Bændablaðið - 22.02.2018, Qupperneq 7

Bændablaðið - 22.02.2018, Qupperneq 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 22. febrúar 2018 Ungir umhverfissinnar eru félagasamtök og vettvangur ungs fólks sem vill láta gott af sér leiða í umhverfismálum. Félagið var stofnað árið 2013 og telur rúmlega 640 meðlimi allt í kringum landið. Hlutverk félagsins er að vera málsvari ungs fólks í umhverfismálum, hvetja til upplýstrar umræðu og standa vörð um rétt komandi kynslóða til jafns aðgangs að náttúruauðlindum. Fjölbreytt málefnastarf Pétur Halldórsson, líffræðingur og formaður samtakanna, segir að hjá félaginu starfi málefnanefndir um skólp og sorp, miðhálendið, sjávarmengun, auðlindanýtingu, friðlýst svæði, samgöngur, landgræðslu, matvælaframleiðslu, vatnsvernd, loftslagsmál, fiskeldi og alþjóðasamstarf. „Undir félagið falla einnig tvær landshlutanefndir, á Suðurlandi og Austurlandi, sem vinna að svæðisbundnum málefnum. Í gegnum slíkt málefnastarf verður til sérfræðiþekking ungs fólks með mismunandi reynslu og sýn á umhverfismál. Slík reynsla og þekking er nauðsynleg til að félagið geti tekið upplýsta afstöðu þegar kemur að því að hafa áhrif á ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnvalda í skipulagsgerð og við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.“ Fræðsla „Eitt af helstu verkefnum samtakanna er að stuðla að fræðslu og vitundarvakningu ungmenna með framhaldsskólakynningum á landsvísu. Kynningarnar varpa ljósi á hvernig umhverfismál snerta ungt fólk og hvernig það sjálft getur haft áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og daglegt líf. Frá október 2016 hafa 25 framhaldsskólar af 30 verið heimsóttir. Stefnt er að því að heimsækja hina fimm fyrir lok vetrarins og í framhaldinu að heimsækja alla framhaldsskóla landsins árlega. Kynningarnar eru því lausnamiðuð fræðsla um umhverfismál, líkt og kallað var eftir á X. umhverfisþingi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2017,“ segir Pétur. Vitund ungmenna um skipulagsmál Að sögn Péturs vinna samtökin að rannsókn sem er styrkt af Skipulagsstofnun um vitund ungmenna um skipulagsmál. „Rannsóknin felst í söfnun gagna og greiningu á svörum ungmenna á landsvísu um hversu meðvitað ungt fólk er um rétt sinn til að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnar í skipulagsmálum.“ Alþjóðasamstarf „Ungir umhverfissinnar eru m.a. í samvinnu við hóp ungs fólks í Alaska sem kallast Arctic Youth Ambassadors og er málsvari ungs fólks þar varðandi samfélags- og umhverfismál. Samvinnan er að hluta á vegum vinnuhóps Norðurskautsráðsins um líffræðilegan fjölbreytileika, Conservation of Arctic Flora and Fauna, og hefur einnig hlotið styrk frá bandaríska sendiráðinu á Íslandi. Í kjölfar þessarar samvinnu kemur félagið nú að undirbúningi samráðsvettvangs ungmenna í umhverfis- og samfélagsmálum á norðurslóðum,“ segir Pétur. /VH MÆLT AF MUNNI FRAM Fyrir skemmstu flutti þátturinn vísur þeirra félaga Sigurðar frá Brún og Höskuldar frá Vatnshorni. Eftir Sigurð liggja nokkrar ljóðabækur, en kveðskapur Höskuldar lifir helst og mest í muna fólks. Lengi hefur mig grunað að hjá afkomendum Höskuldar og Sólveigar Bjarnadóttur frá Vatnshorni leyndist sitthvað af kveðskap hans. Sigríður frú á Kagaðarhóli í