Skessuhorn - 06.03.2019, Side 22
MIÐVIKUDAGUR 6. MARS 201922
Það var líf og fjör á leiksviðinu í
félagsheimilinu Þinghamri í Staf-
holtstungum síðastliðinn sunnudag
þegar Leikdeild Umf. Stafholts-
tungna frumsýndi barna- og fjöl-
skylduverkið Rympa á ruslahaugn-
um. Verkið er eftir Herdísi Egils-
dóttur, kennara og leikritaskáld og
var það fyrst sýnt í Þjóðleikhúsinu
1980. Leikstjóri er Þröstur Guð-
bjartsson sem nokkrum sinnum
áður hefur leikstýrt Tungnamönn-
um við góðan orðstír. Skemmst er
frá því að segja að uppfærsla á verk-
inu var afar vönduð og hvert og
eitt hlutverk mannað af kostgæfni.
Einkar gleðilegt var að sjá svo
marga og upprennandi leikara stíga
á svið, jafnvel ungmenni á grunn-
skólaaldri, sem leystu sín hlutverk
með prýði.
Rympa á ruslahaugnum fjallar
um unga konu sem lent hefur
félagslega utan gátta við hið hefð-
bundna skilgreinda norm. Býr hún
því á haugunum og hennar traust-
asti vinur er dúkkan Volti, en einn-
ig nokkrar persónur sem þangað
leggja leið sína. Verkið er félagsleg
ádeila þar sem aðstæður og hlut-
skipti ungs fólks og eldri borg-
ara koma við sögu. Með burðar-
hlutverk, Rympu sjálfa, fer Sigur-
laug Kjartansdóttir. Þar er á ferð-
inni leikkona sem sýnt hefur áður,
en aldrei sem nú, hversu afburða
áhugaleikkona hún er. Svipbrigði
hennar, leikur, flutningur texta og
söngur, allan tímann lifir hún sig
inn í þann margbrotna karakter
sem hún túlkar. Þetta gaf sýning-
unni afar létt og skemmtilegt yfir-
bragð og þá er leikur annarra sem
koma við sögu einkar góður. Ekk-
ert fer á milli mála að handritið var
fullæft talsvert fyrir frumsýningu.
Meira að segja gáði undirritaður að
því undir lok sýningar hvort hvísl-
arinn væri nokkuð farinn að hengja
haus vegna verkefnaskorts, en svo
var reyndar ekki. Í verkinu er jafn-
framt tónlistarflutningur og tals-
vert sungið, en Hafsteinn Þórisson
stýrði tónlistinni og spilaði undir.
Herdís Egilsdóttir, höfundur
verksins, var viðstödd frumsýn-
inguna. Eftir að henni hafði verið
færð blóm ávarpaði hún gesti, en
einkum leikhópinn sjálfan. Sagðist
hún vart eiga orð yfir gleði hversu
vel var unnið úr öllum persónum
og leikgleðin hefði verið fölskva-
laus allan tímann. Hægt er að taka
undir orð höfundar og hvetja alla
sem vettlingi geta valdið að kíkja
á sýningu í Þinghamri. Þessi sýn-
ing hentar börnum frá sirka sex ára
aldri jafnt sem fullorðnum. Næsta
sýning á Rympu verður næstkom-
andi fimmtudagskvöld, þá miðdeg-
issýning laugardag og kvöldsýn-
ing sunnudagskvöld. Miðapantan-
ir og nánari upplýsingar eru í síma
824-1988. mm
Helgina 15. - 17. mars verður
Landsmót barna- og unglingakóra
haldið í Grundaskóla á Akranesi.
Mót eins og þessi eru haldin ann-
að hvert ár á mismunandi stöðum
á landinu og nú er komið að Akra-
nesi. Það er eldri hópur Skólakórs
Grundaskóla sem er gestgjafakór í
ár og stjórnandi kórsins, Valgerður
Jónsdóttir, heldur utan um skipulag
og framkvæmd mótsins fyrir hönd
Tónmenntakennarafélags Ísland,
KórÍs og Grundaskóla.
