Dagblaðið Vísir - DV - 20.12.2019, Blaðsíða 10
10 20. desemberFRÉTTIR
AF HVERJU ÆTTI EINHVER
AÐ VILJA MIG?
n Eva var 34 ára þegar hún lét æskudrauminn rætast n Eini Íslendingurinn
með sjaldgæfan augnsjúkdóm
E
va Óskarsdóttir var 34 ára
gömul, tveggja barna móðir
þegar hún tók þá ákvörðun
að láta æskudrauminn
rætast og skella sér í leiklistarnám.
Hún hefur farið með aðalhlutverk
í kvikmynd og lauk nýlega
framleiðslu á annarri þar sem
hún fór einnig með hlutverk. Saga
Evu er áminning um að við erum
skaparar í eigin lífi.
Eitthvað vantaði
Árið 2010 hafði Eva verið búsett
í Austurríki um árabil ásamt
þarlendum eiginmanni og
tveimur börnum. Hún rak farsælt
fyrirtæki á sviði menntunar og
hafði komið sér vel fyrir í lífinu en
fann að eitthvað vantaði.
„Ég var eins og svo margar
íslenskar konur. Við eigum það
til að vinna eins og brjálæðingar.
Á þessum tíma var ég ekkert að
pæla í sjálfri mér og hugsaði
bara að ég yrði að sýna öllum
hvað ég kynni; ég væri einskis
virði ef ég væri ekki að vinna
eins og vitleysingur.
Ég var komin með einhverja
250 kúnna, fjölda starfsmanna
og staðan var þannig að ég þurfti
annaðhvort að minnka við mig
eða stækka við mig. En ég vissi
að þetta var ekki minn draumur.
Minn draumur var alltaf leiklist.
En ég hafði alltaf lokað á
leiklistina, ég var svo hrædd við
það. Af hverju ætti einhver að
vilja mig?“ segir Eva í samtali við
blaðamann.
Mér skilst að þetta ár hafir
þú greinst með ólæknandi
augnsjúkdóm.
„Já, ég er víst eini
Íslendingurinn sem er með
þennan sjúkdóm. Þarna fékk ég
að vita að það væri ekki víst hversu
lengi ég myndi hafa sjón. Það er
víst mjög misjafnt hvernig þetta
er hjá þeim sem eru með þennan
sjúkdóm,“ segir Eva en hún notar
linsur í dag og er með rúmlega 70
prósenta sjón á vinstra auganu.
Sjúkdómsgreiningin skapaði
þrýsting á Evu um að fara að
lifa í núinu.
„Ég varð svo rosalega hrædd,
enda með tvö ung börn. Ég ætlaði
ekki að verða blind, það kom ekki
til greina. En á endanum reyndist
þessi sjúkdómur vera mín blessun.
Þetta hristi upp í mér og fékk mig
til að horfa á líf mitt. Ég var 34 ára,
með fyrirtæki sem gekk vel, ég var
með fjölda fólks í vinnu, ég átti tvö
heilbrigð börn, ég var í hjónabandi
sem virkaði. En ég var ekki
hamingjusöm. Mér fannst ég vera
föst. Og ég hafði einhvern veginn
ekki gert mér grein fyrir því fyrr en
þarna. Það vantaði eitthvað.“
Eldri en sumir kennararnir
Eva rifjar upp atvik sem átti
eftir að hafa djúpstæð áhrif á
hana. Hún var stödd á Íslandi
ásamt eiginmanni og börnum
og þau fóru með fjölskyldu Evu í
sumarbústað.
„Allt í einu missti ég sjónina á
vinstra auga og allt varð svart. Ég
varð skíthrædd. Ég bað manninn
minn að fara og ná í strákinn
okkar, vegna þess að ég fann fyrir
sterkri löngun til að vera ein. Ég
fór út í náttúruna, sat þar alein
og grét og grét, talaði við guð og
alheiminn og lofaði að ef ég fengi
sjónina aftur þá myndi ég taka til
í lífi mínu, ég myndi passa sjálfa
mig. Sjónin kom aftur. Ég grét
þetta burt.“
Í kjölfarið seldi Eva fyrirtækið
og það gerði henni kleift að
fjármagna nám í leiklistarskóla
í Austurríki.
