Morgunblaðið - 23.05.2019, Blaðsíða 66
AF KRÚNULEIKUM
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Varúð! Spilliefni! Hér verðurfjallað um Game of Thro-nes og þá meðal annars
lokaþáttinn sem allir aðdáendur
eiga nú að hafa séð. En ef þú, les-
andi góður, hefur ekki séð hann
skaltu geyma pistilinn og lesa
hann seinna.
Jæja, þá er þetta búið. Búið að
sýna seinasta þátt Game of Thro-
nes (GoT) og alls staðar loga eld-
ar, ekki bara í borg hinnar föllnu
drottningar Cersei í lokaþættinum
heldur líka á netinu og einkum þó
á samfélagsmiðlum, nema hvað.
Aðdáendur í þúsunda- og jafnvel
milljónatali eru alveg brjálaðir yf-
ir leikslokum, sárlega vonsviknir
og yfir milljón þeirra krefst þess
að öll áttunda þáttaröðin – sem
samanstóð af sex sérlega löngum
þáttum – verði endurgerð. Halló,
endurgera alla þáttaröðina?!
Hversu sjúkleg getur aðdáun á
sjónvarpsþáttum eiginlega orðið?
Skiptir þetta virkilega svona
miklu máli, eitthvert ævintýri um
sjö ímynduð kóngsríki með drek-
um, geldingum og dvergum, villi-
mönnum, risum og lifandi dauð-
um? Jú, þetta skiptir víst marga
miklu meira máli en þriðji orku-
pakkinn, ótrúlegt en satt. Og að-
dáunin á GoT er ekkert grín. Hún
er engu lík.
Ógurleg aðdáun
Árið 2012 komst vefurinn Vult-
ure að þeirri niðurstöðu að ekkert
fyrirbæri ætti sér eins dyggan og
fjölmennan hóp aðdáenda og um-
ræddir þættir. Að sá hópur gnæfði
yfir aðdáendur Lady Gaga, Just-
ins Biebers, Harrys Potters og
meira að segja Stjörnustríðs!
Hvernig þessar mælingar fóru
fram fylgir nú ekki sögunni ná-
kvæmlega en líklega ná þær yfir
fjölda skráðra í aðdáendaklúbbum
á vefsíðum og samfélagsmiðlum,
uppákomur tengdar GoT, nafn-
giftir barna (margar stúlkur hafa
víst hlotið nafnið Arya), varning
hvers konar og auðvitað áhorf. Að
Dreki úti í mýri, úti er ævintýri
Alráð Drottningin og drekamamman Daenerys Targaryen frammi fyrir fjölmennum her sínum.
ekki sé minnst á öll GoT-hljóð-
vörpin og þau nú heldur misjöfn
að gæðum.
Hver rótin er að þessu fyrir-
bæri, slíkri ógnaraðdáun á menn-
ingarafurð, í þessu tilfelli sjón-
varpsþáttaröð, er líklega best að
félags- og sálfræðingar svari en ég
myndi giska að þar komi til þörfin
fyrir afþreyingu, að flýja hvers-
dagsleikann inn í ímyndaðan heim
og tilheyra einhverjum hópi, vera
hluti af hjörðinni. Og vei þeim
sem halda því fram að þetta sé
bara bull og vitleysa og hreykja
sér af því að þeir horfi ekki á
þættina! Þau geta bara verið úti!
Og vei þeim líka sem hafa ekki
samúð með GoT-fólki sem grætur
nú hörmuleg örlög aðalpersóna
þáttanna. Sem betur fer lifði Ty-
rion af en þurfti virkilega að
drepa Daenerys drekamóður? Nú
er afkvæmi hennar, drekinn, flog-
inn út í buskann og kemur aldrei
aftur. Allt Jon Snow að kenna sem
gat ekki mannað sig upp í að til-
kynna þegnum sínum að hann
væri hinn réttborni erfingi krún-
unnar. Þorði ekki að mótmæla
kærustunni sem reyndar var líka
frænka hans. Vonandi er honum
kalt á eyrunum og tánum þarna
lengst uppi í Norðrinu!
Vinsælustu þættir sögunnar
Nú kunna einhverjir að koma af
fjöllum, nú eða handan yfir Vegg-
inn eins og GoT-unnendur myndu
eflaust orða það. Hvað er þetta
Game of Thrones spyrja eflaust
amma gamla og afi. Jú, GoT eru
vinsælustu sjónvarpsþættir allra
tíma, hvorki meira né minna.
Áskriftarsjónvarpsstöðin HBO
framleiddi þá, sú hin sama og boð-
aði nýja tíma hvað gæði sjón-
varpsþátta varðaði með Sopranos-
þáttunum og The Wire og náði
gríðarvinsældum líka með þáttum
á borð við Beðmál í borginni. Ekk-
ert er til sparað í framleiðslu
þátta HBO og það sést glöggt á
útkomunni. Game of Thrones hóf
göngu sína í apríl 2011 og lauk nú
á sunnudaginn, 19. maí, 73 þáttum
síðar. Hafa aðdáendur því fylgst
með þessu mikla ævintýri í rúm
átta ár og finna margir til frá-
hvarfseinkenna nú þegar allt er
búið. Er talað um tómleikatilfinn-
ingu og viðskilnaðinum jafnvel líkt
við sambandsslit. Líkt og þegar
Dallas kláraðist hér um árið, van-
sællar minningar.
