni, Listaverk, sem hlaut bronsverðlaun á norrænni kvik- myndahátíð áhugafólks um stuttmyndagerð. Okkur eru kærar og eftir- minnilegar heimildamyndir Kidda frá slóðum foreldra okkar í Ólafsvík og á Túnsbergi. Það var alltaf hátíðarstemning í Mos- gerði þegar filmurnar komu úr framköllun, þær klipptar og hægt var að efna til fjölskyldu- sýningar. Í MH var Kiddi virkur í kvik- myndaklúbbi framhaldsskól- anna, Fjalakettinum, meðal ann- ars sem formaður. Hann fékk til liðs við sig félaga sína í skólanum til að taka þátt í gerð nokkurra mynda. Metnaðarfyllsta myndin sem hann leikstýrði, Himna- hurðin breið, var poppópera sem sýnd var í Regnboganum og í sjónvarpinu. Sökum þessa var hann iðulega kallaður Kiddi kvik. Þó að metnaður Kidda á kvik- myndasviðinu hafi dvínað var hann samur við sig hvað varðaði hönnun og smíði. Á fimmtugs- aldri lauk hann húsasmíðanámi við FB sem nýttist honum vel við endurbætur á húsi þeirra Ingu á Hjallaveginum. Því verki sinnti hann af sama áhuga og leikni og öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Það var ánægjulegt að fylgjast með þeim Ingu sem stóðu þétt saman og nutu þess að endurskapa heimili sitt. Kidda var mjög um- hugað um að ljúka framkvæmd- um við húsið þeirra þegar hann vissi hvert stefndi. Inga og Kiddi og fjölskyldan öll tókust á við mikinn harm þeg- ar Brandís dó ung að árum og nú takast þær mæðgur aftur á við sorgina við fráfall eiginmanns og föður. Hugur okkar er hjá þeim og við sendum þeim og mömmu okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Gunnhildur, Katrín, Pétur, Þorgeir, Sumarliði, Hafsteinn og Margrét. Kiddi hefur verið hluti af fjöl- skyldu okkar systkinanna frá því áður en við fæddumst. Þó að hann væri maður systur pabba fannst okkur hann vera meira eins og frændi okkar. Fjölskyld- ur okkar voru mikið saman og öll stórfjölskyldan mjög samhent og Kiddi var svo mikill partur af þessu öllu, fastur punktur alltaf. Hann var ljúfur og góður maður, alltaf glaðlegur og róleg- ur. Eiginlega má segja að orða- tiltækið gull af manni hafi verið samið um hann. Alltaf til í að hjálpa og fannst það aldrei neitt mál. Hann gaf til dæmis Kolbirni sverð í níu ára afmælisgjöf og smíðaði svo, að beiðni Kol- bjarnar, skjöld við með ísbjörn sem skjaldarmerki. Þetta er ger- semi sem verður varðveitt lengi. Kiddi gat allt, fannst okkur þegar við vorum lítil og þess vegna til dæmis bað Kolbjörn Kidda einu sinni að smíða sjón- varp fyrir sig því þá vantaði hann sárlega um svoleiðis í her- bergið sitt. Við minnumst þess þegar grillað var í garðinum á Hjalla- vegi, þeim mikla partístað og svo voru allar sumarbústaðaferð- irnar. Þetta er svo ótrúlega ósann- gjarnt allt saman en það eru for- réttindi að hafa haft Kidda í fjöl- skyldu okkar í öll þessi ár og við erum þakklát fyrir allar góðu stundirnar. Ísafold Björgvinsdóttir, Kolbjörn Björgvinsson. Allir sem minnast Kidda eiga án efa í hugskoti sínu myndina af þúsundþjalasmiðnum, listamann- inum og dugnaðarforkinum sem alltaf var að. Þetta allt var hann vissulega, en hann var líka svo miklu meira. Börnin okkar Kidda eru systkinabörn, og í gegnum börn- in sín sér maður fólk á ákveðinn hátt, auk sinnar eigin sýnar á viðkomandi. Í gegnum uppvöxt sinn upplifðu börnin mín Kidda sem skilyrðislaust góðan mann sem ekkert gat haggað; aldrei reiður, aldrei pirraður, alltaf glaður í viðmóti, alltaf til í að skoða af virðingu hugmyndir eða óskir sem settar voru fram um að smíða sjónvörp eða víkinga- skildi ef þannig stóð á, og reiddi jafnvel fram umbeðið trésverð eða framkallaði myndir þegar þörf var á slíku í leik og starfi frændsystkinanna. Og svona var Kiddi auðvitað, þetta var sá kjarni sem ég þekkti líka. Svo var það listamaðurinn í honum, listasmiðurinn sem sí- fellt var að skapa, alltaf að finna út úr málum, sökkti sér niður í að skoða bestu leiðirnar til að vinna bæði hin fíngerðustu og hin grófustu verk – skákborð eða nýr kvistur á þakið, steypt eld- stæði í garðinn, nákvæmt líkan af húsinu áður en framkvæmdir við risið hófust, allt var listasmíð. Meistaralega gott súrdeigs- brauð bakaði hann, hvað þá meir, gert frá grunni og af sömu alúð og vandvirkni og annað sem hann vann. Allt sem hann gerði var með þeim brag að svo virtist sem ekkert væri haft fyrir því; einn daginn var til dæmis skyndilega búið að umbreyta stóru tré í frá- bært borð og bekki við eld- stæðið, og fjölga sólskinsstund- unum í garðinum í leiðinni. Á blíðviðriskvöldum hefur í