Bændablaðið - 22.02.2018, Page 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. febrúar 2018
Liðið ár og starfið fram undan hjá Bændasamtökum Íslands:
Fjölbreytt verkefni í þágu bænda
Bændasamtök Íslands eru
heildarsamtök íslenskra bænda.
Þau eru málsvari sinna félagsmanna
og vinna að framförum og
hagsæld í landbúnaði. Þunginn í
starfi Bændasamtaka Íslands er
fjölbreytt hagsmunabarátta fyrir
land búnaðinn, allt frá því að kynna
störf bænda og afurðir þeirra með
marg víslegum hætti og til þess að
gera samninga við stjórnvöld um
stuðning við landbúnað á breiðum
grunni.
Aðild að samtökunum geta átt
einstaklingar og félög einstaklinga
og lögaðila sem standa að
búrekstri. Aukaaðild er möguleg
fyrir einstaklinga sem styðja við
markmið samtakanna. Í árslok
2017 voru félagsmenn samkvæmt
félagatali rétt um 3.400 talsins. Á vef
Bændasamtakanna, bondi.is, er hægt
að nálgast nánari upplýsingar um
starfsemina og skrá sig í samtökin.
27 stöðugildi
Hjá Bændasamtökunum starfa um
þrjátíu manns í 27 stöðugildum.
Meginstarfsemi samtakanna er í
Bændahöllinni en þau eru einnig
með starfsstöð á Akureyri, auk
þess sem nokkrir starfsmenn hafa
aðsetur annars staðar. Þá eiga og reka
samtökin Nautastöðina á Hesti og
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
sem rekur 13 starfsstöðvar víðs
vegar um land. Hótel Saga ehf.
og fasteignafélagið Bændahöllin
ehf. eru í eigu Bændasamtakanna.
Samtökin eiga hlut í einangrunarstöð
fyrir holdanaut á Stóra-Ármóti ásamt
hlut í Landsmóti ehf.
Sindri Sigurgeirsson er formaður
Bændasamtakanna og Sigurður
Eyþórsson er framkvæmdastjóri.
Formaður BÍ er talsmaður
samtakanna og kemur fram fyrir
þeirra hönd.
Búnaðarþing fram undan
Búnaðarþing er æðsta stofnun BÍ en
þar sitja fulltrúar aðildarfélaganna og
móta stefnu samtakanna. Á síðasta
ári var í fyrsta skipti unnið eftir
nýju skipulagi þar sem Búnaðarþing
er haldið á tveggja ára fresti og
ársfundur þar á milli. Búnaðarþing
verður sett í Súlnasal Hótel Sögu
mánudaginn 5. mars nk. að morgni
til. Athöfnin er öllum opin en
skráning er á vefsíðu samtakanna,
bondi.is. Þingið sjálft stendur yfir
í tvo daga.
Hagsmunagæsla fyrir bændur
Stærsti einstaki þáttur í starfi
BÍ er að gæta hagsmuna bænda.
Bændasamtökin veita umsagnir
um fjölda lagafrumvarpa,
þingsályktunartillagna, skýrslna og
reglugerða á ári hverju. Auk þess
fylgja þeim margs konar fundir í
ráðuneytum og með þingnefndum
til að fara yfir umsagnir eða gera
grein fyrir hagsmunum bænda
við afgreiðslu margvíslegra mála.
Samvinna við búgreinafélög er mikil
enda lykilatriði til þess að nýta krafta
bænda sem best. Þau mál sem hafa
verið hvað mest áberandi síðustu
misseri tengjast búvörusamningum,
rekstrarvanda í sauðfjárræktinni,
minnkandi áhrifum tollverndar
og hráakjötsmálinu svokallaða.
Þá eru loftslagsmál og aðgerðir
til þess að sporna við aukningu
gróðurhúsalofttegunda mál málanna
í dag.
Búvörusamningar
Framkvæmd búvörusamninga er
ekki lengur á hendi BÍ, en heilmikil
vinna er tengd því að fylgjast með
henni í því skyni að gæta hagsmuna
félagsmanna. Sérfræðingar frá BÍ
tóku þátt í vinnu við endurskoðun
reglugerða sem fylgja samningunum,
m.a. til að skoða og endurbæta
framkvæmdina þegar fyrsta gildisár
þeirra var að mestu liðið. Fram undan
er þátttaka í nýjum samráðshópi
um endurskoðun búvörusamninga
sem landbúnaðarráðherra skipaði á
dögunum.