Svínavatnshreppi er ein lifandi barna Höskuldar og Sólveigar. Því gerði ég mér erindi til frænku minnar til vísnasnapa. Þar kom ég ekki að tómum kofunum. Handskrifaðar lausavísur auk heilla rímnaflokka átti Sigríður eftir föður sinn í ótal kistlum og kommóðum. Í þessum þætti verður birt brot af aflanum. Fyrst birtist lesendum „Úr rímum af Sigurði Jónssyni frá Brún“. Mansöngshluti rímunnar heitir „Skammdegis andvökur“. I. Hverjum fegin fagnar sprett, fríða sveigir hána þegar hún teygir tána létt trausta spegilgljána. Þreyta má ég móanölt, mig þó ávallt fýsi þetta háa, hýra tölt heyra á bláum ísi. Gripin hrynja hrein og snjöll, hratt þau dynja á beðinn. Klakabrynjan kliðar öll, klungrin stynja freðin. Hálsinn léttan hátt við brjóst, höfuð sett í taumum, ganglag mettað gleði og þjóst gefst nú rétt í draumum. Máninn þjórar, á því enn úti slórir fagur. Gáska órar grípa menn, glaðnar stórum hagur. Kannski bíður klár við stall kvikur, fríður, alinn, fljótur gríðar, fimur, snjall, fáka prýði valin. ll. hluti rímunnar. Ferðalög Sigga: Feyskist víðir, fölna tún, fjölgar hríðum stærri, alltaf síðan Siggi Brún sást að ríða nærri. Lét hann skotta skjóttan lit, skarta flott á vegum, fór með hotti og hófaþyt, hér um vottanlegum. Kringum trippa- og fola fans, fjörs með kippi létta Snúður,Vippi og Snælda hans snerust lyppið netta. Oft var takið æst og þétt, ef hann rak með fleirum, þegar Vaka viðbragðslétt var að blaka eyrum. Hugann seiðir hæð og mór, hátt hann reið með slögum. Margar leiðir fann og fór frammí heiðar drögum. Hátt til fjalla frosts um nátt fölur hallast máni. Jökla skalla jafnt og þrátt jagar mjallar gráni. Um vindgnúinn fannafald ferð hann snúa kunni, við að búa upp tösku og tjald talaði drjúgum munni. Lék með ólgu í æðunum, úfna kólgu í svipnum, kuldabólgu í kvæðunum, að klækja sólgna gripnum. Oft er klökugt upp um fjöll, óvís þök um nætur. Veðra hrök og vatnaföll velta um jökulrætur. 196 Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggð1@gmail.com LÍF&STARF Ungir umhverfissinnar: Fræðsla og vitundarvakning um umhverfismál Hugmyndasamkeppni um nýtingu varmaorku á Suðurlandi Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) og Orka náttúrunnar (ON) hafa gert með sér samkomulag um að efna til hugmyndasamkeppni um nýtingu varmaorku á Suðurlandi á þessu ári. Tilgangur samkeppninnar er að fá fram hugmyndir um nýtingu varmaorku sem víða finnst í formi jarðhita á Suðurlandi og býður upp á fleiri tækifæri en nýtt eru í dag. „Markmiðið er að nýta betur verðmætin sem eru í orkunni, auka fjölbreytni í atvinnulífi með umhverfismál að leiðarljósi og vinna að nýsköpun í orkutengdri starfsemi,“ segir Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS. Dómnefnd skipa Gunnar Þorgeirsson, formaður SASS, Sigurður Þór Sigurðsson, formaður Atorku (Samtök atvinnurekenda á Suðurland), Berglind Rán Ólafsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON, Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) og Albert Albertsson, stjórnarformaður Íslenska jarðvarmaklasans. Haraldur Hjaltason, ráðgjafi hjá Artemis, hefur verið ráðinn sem verkefnisstjóri og mun hann starfa með dómnefndinni. Samkeppnin sjálf verður auglýst þegar nær dregur. /MHH

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.