Bændablaðið - 22.02.2018, Síða 40

Bændablaðið - 22.02.2018, Síða 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. febrúar 2018 LESENDABÁS Borgarbóndi Ég fæddist í borg og eitt það besta við borgir er að þar er fólkið nær óþrjótandi auðlind. En borgir njóta alltaf einhverra auðlinda annars staðar frá. Þær eru framleiddar í sveitum og flestar þeirra sveita eru í útlöndum. Samfélagið okkar er vissulega háð flutningi á alls kyns efnivið annars staðar frá. Fyrir vikið er það sterkt og dýnamískt en líka viðkvæmt. Afi og amma voru bændur, en tenging við gæði landsins voru orðin algjörlega rofin hjá mér. Núna er ég formaður Seljagarðs, sem er samfélagslega rekið borgarbýli í Breiðholti. Tilgangur þess er að hægt sé að rækta matinn sinn nálægt heimili sínu og vinna í sameiningu að betri lífsgæðum. Líkt og við gerðum með því að reisa í sameiningu gróðurhús. Við hvetjum hvert annað áfram og nýir félagar Seljagarðs, sem hafa ef til vill litla reynslu, geta leitað þekkingar til okkar samfélags. Áður en ég varð borgarbóndi var ég orðinn vel meðvitaður um það hversu óskynsamlega er farið með auðlindir jarðar og var því jafnóðum að afla mér grunnþekkingar á því hvernig vistkerfi jarðar virka. Mig vantaði líka náttúrutenginguna, hafði mikla þörf fyrir að breyta til góðs og byrjaði því að sá fyrir grænmeti. Þörfin fyrir tengingu við náttúruna og löngun til að rækta leiddi mig í nám í vistrækt (e. Permaculture). Þar lærði ég umhverfisvæna hönnun. Persónulega tengdi ég námið við mitt líf og þarfir fyrir mat, þörf á útiveru, þörf til að skapa, þörf að gera eitthvað sem skiptir máli. Aðeins með því að framkvæma læri ég að skilja hvernig ég er hluti af náttúrulegum ferlum. Ég er ekki einangrað tilvik og annað fólk hefur líkar þarfir, þó ekki allir séu að sá fræjum. Í vor mun ég starfa sem borgarbóndi fyrir dótturfélag Seljagarðs, félagslandbúnaðinn Hjartastaði. Félagið mun rækta fjölbreytt grænmeti samkvæmt þörfum félagsmanna. Félagar geta tekið þátt í að rækta og læra um leið, uppskeran er svo miklu verðmætari þegar við búum hana til saman. Grænmetið er ferskt tekið upp af félögum, þarf ekki flutning heimshorna á milli, svo það er án mengandi umbúða og kolefnisfótsporið er göngutúrinn heim. Afar og ömmur jafnt sem börn geta tekið þátt og byrjað að skilja vistkerfið betur; hvernig ánamaðkarnir hjálpa okkur og af hverju við þurfum að verja og þekja jörðina, ef við viljum þiggja gjafir jarðar. Allir eru velkomnir sem félagsmenn í Hjartastöðum, hvort sem þeir hafa möguleika til að leggja vinnu í ræktunina eða ekki. Verkleg fræðsla gefur félögunum reynslu og kjark, en náttúruupplifun gegnum námskeið í myndlist og ljóðum gerir Hjartastaði áhrifaríkari í því að rækta upp græn hjörtu. Með því að vera hluti af félagslandbúnaði tekur almenningur þátt í að skapa umhverfisvænna samfélag og valda þeim breytingum sem tími er kominn á. Við erum að sá fræjum í fyrsta skipti núna. Sigurður Unuson borgarbóndi og formaður Seljagarðs borgarbýlis Seljagardur109@gmail.com Úr umfjöllun Bændablaðsins liðins sumars. Bogarbóndi með uppskeru. Mynd / ghp Grænmetisskammtur frá liðnu sumri, m.a. rauðrófur, næpur, grænkál, salat, steinselja, timían, oreganó