Bændablaðið - 22.02.2018, Qupperneq 10
10 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. febrúar 2018
Tugir þúsunda gesta heimsækja
árlega matvælasýninguna Food
Table sem haldin er í febrúar
á hverju ári í Tókýó í Japan.
Veitingamenn og smásalar sjá þar
það helsta sem er á boðstólum í
matvörum fyrir Japansmarkað.
Íslenskt lamba- og hrossakjöt
var kynnt á sýningunni í ár við
góðar undirtektir. Þetta er í annað
skipti sem japanskir kaupendur fá
að smakka á íslensku afurðunum á
sýningunni. Í ár voru að auki kynntar
nokkrar nýjar afurðir frá litlum
íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum,
eins og beinasoð og niðursoðið
lambakjöt.
Samstarf við japanskan
sérvöruinnflytjanda
Þátttakan í sýningunni er
samstarfsverkefni kjötútflytjenda,
hrossabænda og Icelandic lamb í
samvinnu við japanska fyrirtækið
Global Vision, sem flytur inn ýmsar
sérvörur til Japans frá Evrópu og
Norður-Ameríku. Fyrirtækið selur
til veitingastaða, svæðisbundinna
dreifingaraðila og sérverslana.
Íslenskt lamba- og hrossakjöt er
það nýjasta í vörulínu japanska
fyrirtækisins, sem hefur lagt
töluvert undir við markaðssetningu
á íslensku vörunum. Nú þegar er
íslenskt lambakjöt komið á matseðla
um 100 veitingastaða og fæst auk
þess í nokkrum völdum verslunum.
Salan undir hatti þessa verkefnis
nam um 200 tonnum í fyrra.
Vöruþróun vegna sérstakra
japanskra rétta
Sölunni á íslenska lambakjötinu
má einkum skipta í tvo meginhluta.
Annars vegar eru fluttir út dýrari
bitar á góðu verði sem fara til alls
kyns veitingastaða og sérverslana.
Hins vegar eru fluttir út feitir
frampartar sem fara á veitingastaði
sem sérhæfa sig í svokölluðu
mongólsku grilli, eða Ghengis
Khan. Þá er einnig farið af stað
vöruþróunarverkefni á sérstökum
lambakjötsrúllum úr íslensku
lambakjöti sem nýttar eru í rétti
sem heita Shabu Shabu. Í báðum
tilfellum elda viðskiptavinir kjötið
sjálfir við borðið og íslenskt
lambakjöt þykir hafa sérstaka
eiginleika sem nýtast vel á þessari
tegund veitingastaða.
Framlag utanríkisþjónustunnar
er ómetanlegt
Icelandic lamb og Global Vision
gerðu með sér samstarfssamning í
fyrra sem gerir ráð fyrir stigvaxandi
markaðshlutdeild íslenska
lambakjötsins. Í honum felst einnig
að allt markaðsefni Icelandic lamb
er þýtt á japönsku, sett hefur verið
upp japönsk heimasíða og samvinna
er um gerð markaðsefnis fyrir netið.
Hið opinbera hefur lagt
verkefninu lið og að sögn Svavar
Halldórssonar, framkvæmdastjóra
Icelandic lamb, hefur stuðningur
utanríkisráðuneytisins og sendi-
ráðsins í Japan verið ómetanlegur við
að koma því af stað. Stuðningurinn
felst meðal annars í því að haldin
er móttaka í sendiráðinu fyrir
fjölmiðlamenn, áhrifafólk úr
veitinga- og smásölugeiranum
og fulltrúa íslenskra fyrirtækja
í Japan. Þá hefur Friðrik
Sigurðsson, matreiðslumaður
utanríkisráðuneytisins, einnig
heillað Japani með útfærslum sínum
á íslenskum afurðum.
Möguleikar fyrir íslenska ull
og hönnun
Þótt megináhersla sé á matvörur á
Food Table-sýningunni eru einnig
kynnt þar alls kyns tæki, húsgögn
og fleira fyrir hótel og veitingastaði.
Japanir eru þekktir fyrir áherslu á
hönnun og í ár voru stigin fyrstu
skrefin til að kynna íslenska hönnun
og ullarvörur fyrir Japönum.
Stólar frá hönnunarfyrirtækinu
Spot Design, sem voru til sýnis
í íslenska básnum, vöktu mikla
athygli. Áklæði þeirra eru handgerð
úr íslenskri ull og aðeins búið til eitt
eintak af hverjum stól. Sýnishornin
sem voru á íslenska básnum voru
seld á staðnum.
