Bændablaðið - 22.02.2018, Blaðsíða 38

Bændablaðið - 22.02.2018, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. febrúar 2018 Baunir eru fitusnauðar og kólesteróllausar. Þær eru trefjaríkar og innihalda í kringum 20% prótein, auk þess sem þær eru ríkar af B-vítamíni og járni. Í baunum, líkt og í káli, er efni sem veldur mörgum þembu og stundum vandræðalegum loftgangi við óheppileg tækifæri. Baunir geta einnig verið eitraðar eins og kastróbaunir, Ricinus communis, sem eru ríkar af efni sem kallast ricin, eitt af eitruðustu náttúrulegum efnum sem til eru og banvænt í litlum skömmtum, bæði fyrir menn og dýr. Prinsessan á bauninni Ævintýrið um Prinsessuna á bauninni er eitt af fyrstu ævintýrum H.C. Andersen, skrifað 1835. Andersen sagði að hann hefði heyrt söguna þegar hann var barn. Ekki er þekkt gömul dönsk útgáfa af ævintýrinu en til er sænsk saga um prinsessu sem lá á baunum og gæti hún verið fyrirmyndin að ævintýrinu. Ævintýrið segir frá prinsi sem vildi kvænast prinsessu en þótt enginn skortur væri á þeim fann hann eitthvað að þeim öllum og ekki alvöru alvöruprinsessur í hans augum. Óveðurskvöld kom ung stúlka sem sagðist vera prinsessa holdvot til hallarinnar og bað um gistingu. Drottningin ákvað að prófa hana með því að setja baun á botn rúmsins sem henni var ætlað og ofan á hana tuttugu dýnur og þar ofan á tuttugu æðardúnsængur. Morguninn eftir var prinsessan spurð hvernig hún hefði sofið en hún sagði að sér hefði ekki komið blundur á brá þar sem hún hefði legið á einhverju hörðu og væri öll blá og marin. Þá kættist prinsinn mjög, sagði að hún hlyti að vera alvöruprinsessa og giftist henni, en baunin var sett á safn. Annað skemmtilegt ævintýri þar sem baunir koma við sögu er Jói og baunagrasið. Danir eru baunar Ekki er ljóst hvers vegna Íslendingar völdu niðrunarheitin Bauni eða Baunverjar yfir Dani en helst er sú notkun tengd innflutningi á skemmdum baunum til landsins frá Danmörku. Ásgeir Blöndal Magnússon ber saman baun og Bauni í orðsifjabókinni og segir að þessi niðrunarorð ásamt lýsingarorðunum baunskur og baunverskur virðist fyrst hafa komið fram í lok 19. aldar og eru þá algeng í skammargreinum í blöðum. Baunir í alþýðutrú, Biblíunni og í Chicago Samkvæmt gömlu læknisráði þótti gott að leggja baun á hönd eða fót fólks til blóðtöku og kallaðist sú baun blóðtökubaun. Rómverjar töldu að sál forfeðranna ætti bólfestu í hrossabaunum. Baunir voru borðaðar við jarðarfarir og í brúðkaupum og brúðum voru færðar baunir sem gjöf til að auðvelda karlkyns áum brúðgumans leið í kvið hennar við getnað. Þeir töldu einnig að sál forfeðranna ætti bólfestu í hrossabaunum. Til skamms tíma, og kannski enn, var því trúað á Ítalíu að lokka mæti draug að baun og loka hann inni í henni um ókominn tíma. Baunir eru nefndar í 4. kafla Esekiel í Gamla testamentinu þegar fjallað er um hungursneyð. „Taktu hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi, láttu það allt í eina skál og gerðu þér brauð úr því. Þú skalt hafa það til matar þrjú hundruð og níutíu dagana sem þú liggur á hliðinni.“ Stálbaunin í Chicago, sem er skúlptúr eftir Bretann Anisk Kapoor, er 10 metrar í þvermál, 13 metra há og 20 metra löng. Ræktun bauna Ekkert mælir gegn því að rækta hrossabaunir og gráertur í sólríkum, skjólgóðum og næringarríkum matjurtagörðum á Íslandi. Báðar tegundir eru klifurjurtir sem geta náð tveggja metra hæð og þurfa viðhald til að klifra upp með og talsvert vatn. Þeim skal sáð inni snemma í maí og forræktaðar þar til jarðvegshiti hefur ná 6° á Celsíus. Þar sem baunir eru niturbindandi þurfa þær ekki köfnunarefnisáburð og eru jarðvegsbætandi og henta mjög vel til skiptiræktunar. Baunir á Íslandi Íslendingar virðast hafa kynnst baunum fyrr en flestum öðrum matjurtum. Bauna er getið í Riti þess (konunglega) íslenska Lærdómsfélags 1784 og meðal annars sagt að menn aðgreini þær í garð- og fóðurbaunir og í varningsská sem birtist í Nýju félagsriti frá 1843 segir að tunna af baunum kosti 4 ríkisdali og 32 skildinga. Saltkjöt og baunir er réttur sem margir í dag borða á sprengidag en var algengur allt árið um kring áður fyrr. Baunirnar í réttinum eru gular hálfbaunir. Lagstúfurinn „Saltkjöt og baunir, túkall“ er oft sunginn þegar sprengidagurinn nálgast og einnig oft sönglaður til merkis um að einhverju sé lokið. Það mun hafa verið Baldur Georgs sem var upphafsmaður lagstúfsins og er hann að finna á plötu með Baldri og Konna frá 1954. Tvíeykið Jolli og Kóla, Valgeir Guðjónsson og Sigurður Bjóla, syngja um Bíldudals grænar baunir í lagi frá árið 1983 Í eina tíð voru bauna- eða túttubyssur hluti af þarfapýramída og þroska barna og notuðu börnin byssurnar óspart til að freta á hvert annað, rúður og grunlausa gangandi vegfarendur. Um slitrótt eða ruglingslegt tal er sagt að það sé eins og að hrista baunir í skjóðu og um smámunasamt fólk að það telji baunir. Um eitthvað sem erfitt er að finna hefur verið sagt að það sé eins og að leita að baun í bjarnarrassgati en að eiga ekki baun í bala, vorkenna ekki einhverjum baun eða skilja ekki baun skýrir sig sjálft. Ekki er hægt að fjalla um baunir á Íslandi án þess að minnast á Ora grænar baunir sem líklega er eitt vinsælasta meðlæti landans. Samkvæmt upplýsingum frá Ora heita baunirnar P. satavium latínu eða gráertur og afbrigði Aragorn. Afbrigðið er upprunnið í Washington-ríki í Norður-Ameríku. Ora flytur inn rúmlega 160 tonn af þurrum gráertum á ári og mest er salan frá því í október og fram að áramótum. Baunirnar geta verið aðeins mismunandi milli uppskera og þarf að aðlaga suðutíma þeirra með tilliti til þess til að fá rétta útkomu hverju sinni. Við suðu eru baunirnar bleyttar upp áður en þær eru soðnar niður í dós sem síðan er opnuð og gæðin koma í ljós. HELSTU NYTJAJURTIR HEIMSINS Stálbaunin í Chicago er 10 metrar í þvermál, 13 metra há og 20 metra löng. Í eina tíð voru bauna- eða túttubyssur hluti að þroska og þarfapýramída barna og notuðu börnin byssurnar óspart til að freta á hvert annað, rúður og gangandi vegfarendur. Baunabelgir í stórmarkaði á Ítalíu. Prinsessan á bauninni. Gráertur, Pisum sativum.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.