Yfir 11 milljarðar króna
Game of Thrones voru ekkert
venjulegir sjónvarpsþættir, ekki
Chicago Fire eða eitthvað þaðan
af verra. Hver þáttur jafnaðist á
við kvikmynd í dýrari kantinum
hvað umstang varðar, fjölda töku-
staða (Ísland þeirra á meðal),
magnaða búningaframleiðslu,
sviðsmyndir og -muni hvers konar,
brynjur, hjálma, sverð, skildi, hús-
gögn og svo framvegis. Og ekki
má gleyma list hinna snjöllu tölvu-
teiknara sem sköpuðu eftirminni-
legt landslag og furðuskepnur á
borð við dreka, tröll og úlfa. Að
ekki sé minnst á hina lifandi
dauðu og konung þeirra. Alltaf
gaman að zombíum.
Samkvæmt upplýsingum á net-
inu kostaði fyrsti þátturinn allt að
10 milljónir dollara í framleiðslu,
um 1.260 milljónir króna.
Framleiðslukostnaður við fyrstu
þáttaröðina var 60 milljónir doll-
ara, um 7,5 milljarðar króna. Og
eftir því sem þættirnir urðu vin-
sælli og áhorfið meira jókst kostn-
aðurinn og herma fregnir að síð-
asta þáttaröðin, sú áttunda, hafi
kostað um 90 milljónir dollara,
jafnvirði um 11,3 milljarða króna.
Þættirnir voru aðeins sex en ef
mótmælendur hefðu sitt fram og
þáttaröðin yrði endurgerð þyrfti
aftur að ausa yfir 11 milljörðum í
þættina og líklega meiru því ef-
laust yrði gerð krafa um að þætt-
irnir yrðu tíu svo hægt væri að
hnýta almennilega hina meintu
lausu enda. Kannski er það ekki
svo galið sé litið til þess að þætt-
irnir eiga sér milljónir aðdáenda
um allan heim sem myndu sitja
límdir við skjáina sem fyrr.
Enn verpir hænan
Kæru aðdáendur, þið þurfið
ekki að örvænta því gullhænunni
verður ekki slátrað. Nei, fram
undan eru alls konar afleggjarar
og formálar að ævintýrinu sem
George R.R. Martin skrifaði upp-
haflega og gaf út á bókum með yf-
irskriftinni A Song of Ice and Fire
(reyndar eru aðeins fyrstu sex
þáttaraðirnar byggðar á bókum
Martins og þær sem á eftir fylgdu
þykja bera þess merki, þykja síðri
þeim fyrri og handritin oft ansi
götótt). En slíkir útúrdúrar munu
aldrei koma í stað hinna upp-
haflegu þátta og hvað lokaþáttinn
varðar er skaðinn skeður. Já,
skaðinn segi ég því ég er sammála
þeim sem eru ekki sáttir við mála-
lok þótt seint muni ég teljast
harður aðdáandi. Mér er þannig
séð alveg sama um hvernig þetta
endaði en heldur voru málalokin
þó úr takti við það sem á undan
var gengið. Nær hefði verið að
enda syrpuna með fimmta þætti
en ekki þeim sjötta því endirinn á
þeim fimmta var svo til fullkom-
inn. Daenerys Targaryen, dreka-
móðir og verðandi drottning kon-
ungsríkjanna sjö, sýndi þar sitt
rétta andlit og brenndi heila borg
til grunna með manni og mús og
höllin hrundi bókstaflega yfir hina
ríkjandi drottningu, nornina Cer-
sei. Við blasti algjör eyðilegging
og nýr og líklega enn verri heimur
með grimman einræðisherra við
stjórnvölinn. Í upphafi sjötta þátt-
ar sést Daenerys ávarpa heri sína
í atriði sem minnir á ramma úr
Sigri viljans eftir Leni Riefenstal.
Slæmur endir heldur betur, al-
menn óhamingja og fullt af laus-
um þráðum sem aldrei verða
hnýttir. Er það ekki bara í fínu
lagi?
»Hver þáttur jafn-aðist á við kvikmynd
í dýrari kantinum hvað
umstang varðar, fjölda
tökustaða (Ísland þeirra
á meðal), magnaða bún-
ingaframleiðslu, sviðs-
myndir og muni hvers
konar, brynjur, hjálma,
sverð og skildi.
66 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. MAÍ 2019
Ljósmyndir Rutar og Silju
Skipholti 31 • 105 Reykjavík • Sími 568 0150
Opið virka daga 10-17 • www.rut.is • Ljósmyndir Rutar og Silju
Einstök
minning
Útskriftar-
myndatökur