Rekstrarvandi í sauðfjárræktinni
Mjög mikill tími hefur farið í
vinnu vegna vandans sem uppi er í
sauðfjárræktinni. Fundir voru með
þáverandi ráðherra og stjórnvöldum
allt frá lokum mars og út árið. Allt
var reynt til að ná sátt á milli bænda
og stjórnvalda um aðgerðir til
lausnar. Það gekk ekki vel, þar sem
óyfirstíganlegur ágreiningur reyndist
milli þáverandi ráðherra og bænda í
málinu. Á endanum lagði ráðherra
landbúnaðarmála fram tillögur
í eigin nafni sem samtök bænda
stóðu ekki að. Í kjölfar þess sprakk
þáverandi ríkisstjórn, vegna annars
máls, en það þýddi hins vegar að
engin hreyfing fékkst á málið fyrr
en að loknum kosningum og myndun
nýrrar ríkisstjórnar. Í stjórnarsáttmála
hennar er kveðið á um að leysa eigi
vanda sauðfjárbænda til skemmri og
lengri tíma. Í fjáraukalögum 2017 sem
samþykkt voru undir lok ársins var
svo samþykkt að veita 665 m. kr. til
að lausnar skammtímavandans. Eftir
stendur að lausnir til þess að vinna
á langtímavanda sauðfjárræktarinnar
eru ekki komnar til framkvæmda.
Tollverndin
Bændasamtök Íslands leggja áherslu
á að tollvernd verði áfram beitt til
að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar
framleiðslu gagnvart innfluttri.
Nýlegir samningar við ESB um
aukinn tollfrjálsan aðgang búvara
að íslenskum markaði vekja ugg
meðal bænda. Bændasamtökin hafa
gert kröfu um að tollvernd verði
viðhaldið og magntollum beitt í
ríkari mæli. Að mati samtakanna
hallar verulega á samkeppnisstöðu
íslenskra bænda um þessar mundir
gagnvart innflutningi.
Hráakjötsmálið
EFTA-dómstóllinn kvað upp
þann dóm 14. nóvember sl. að sú
tilhögun að skylt sé að frysta hrátt
kjöt í að minnsta kosti 30 daga
áður en það er flutt hingað, standist
ekki EES-samninginn. Þetta gildir
líka um bann við innflutningi
á ógerilsneyddum eggjum og
ógerilsneyddri mjólk. Ekki var þó
gerð athugasemd við að bannað sé að
markaðsfæra ógerilsneydda mjólk,
enda er innlendum framleiðendum
það óheimilt. Í stuttu máli telur
dómstóllinn að ekki megi setja nein
sérstök skilyrði fyrir innflutning
þessara vara af EES-svæðinu því
eftirlit í upprunalandi eigi að gilda.
Þessu hafa forsvarsmenn
Bændasamtakanna mótmælt og talið
að áhættan sem fylgir innflutningi
á hráu kjöti og ferskum eggjum
sé óásættanleg. Fyrir liggur að
framundan er mikil barátta á vegum
BÍ við að verja sem best heilsu
manna og dýra við þessar breyttu
kringumstæður. Henni er hvergi
nærri lokið.
RML á fullu stími
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
ehf. er að fullu í eigu BÍ. Félagið
lauk stefnumótunarvinnu á síðasta ári
og nú er unnið að innleiðingu þeirra
verkefna sem í henni felast sem mun
halda áfram allt þetta ár. Tekist hefur
að reka RML með afgangi frá árinu
2015 og gera eiginfjárstöðu þess
jákvæða. RML verður áfram á næstu
árum að aðlagast nýjum veruleika
í ljósi breytinga í kjölfar brottfalls
tekna af búnaðargjaldi og það verður
veruleg áskorun sem fyrirtækið ætlar
sér að mæta að sögn stjórnenda.
Upplýsingatæknin mikilvæg
Hjá Bændasamtökunum er starfandi
upplýsingatæknideild sem sinnir
hugbúnaðarþróun, rekstri tölvukerfa
sem bændur nota í sínum daglegu
störfum ásamt notendaþjónustu.
