Bændablaðið - 12.04.2018, Blaðsíða 54
54 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. apríl 2018
Hið árlega fagþing nautgripa-
ræktarinnar í Danmörku var
haldið um þarsíðustu mánaðamót,
eins og sagt var frá í síðasta
Bændablaði. Þar var farið yfir
helstu atriði sem fram komu á
aðalfundi nautgriparæktarhluta
dönsku Bændasamtakanna.
Venju samkvæmt var svo haldin
ráðstefna í kjölfar aðalfundarins og
stóð sú ráðstefna yfir í tvo daga. Alls
voru haldnar 11 málstofur á þessari
ráðstefnu og verður hér gefinn
sérstakur gaumur að málstofunum:
„Heilbrigði“, „Hagfræði“ og
„Mjólkurgæði“.
1. Dýraheilbrigði
Í þessari málstofu voru haldin sjö
mismunandi erindi sem öll sneru
með einum eða öðrum hætti að
þema málstofunnar, þ.e. heilbrigði
dýranna.
Afar mörg áhugaverð erindi voru
í þessari málstofu og eitt af þeim
var erindi sérgreinadýralæknisins
Lars Pedersen ásamt fleirum
en hann fjallaði um smitvarnir
á kúabúum. Í dag er gerð krafa
um smitvarnir á kúabúum og ber
dýralæknum að heimsækja hvert
kúabú landsins a.m.k. einu sinni á
ári með það að leiðarljósi að ræða
um smitvarnir búsins. Þetta eru
nýjar opinberar kröfur í Danmörku
og er auðvitað tilgangurinn að
draga úr líkum á smiti á milli búa
og minnka smitlíkur innan búanna
einnig. Til þess að auðvelda bæði
bændum og dýralæknum að ná
tökum á smitvörnunum hefur
ráðgjafarfyrirtækið SEGES,
ásamt fleiri aðilum, þróað sérstakt
greiningarforrit þar sem bændur
geta slegið inn upplýsingum og
sett inn svör við spurningum um
hvernig þeir standa að margs konar
verkþáttum á búum sínum. Forritið
skilar svo frá sér niðurstöðum sem
gefa gott yfirlit yfir ástand smitvarna
búsins sem og ábendingar um það
sem betur má fara. Bóndinn og
dýralæknir hans geta svo farið yfir
niðurstöðurnar og sett upp skipulag
til þess að bæta úr því sem þörf er á.
Þá voru einnig flutt önnur erindi á
svipuðum nótum en sem snéru beint
að því hvernig sé best að koma í veg
fyrir skitu hjá smákálfum.
Þá voru nokkur erindi sem sneru
að endingu kúa, en afar skiptar
skoðanir eru á mikilvægi mikillar
endingar enda tapast erfðaframfarir
ef hjörðin er of gömul. Þegar tekið
er tillit til uppeldiskostnaðar,
tapaðra framfara vegna erfða og
aukinna meðalafurða með hækkandi
aldri kúnna er þó margt sem bendir
til þess að með því að láta kýrnar
endast heldur lengur en flestir gera
í dag, með því að setja á og nýta
allar fæddar kvígur, megi ná bættri
afkomu við rekstur búanna. Að hve
mikilli endingu eigi svo að stefna
þarf að skoða á hverju búi fyrir sig
enda aðstæður og forsendur ólíkar.
Sumir ná mestum hagnaði pr. kú í
upphafi þriðja mjaltaskeiðs en aðrir
síðar, fáir fyrr. Afar áhugavert efni
sem óhætt er að mæla með lestri
á en öll erindin eru aðgengileg á
heimasíðu ráðstefnunnar.