og skrautsúrur. Mynd/siau eru af félaginu Hjartastöðum. Mynd/siau Í miðju góðærinu erum við enn á ný í þeirri stöðu að upplifa sterkt að við höfum einn tilgang í íslensku samfélagi; að vera ódýrt vinnuafl sem er látið knýja áfram hagvaxtarvélina. Við erum auðvitað ekki óvön því að vera nýtt á slíkan hátt. Við vorum skilin eftir í síðasta góðæri, og vorum svo látin bera hinar þungu og erfiðu byrðar kreppu auðstéttarinnar, þar sem við tókumst á við niðurskurð og aðhaldsaðgerðir á vinnustöðum okkar á meðan persónulegu lífi okkar var komið í efnahagslegt uppnám með tilheyrandi fjárhagslegum og tilfinningalegum kostnaði. En eftir að hafa enn og aftur verið skilin eftir, nú í nýjustu uppsveiflunni, höfum við komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lengur unað við ástandið. Erindi okkar er brýnt; þrátt fyrir að svo skammt sé liðið frá því að hinn alþjóðlegi fjármálaheimur, algjörlega aftengdur öllum möguleikum á nokkurri lýðræðislegri stjórn, leiddi yfir almenning eina af kreppum kapítalismans og afhjúpaði með því fáránleika þessa hættulega og meingallaða kerfis er staðreyndin sú að á Íslandi ræður hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar enn ríkjum. Hugmyndafræði sem hefur á endanum þau einu markmið að tryggja að auður samfélagsins safnist á æ færri hendur, að einkavæðing á sameiginlegum eignum okkar sem landið byggjum haldi áfram og að efnahagslegar ákvarðanir sem varða gerð og samsetningu þjóðfélagsins séu ávallt teknar með hagsmuni fámenns efnahagslegs forréttindahóps í huga. Kaldlyndi og skeytingarleysi hinna auðugu kemur sífellt betur í ljós og á Íslandi er ástandið í húsnæðismálum skýrasta dæmið um félagslegan eyðileggingarmátt óheftrar auðsöfnunar. Í stað þess að litið sé á húsnæði sem grundvallarmannréttindi hefur fjármagnseigendum verið leyft, án nokkurrar pólitískrar viðspyrnu, að sölsa undir sig híbýli almennings og selja svo eða leigja að þeim aðgang á uppsprengdu verði svo að stór hluti ráðstöfunartekna láglaunafólks fer í það eitt að tryggja sér þak yfir höfuðið. Þegar við lítum á húsnæðismarkaðinn, þar sem leikurinn Framboð og Eftirspurn er nú spilaður við gleðihróp hinna vel settu og örvæntingarstunur þeirra lágt settu, hlýtur öllum að vera ljóst að tími nýrra áherslna í baráttunni fyrir lífskjörum vinnuaflsins er runninn upp. Á íslenskum vinnumarkaði tíðkast grimmilegt arðrán á öllu verkafólki. Sérstök ástæða er þó til að berjast fyrir hagsmunum láglaunakvenna en baráttan fyrir kjörum þeirra er auðvitað barátta fyrir bættum kjörum alls fólks í láglaunastörfum. Aðstæður láglaunakvenna eru algjörlega óboðlegar. Sem dæmi má nefna að ófaglærður starfsmaður á leikskóla fær í heildarlaun fyrir fullt starf að meðaltali 354.000 krónur á mánuði og starfsmenn sem vinna við ræstingar fá aðeins 328.000 krónur. Eftir að launagjöld og skattar hafa verið greidd duga því launin ekki fyrir því að komast af. Því miður hefur kvenréttindabarátta síðustu ára litið fram hjá þætti efnahagslegrar afkomu í kúgun kvenna og því kemur ekkert annað til greina en að há þá baráttu á vettvangi hinnar almennu verkalýðsbaráttu. Einnig verður að leggja mikla áherslu á baráttuna fyrir