„Ég var náttúrlega langelst
af öllum í bekknum, flestir voru
í kringum 18, 19 ára. Ég var
meira að segja eldri en sumir
af kennurunum! Margir tímar
voru mjög erfiðir og ég efaðist
um sjálfa mig. Oft langaði mig
að gefast upp. Það kom auðvitað
upp þessi rosalega hræðsla:
hræðslan við að eldast, hræðslan
við að vera ekki lengur átján ára,“
segir Eva en hún tekur undir
með að konur verði mun oftar
fórnarlömb aldursfordóma en
karlar. Á meðan eldri karlmenn
mega safna gráu hári mega konur
varla fá hrukkur. „Ég hugsaði
loks með mér: „Jæja Eva, þá
verður þú bara þessi sem ryður
brautina, þú verður þá bara
fyrirmynd fyrir hina. Þessi sem
finnur sína leið.“ Eftir að ég lauk
náminu í Austurríki þá fann ég
á mér að ég þyrfti að fara á aðra
staði, kynnast öðru fólki, frá meiri
hreyfingu á líf mitt. Þannig að ég
fór til Þýskalands og Ítalíu og sótti
námskeið þar. Og síðan fór ég til
Los Angeles.“
Misjöfn viðbrögð frá fólki
Eva fékk mismunandi viðbrögð
þegar hún sagði fólki frá sínum
áformum.
„Ég fékk til dæmis að heyra
hvernig móðir og eiginkona ég
væri eiginlega, hvaða móðir færi
svona frá börnunum sínum? Ein
kona hló upp í opið geðið á mér
þegar ég sagði henni að ég væri
að fara til útlanda að læra leiklist.“
Hún segist heppin að hafa
fengið óendanlegan stuðning frá
eiginmanninum. „En auðvitað
var þetta erfitt fyrir hann, og
okkur. En hann var tilbúinn að
vinna í þessu með mér. Við eigum
tvö börn saman og við viljum
að þau eigi góða fyrirmynd í
mömmu sinni.“
Eva hefur nú farið fjórum
sinnum til Los Angeles þar sem
hún hefur dvalið í minnst sex vikur
í senn, og sótt leiklistarnámskeið
þar í borg. Hún hyggst fara aftur
á næsta ári.
„Þeir sem ég kynntist í náminu
voru bæði eldri og yngri en ég.
Það kom mér á óvart. Margir
þarna í Los Angeles eru búnir að
reyna í mörg ár að komast að í
bransanum, en eru búnir að gefast
upp. Þetta er bara of mikið. Fólk
verður þreytt og útbrunnið. Það er
að bíða eftir þessu „big break“ sem
er eiginlega ekki til. Þarna kom
ég, 37 ára gömul, með mína orku
og ég fann að fólk var hrifið. Ég er
eiginlega að byrja sem „newbie“
á tíma þar sem aðrar leikkonur
eru að hætta. Konur sem kannski
byrjuðu 18 ára, en eru núna búnar
að gefast upp.“
Dulbúin blessun
Eva hefur farið í nokkrar
áheyrnarprufur í Bandaríkjun-
um en sumarið 2017 skráði hún
sig á síðu fyrir leikara í borginni.
Tveimur dögum síðar fékk hún
boð í áheyrnarprufu fyrir stutt-
mynd og fékk hlutverkið.
Við tökurnar á þeirri stuttmynd
kynntist Eva leikstjóra frá Hong
Kong að nafni Woo Kwan og kom
þá upp úr kafinu að Kwan var að
leita að leikkonu fyrir spennu-
tryllinn Angels Never Cry. Eva fór
í prufu og hlutverkið var hennar.
Tökur fóru fram á Íslandi í mars á
seinasta ári en Eva fer með hlut-
verk listakonunar Theresu, sem
berst við sjúkdóm sem gæti svipt
hana sjón fyrir fullt og allt.
Í dag hefur Eva nýlokið vinnu
við kvikmyndina The Darker the
Lake í Austurríki þar sem hún
fór einnig með aukahlutverk;
lögreglustjóra. Um er að ræða
„mystery thriller“ og kínversk/
bandaríska/austurríska
samframleiðslu. Stefnt er á
frumsýningu á næsta ári.
„Þótt ótrúlegt megi
virðast þá varð þessi blessaði
augnsjúkdómur það besta sem
gat komið fyrir mig. Ég er svo
þakklát. Mér finnt svo mikilvægt
að við, og sérstaklega konur,
leyfum okkur að vera góð við
okkur sjálf. Leyfum okkar að vera
sjálfselskar. Ég hélt afar lengi að
ég væri ekki nógu góð, og ekki
nógu þetta eða hitt.“
Eva leggur áherslu á að það
sé aldrei of seint að láta drauma
rætast og að hindranirnar séu
fyrst og fremst í okkar eigin höfði.
„Ef þú losnar ekki við þennan
draum úr hausnum á þér, þá
skaltu elta hann. Bara „go for
it.“ Sama þótt þú sért tvítug, eða
sextug, eða áttræð. Við lifum
miklu lengur núna en áður. Ég er
bara rétt að byrja!“ n
Óvænt sjúkdómsgreining átti eftir að verða mikil blessun í lífi Evu.
Tökur á Angels Never Cry fóru fram á Íslandi á síðasta ári.