Eitt erindanna, sem flutt var af
dýralækninum Espen Jakobsen
og kúabóndanum Per Østergaard,
fjallaði um nýtt gæðaeftirlitskerfi
hjá afurðafélaginu Arla en það
kallast „Arlagaarden-plus“ og
er þetta eins konar bónuskerfi
ofan á hefðbundið gæðakerfi sem
kallast „Arlagaarden“ en íslenska
kerfið „Fyrirmyndarbú“ svipar
svolítið til „Arlagaarden“ þó svo
að hin íslenska eftirmynd gangi
ekki jafn langt í kröfum sínum
og „Arlagaarden“. Í dag þurfa öll
kúabú sem leggja inn hjá Arla að
uppfylla þær lágmarkskröfur sem
eru í gæðakerfinu „Arlagaarden“ og
ef búin uppfylla ekki þær kröfur þá
tekur Arla ekki við mjólkinni.
Arla er í harðri samkeppni á
heimsmarkaði með mjólkurvörur
sínar og hefur markaðsfólk þess
undanfarið fundið að með aukinni
sérstöðu næst sterkari staða og því
hefur nú verið þróuð viðbót við
fyrirmyndarbúið „Arlagaarden“ og
það er „Arlagaarden-plus“. Þetta
kerfi gefur afurðstöðinni færi á að
halda utan um og upplýsa kaupendur
betur en áður um dýravelferð
og ýmislegt annað sem tengist
frumframleiðslunni.
„Arlagaarden-plus“ er hins vegar
hrein viðbót við „Arlagaarden“
og er bændum frjálst að velja að
vera með í „Arlagaarden-plus“ eða
ekki. Þetta nýja kerfi er sérstaklega
hannað til þess að afurðastöðin
geti fylgst með dýravelferð á þeim
kúabúum sem leggja inn hjá Arla og
eru með í kerfinu og ef bændurnir
velja að vera með í „Arlagaarden-
plus“ fá þeir bónusgreiðslu fyrir
hvert innvegið kíló mjólkur sem
þóknun fyrir veittar upplýsingar.
Með þátttöku sinni gefa
bændurnir Arla heimild til þess
að fá skýrsluhaldsgögn búsins
frá viðkomandi vistunaraðila
þeirra gagna auk þess sem
upplýsingar um slátrun eru veittar.
Þá fær afurðastöðin aðgengi að
sjúkdómaskráningu og lyfjanotkun
búsins. Bændurnir sjá svo sjálfir um
að skrá ástand hjarðar sinnar inn í
þar til gerðan gagnagrunn og er það
gert ársfjórðungslega.
Í þennan grunn skrá bændurnir
hreyfigetu kúa (meta í raun ástand
fóta), holdastig gripina, skrá
hreinleika og skrá nuddsár eða
önnur sár á gripum (t.d. hárlausa
bletti). Sumir hafa gagnrýnt það að
bændur skuli sjálfir sjá um að skrá
þessa þætti niður en tilfellið er að
fáir aðrir eru betur til þess fallnir
að meta ástand gripanna en einmitt
bændurnir sjálfir og hefur Esben
Jakobsen þróað afar handhægt kerfi
til þess að meta þessa þætti og má
skoða kerfið nánar í glærunum sem
erindið byggir á.
2. Hagfræði
Í þessari málstofu voru haldin sex
ólík erindi og fjölluðu þau um allt
frá fjármögnun framkvæmda og
að rekstraruppgjöri kúabúa. Mörg
erindanna lúta beint að dönsku
fjármálaumhverfi og þarlendum
fjárfestingarmöguleikum og verður
ekki farið nánar inn á það efni hér.
Eitt erindið á þó jafn vel við
hér og í Danmörku og var það
flutt af þeim félögum Jannik Toft
Andersen sem er rekstrarráðgjafi
hjá SEGES og Íslandsvininum og
fjósahönnuðinum Robert Pedersen.
Þeir fjölluðu um hvernig kúabændur
geta metið endurgreiðslugetu ef
bændur fara í breytingar á fjósum
eða nýfjárfestingar. Það sem í raun
vakti fyrir þeim var að hinn útlagði
kostnaður eigi að skila sér með
bættri afkomu og ef bændur fari út í
fjárfestingar eigi þeir að hafa það að
leiðarljósi að það skili sér t.d. með
aukinni endingu, meiri afurðum eða
öðru slíku, sem í raun stendur þá
undir fjárfestingakostnaðinum. Afar
áhugaverð nálgun sem hver og einn
bóndi getur tekið til sín.