Alls starfa 10 manns í deildinni
auk verktaka. Þjónustufulltrúar eru
þrír, einn kerfisstjóri, fimm aðilar
sem koma að hugbúnaðargerð
og gagnagrunnssmíði og einn
kynbótasérfræðingur. Viðfangsefni
deildarinnar eru fjölbreytt, allt
frá þróun og rekstri hugbúnaðar
til ýmiss konar þjónustu, s.s. við
starfsfólk BÍ og Ráðgjafarmiðstöðvar
landbúnaðarins og bændur sjálfa.
Almannatengsl og útgáfustörf
Á útgáfu- og kynningarsviði BÍ
starfa fimm manns auk verktaka
að fjölbreyttum verkefnum.
Bændablaðið er gefið út 24 sinnum
á ári og Tímarit Bændablaðsins
kemur út tvisvar í ár. Ýmis verkefni
koma inn á borð sviðsins, s.s.
almannatengsl og upplýsingagjöf,
rekstur vefsíðna, skólaverkefni og
þátttaka í viðburðum og sýningum.
Vinnuverndarverkefnið Búum vel er
rekið innan sviðsins og nú nýlega
var hleypt af stokkunum verkefninu
Hleðsla í hlaði sem gengur út á að
fjölga rafhleðslustöðvum til sveita.
Alþjóðlegt samstarf
Bændasamtök Íslands taka virkan þátt
í samstarfi norrænna bændasamtaka,
NBC. Ísland fer með formennsku
í samstarfinu 2017–2019. Fundir
formanna bændasamtakanna eru
haldnir árlega og verður hann í
sumar haldinn í Danmörku. Enn
fremur starfa margir starfs- og
vinnuhópar, s.s. á sviði eignarréttar,
dýraheilbrigðis, uppbyggingar
félagsstarfsins og fleira. Þannig
hefur BÍ aðgang að öflugu
tengslaneti sérfræðinga á ýmsum
sviðum. Á síðastliðnu ári voru
Embluverðlaunin, sem eru norræn
matarverðlaun, afhent í fyrsta skipti
en það er samstarfsverkefni NBC
styrkt af norræna ráðherraráðinu.
Embluverðlaunin verða næst afhent
á Íslandi árið 2019. BÍ er einnig aðili
að alþjóðasamtökum bænda WFO.
Árið 2018 verður ár breytinga
Árið 2018 verður áfram ár breytinga
hjá BÍ eins og síðustu ár. Mótun
starfsemi BÍ heldur áfram. Rekstur
samtakanna byggist nú á þríþættum
tekjum, þ.e. félagsgjöldum, eigin
tekjum eins og af sölu forrita og
eignatekjum. Allir þessir þættir geta
sveiflast á milli ára.
Enginn mun greiða til samtakanna
nema að taka um það meðvitaða
ákvörðun og það þýðir líka að þau
verða að greina á milli þess í allri sinni
starfsemi hvort verið er að þjónusta
félagsmenn eða aðra. Um leið þarf
að viðhalda vilja félagsmanna til að
greiða til samtakanna. Munurinn
hefur og mun áfram koma fram í
mismunandi verði fyrir þjónustuna,
svo sem á skýrsluhaldsforritum
samtakanna, eða hvort þjónustan er
í boði yfirleitt, til dæmis varðandi
orlofshús, starfsmenntastyrki, styrki
úr velferðarsjóði, lögfræðiráðgjöf og
annað sambærilegt.
Forsvarsmenn BÍ stefna að
sjálfsögðu að því að sem flestir sem
starfa í landbúnaði verði félagsmenn.
Það verður viðvarandi áskorun og
þeir sem kjósa að vera með verða
að finna greinilega mun samanborið
við þá sem kjósa að vera það ekki.
Samtökin verða áfram að vera
sterkur og öflugur málsvari íslensks
landbúnaðar. /TB, SE, EB, ÞÞÞ
Í Bændahöllinni er meðal annars starfsfólk á skrifstofu BÍ sem sinnir hagsmunabaráttu bænda, annast fjárreiður,
Mynd / TB