gegnum tíðina verið gaman að safnast saman í hópi góðra vina og fjölskyldu við eldinn, grilla, fá sér bjór og spjalla fram eftir öllu. Skella sér í lopapeysu eða sveipa sig ullarteppi eftir því sem íslenska kvöldið færir sig upp á skaftið, en eldurinn hans Kidda náði þó alltaf best að halda á samkomunni hita. Það er sannarlega skarð hoggið í þann hóp sem þarna mun safnast saman í framtíðinni, en þá er gott að eiga góðar minn- ingar um skemmtilegan vin og greiðvikinn með eindæmum, og um frábæra fyrirmynd barnanna sinna. Minningar um ómetanlegar stundir við eldinn í garðinum, sil- ungsveiði uppi á heiðum þegar börnin okkar voru lítil, útilegur, sumarbústaðaferðir og ótal ofur hversdagslegar heimsóknir í góða nærveru fjölskyldunnar allrar (Tobbi auðvitað meðtalinn – aðalatriðið eftir honum sjálfum að dæma). Minningarnar ylja, líkt og eldurinn í fallega eldstæðinu hans Kidda mun án efa gera áfram á íslenskum sumar- kvöldum. Kærleikskveðjur til ykkar, elsku Inga vinkona mín, og elsku Harpa og Bergþóra. Sigrún Björk. Morguninn eftir að ég hafði fengið þá frétt að Kiddi væri dá- inn ákvað ég að fara til mæðgn- anna á Hjallaveginum. Á leið- inni, á meðan veröldin dróst saman og varð að pínulitlum punkti, rifjaðist upp fyrir mér að ég hefði þekkt Kidda í þrjátíu og sex ár. Hann kom inn í líf mitt og okkar í fjölskyldunni þegar ég var sextán ára. Við Kiddi brölluðum margt saman, gengum á fjöll og hóla og töluðum oft og lengi saman um kvikmyndagerð og stjórnmál. Og viðhald húsa. Á Sæbrautinni rann það upp fyrir mér að Kiddi var ekki bara mágur minn, við vorum vinir. Við vorum nánir á okkar hátt og í raun gæti ég sem best sagt „Kiddi bróðir“ eins og Kiddi mágur. Og þegar ég beygði inn Langholtsveginn hugsaði ég að það væri kannski svolítið seint að fatta þetta núna, daginn sem hann dó en ég held við höfum báðir vitað þetta. Og það þarf ekki alltaf að segja allt. Í einni fjallgöngunni kenndi Kiddi mér það heilræði að tvennt væri mikilvægast þegar gengið væri á fjöll: að vera vel étinn og vel sofinn. Ég hef síðan farið eft- ir þessu og yfirfært á lífið sjálft. Hef eiginlega aldrei verið svang- ur síðan eða vansvefta. Þá vorum við staddir uppi á Fimmvörðu- hálsi þar sem eldgosið hafði búið til tvö lítil fell. Okkar Kidda fannst tilvalið að annað þeirra fengi nafnið Kristberg og hann gekk upp á tind þess af því til- efni en því miður festist nafnið ekki. Það mun þó alltaf heita Kristberg í okkar landabréfa- bók. Ef það væri í boði þá er varla hægt að hugsa sér betri bróður en Kidda. Hann var hjálpsamur með afbrigðum og bóngóður þrátt fyrir að vinna mikið og hafa ærin verkefni heima fyrir auk áhugamála. Hann virtist lifa eftir gamla boðorðinu að til- gangur lífsins sé að láta gott af sér leiða og hjálpa öðrum. Kristberg var einstaklega geðgóður og ljúfur maður, með fallega og þægilega nærveru. Hann var traustur og hugul- samur heimilisfaðir, elskaði dæt- ur sínar þrjár skilyrðislaust og studdi þær á alla lund, eins og pabbar eiga að gera. Hvílíkur faðir. Og hann stóð þétt við hlið Ingu, systur minnar. Inga og Kiddi voru lífsförunautar, vinir og elskendur. Á milli þeirra var band sem slitnaði ekki. Þau voru eins og lítið samvinnufélag, með þennan Hjalla sinn, með dæturnar þrjár, húllumhæ í garðinum og ferða- lög í aðra fjórðunga. Svona var Kiddi sem sagt. Góður og vandaður að allri gerð, fríður maður, sviphreinn og kurteis í fasi, en á sama tíma glaður á góðri stundu með vinum og fjölskyldu. Fallegur yst sem innst. Heyrði hann aldrei segja styggðaryrði um nokkurn mann, nema einstaka stjórnmálamenn en þar hafði hann reyndar rétt fyrir sér. Hann kom inn í líf okkar og svo fór hann. Í sorginni og skiln- ingsleysinu spyr maður: og hvað svo? Og svarið er: ekkert. Við höldum bara áfram. Um leið og við í fjölskyldunni sendum Ingu, Hörpu, Bergþóru, Jóhönnu og systkinum Krist- bergs okkar hlýjustu strauma minnumst við hans með þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta vin- áttu hans og samveru. Við þökkum fyrir okkur. Björgvin Þór Þórhallsson og fjölskylda. Kristberg Óskarsson, mágur minn og vinur, er látinn og Kristberg Óskarsson Frímann & hálfdán Útfararþjónusta Frímann 897 2468 Hálfdán 898 5765 Ólöf 898 3075 Sími: 565 9775 www.uth.is uth@uth.is Cadillac 2017 Sálm. 9.11 biblian.is Þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér því að þú, Drottinn, bregst ekki þeim sem til þín leita.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.