Að sögn Svavars Halldórssonar
bendir ekkert til annars en framhald
verði á þátttöku Íslendinga í
sýningunni á næsta ári. Þótt svona
markaðssetning sé vissulega
langhlaup hafi árangurinn af
verkefninu hingað til verið afar
góður, allir aðilar séu í þessu af fullri
alvöru og líkur á áframhaldandi
góðum árangri á næstu árum.
Hundrað veitingastaðir í Japan bjóða íslenskt lambakjöt
FRÉTTIR
Kokkurinn Friðrik Sigurðsson á
spjalli við japanskan gest á sýning-
unni.
Erlendur Garðarsson, Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Japan, Svavar Halldórsson, ásamt japönskum fulltrúa
og Friðriki Sigurðssyni matreiðsumanni. Myndir / SH
Hlaðborð með íslenskum lambaréttum vakti áhuga Japana.
Undirbúningsfundur samtaka
um ný búsetuúrræði til sveita
fyrir eldri borgara var haldinn
þriðjudaginn 20. febrúar á Café
Catalina í Hamraborg í Kópavogi.
Á fundinum voru kynntar
hugmyndir um stofnun
sambýliseininga aldraðra í
búsetukjörnum utan þéttbýlis.
Bændablaðið fjallaði um þessar
hugmyndir í fyrsta tölublaði þessa
árs og ræddi við Árna Gunnarsson,
fyrrverandi bónda í Skagafirði og
núverandi eldri borgara, sem telja
má sem upphafsmann þeirra.
Reynsla annarra þjóða
Að sögn Árna var á fundinum stutt
kynning á reynslu annarra þjóða
á búsetukjörnum með blönduðum
aldurshópum utan þéttbýlis. „Það
var kannaður áhugi á ofanrituðum
valkostum og málin rædd á
breiðum grundvelli. Þær ályktanir
komu fram að þar sem búsetuform
gætu verið af ýmsum toga gætu
framkvæmdahópar orðið tveir eða
fleiri,“ segir Árni.
„Fundarfólk varð sammála um
að nauðsynlegt væri að stofna
heimasíðu til að fólk gæti rætt mál
og boðið áhugasömum til þátttöku.
Það var einhugur í fólki að halda
áfram þessum undirbúningi og
kosin fimm manna stjórn til að
vinna að því verki. Formaður er
Sigrún Huld Þorgrímsdóttir og
með henni í stjórn Hanna Brynja
Axelsdóttir, Dóróthea Lórenzdóttir,
Esther Ármannsdóttir og Magni
Hjálmarsson.“
Sólheimar fyrirmynd
Árni segir að Sólheimar í
Grímsnesi væru að vissu leyti
fyrirmynd. Ríkið gæti lagt til
jarðir í þessi verkefni og það gætu
verið eftir atvikum litlar eða stórar
jarðir með húsnæði fyrir sjö til tíu
einstaklinga. Það sé margt fólk
einmana sem gæti vel hugsað sér
að búa á stað þar sem hægt væri að
hugsa um hesta, hunda, hænsni – og
það gæti líka stundað garðyrkju.
Eldra fólk hafi í mörgum
tilvikum tengsl út í sveitirnar og
hafi áhuga á að endurnýja kynnin
við sveitalífið; fólk með ágæta
hreyfigetu og kollinn í lagi.
Árni upplýsti á fundinum að
margir einstaklingar hefðu haft
samband við hann eftir umfjöllun
Bændablaðsins og lýst áhuga sínum
á málinu og jafnframt ánægju með
að undirbúningur væri hafinn. Þar
væri um að ræða fólk úr ýmsum
aldurshópum og meðal annars fólk
sem væri á lokaferli starfsaldurs
og vildi geta átt sem flesta valkosti
eftir starfslok.
Þá hefðu honum borist
ábendingar um nokkra álitlega
staði fyrir hópinn til að skoða og
jafnvel óformleg tilboð ef áhugi væri
fyrir samningaviðræðum. Nýkjörin
undrbúningsstjórn ákvað að hittast
í lok mánaðarins. /smh
Hugmyndir um búsetuúrræði til sveita fyrir eldri borgara:
Ábendingar hafa borist um álitlega staði
– Áhugahópur stofnaður um verkefnið
Frá undirbúningsfundinum á Cafe Catalinu. Árni Gunnarsson situr við enda borðsins. Mynd / smh
Sólheimar eru ákveðin fyrirmynd að sambýlum eldri borgara til sveita.