bættum kjörum aðflutts verkafólks sem er í sérlega viðkvæmri stöðu þegar kemur að því að fóta sig í íslensku arðráni en aðstæður á húsnæðismarkaði koma einstaklega illa við þennan hóp, þar sem honum er gert að sætta sig við að búa í ömurlegum vistarverum og nýtur einskis öryggis í samskiptum sínum við leigusala. Ég lít svo á að rödd okkar, verkafólks og láglaunafólks, íslensks og erlends, kvenna og karla, verði einfaldlega að heyrast. Ef við viljum búa í samfélagi þar sem allt fólk nýtur virðingar, ef við trúum ennþá á drauminn um réttlæti, jöfnuð og frelsi, ef við horfumst í augu við að óheft auðsöfnun fárra á kostnað okkar grefur undan öllu því sem hér var byggt upp; velferðarkerfinu, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu, verður augljóst að upprisa róttæks vinnuafls er ekki aðeins barátta fyrir hærri launum eða betri aðstæðum á vinnustöðum, heldur barátta um grundvallargerð samfélagsins. Barátta um hvernig tilveru fólki er boðið upp á; um það hvort við sættum okkur við aukna stéttskiptingu með öllum þeim meinum sem henni fylgja, hvort við sættum okkur við að fáir auðgist á kostnað fjöldans, hvort við sættum okkur við að völd safnist á hendur þeirra auðugu og hvort við sættum okkur við að verkafólk leggi ávallt sitt í hina sameiginlegu sjóði á meðan auðstéttin breytir ekki aðeins skattkerfinu sér í hag heldur flytur einnig risavaxnar upphæðir í skattaskjól. • Við berjumst gegn óréttlæti hins grimmilega stéttskipta samfélags með því að endurvekja róttæka baráttu fyrir mannsæmandi kjörum verkafólks: • Við berjumst gegn láglauna- stefnu og fyrir efnahagslegu réttlæti: Að allt fólk geti lifað mannsæmandi lífi af dagvinnulaunum. • Við berjumst fyrir réttlæti í húsnæðismálum: Að allt fólk hafi aðgang að ódýru og tryggu húsnæði. Uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis er grundvallaratriði í baráttunni; húsnæðiskerfi sem þjónar fólki, ekki fjármagni. • Við berjumst fyrir hags munum aðflutts verkafólk: Það er algjör grundvallarkrafa að stjórn Eflingar endurspegli fjölbreytileika félagsmanna. Hagsmunir íslensks og aðflutts verkafólks eru þeir sömu í íslenskum samtíma. • Við berjumst fyrir lýðræðis- væðingu: Við höfnum því foringjaræði sem ríkt hefur í verkalýðsforystunni og samþjöppun valds á hendur fárra. Við erum sannfærð um að þátttaka félagsmanna er lykilatriði í því að snúa vörn í sókn í baráttunni fyrir góðu lífi á og réttlátu samfélagi á Íslandi. • Við berjumst gegn óráðsíu og gróðabralli lífeyrissjóðanna: Lífeyrissjóði okkar á ekki að nota til að ala á samfélagslegum ójöfnuði. Við krefjumst gagnsæis í ákvarðanatöku og þess að lífeyrissjóðir okkar verði nýttir til þess að byggja upp réttlátt samfélag. Verkafólk stendur á tímamótum; ætlum við áfram að sætta okkur við stöðu okkar í arðráninu eða ætlum við að berjast fyrir eigin hagsmunum og með því hagsmunum alls samfélagsins? Ég hvet alla til að ganga til liðs við baráttu okkar, saman getum við gert Ísland að landi þar sem allt fólk lifir góðu og öruggu lífi. Sólveig Anna Jónsdóttir. Verkalýðsbaráttan í samtímanum: Verkafólk á Íslandi stendur á tímamótum Mynd / Geirix

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.