„Von er á um 250 söngglöðum
krökkum frá 5. bekk og upp úr en
þau munu vinna saman í söngs-
miðjum og halda svo lokatónleika
í Grundaskóla sunnudaginn 17.
mars kl. 13.30. Flestir eru kórarnir
af Suðvesturlandi en nokkrir þeirra
koma lengra, að t.a.m. einn frá Ak-
ureyri,“ segir Valgerður. „Áhersla
er lögð á að tengja mótið við bæj-
arlífið þannig að bæjarbúar geta átt
von á að rekast á kórana á flakki um
bæinn á laugardeginum. Þá koma
nokkrir kóranna fram á Dvalar-
heimilinu Höfða og í Akraneskirkju
auk þess sem lokatónleikarnir eru
öllum opnir.“
Valgerður segir að tónlistin sem
unnið verður með sé að hluta til eft-
ir Skagafólk og leitað var til tónlist-
arfólks og kennara á Akranesi með
ýmislegt tengt mótinu. Einnig æfa
kórarnir nýtt tónverk eftir Elínu
Gunnlaugsdóttur. „Verkið heitir
Fögnuður og var samið serstaklega
fyrir mótið. Skólakór Grundaskóla
fékk á dögunum úthlutað menn-
ingarstyrk frá Akraneskaupstað
sem gerir kórnum enn frekar kleift
að standa vel að mótinu. Bæjarbúar
eru hvattir til að mæta á lokatón-
leika kóramótsins sunnudaginn 17.
mars kl. 13.30 í sal Grundaskóla,“
segir Valgerður Jónsdóttir.
mm
Landsmót barna- og unglingakóra verður á Akranesi
Eldri hópur Skólakórs Grundaskóla ásamt stjórnandanum. Ljósm. Elís Þór Sigurðsson.
„En allt breytist í þessu lífi.“ Svo
skrifaði Muggur í sögunni um Dim-
malimm. Oft verður manni hugs-
að til þessa þegar maður verður í sí-
fellu að endurmeta hlutina. Atburð-
ir líðandi stundar knýja okkur til að
opna augun fyrir alþjóðleika og fjöl-
breytni. Sjálflægnin hopar og aðrar
þjóðir verða ekki lengur svo fjarlæg-
ar. Oft heyrum við af átökum úti í
hinum stóra heimi sem leiða af sér
hörmungar. Þar ásakar hver annan.
Á sama tíma vitum við ekki alltaf
hvað af daglegum fréttum er sann-
leikur. Kannski ætti að skoða bet-
ur það sem ekki var sagt, í því felst
líka sögutúlkun sem getur haft áhrif
á viðhorf okkar.
Um nákvæmlega þetta fjallaði
mögnuð sögumennska Bjarna Harð-
arsonar á Sögulofti Landnámseturs
síðastliðinn laugardag. Enn einu
sinni var upplifun að heimsækja
Söguloftið og upp í hugann kom
þakklæti áheyrandans til frumkvöðl-
anna Sigríðar Margrétar og Kjart-
ans sem þar ráða ríkjum.
Söguefnið í þetta sinn var sjálf
Brennu-Njálssaga sem hér stökk
síung fram á sjónarsviðið, sögð af
þekkingu, spennu og þéttum stíg-
anda. Maður sá Skarphéðin glotta
við tönn. Hér var orðheppinn og
hnyttinn sögumaður á ferð og oft
var hlegið. Þó duldist engum djúp-
ur undirtónninn og viss gagnrýni á
þessa bók sem svo lengi hefur fylgt
okkur og svo oft virst ósnertan-
leg. Verkið er sígilt og Bjarni vitn-
aði óspart til samtímans með því að
benda á hliðstæður. Sjálfur á hann
rætur á sögusviði bókarinnar en hef-
ur líka leitað víðari sýnar á fjarlæg-
um slóðum, dvalið í Afríku og sett
Njálu þar í nýtt samhengi. Áheyr-
endum Söguloftsins var bent á að
horfa til nýrra stranda, efast um allt
og alla og ekki síst okkur sjálf. Það er
hluti af þroskasögu þjóðar. Ég hvet
fólk til að fara og hlýða á þessa frá-
sögn, sem hrópar til okkar að hugsa,
greina og ræða - halda vöku okkar.
Njála er öflug og hefur enn sann-
að gildi sitt sem orðræðuvaki. Það
neistar þegar henni er stungið í sam-
band við nútímann.
Guðrún Jónsdóttir
Rafmögnuð Njála
á Söguloftinu
Skemmtun og boðskapur í
uppfærslu Rympu í Þinghamri
Hópurinn að aflokinni sýningu.
Herdís Egilsdóttir, Sigurlaug Kjartansdóttir (Rympa) með dóttur sína og Þröstur
Guðbjartsson.
Tvær af fastagestum á ruslahaugunum í gervi sínu. Áslaug Þorvaldsdóttir og Inger
Elísabet Eyjólfsdóttir.