3. Mjólkurgæði
Í þessari málstofu voru haldin fjögur
erindi og fjölluðu þrjú þeirra um
leiðir til bættra mjólkurgæða með
einum eða öðrum hætti en eitt
þeirra var um sérstakar aðgerðir til
þess að fá aukagreiðslu fyrir það
eitt að bæta aðgengi og aðstöðu
fyrir mjólkurbíla Arla, en hjá
Arla fá bændur greitt álag fyrir
mjólkina í hlutfalli við það í hve
stuttan tíma mjólkurbíllinn stoppar
í hvert skipti. Eitt áhugaverðasta
erindið í þessari málstofu fluttu
mjólkurgæðaráðgjafinn Benny
Kirkeby og kúabóndinn Hans
Lieuwes en þeir fóru yfir helstu
breytingarnar sem hafa orðið á
mjöltum og mjólkurgæðunum á
kúabúi Hans í kjölfarið á breyttum
áherslum á búinu.
Hans þessi er með 600 árskýr
og er meðalnyt búsins um 13 tonn.
Kýrnar eru mjólkaðar þrisvar á dag í
mjaltahringekju og vildi Hans auka
afköstin við mjaltirnar og jafnframt
ná tökum á frumutöluvanda búsins,
en meðalfrumutala búsins var hærri
en 200.000 frumur/ml. Benny
ráðlagði margskonar breytingar
á vinnubrögðunum á búinu m.a.
bætt vinnubrögð við undirbúning
kúnna þar sem sérstök áhersla var
lögð á örvun á spenaendum og
samhliða aukna áherslu á þrif þeirra.
Þá voru settar upp lokaðar hliðar
við innganginn í hringekjuna svo
kýrnar myndu eiga auðveldara með
að ganga inn í hringekjuna og þá
var flæðið við sjálfvirka aftöku af
kúnum hækkað úr 600 ml/mínútu
í 1.200 ml/mínútu. Ennfremur
var sogskiptahlutfallinu breytt
úr 65:35 í 70:30, þ.e. mjaltatími
mjaltatækjanna við hvert slag
sogskiptisins var aukinn. Auk þess
fékk einn starfsmaður það hlutverk
að sjá um að setja spenadýfu á alla
spena, eitthvað sem var ekki gert
fram að þessu.
Þessar breytingar, sem e.t.v. virka
ekki stórkostlegar, hafa skilað afar
góðum árangri. Meðalmjaltaflæðið
fyrstu 30 sekúndurnar hefur aukist úr
2,8 kg/mínútu í 3,4 kg/mínútu sem
með öðrum orðum þýðir að kýrnar
selja mun betur eftir breytinguna
og aukna örvun spenaendanna. Þá
hefur meðalmjaltatíminn styttst og
var eftir breytinguna 4 mínútur og
16 sekúndur á hverja kú og styttist
heildartíminn við mjaltir um 20
mínútur í það heila. Einnig hefur
frumutala búsins lækkað og er nú
komin undir 200.000 frumur/ml
og jafnframt hefur mjólkurmagnið
sem áður var mjólkað frá í kálfa
farið úr 400 lítrum á dag í 100 lítra
á dag. Með öðrum orðum hafa
breytingarnar skilað bæði bættum
meðalmjólkurgæðum og auknu
magni af söluhæfri mjólk og velta
búsins aukist um 12.350 krónur á
dag. Hinar auknu tekjur gera mun
meira en að standa undir aukamanni
við að setja spenadýfu á kýrnar og
borga fyrir ráðgjafarvinnuna svo
Hans var afar sáttur við hið breytta
ástand á búinu.
Í næsta Bændablaði verður farið
með áþekkum hætti og hér hefur
verið gert yfir fleiri málstofur
fagþingsins. Þeir sem geta ekki
beðið þeirrar umfjöllunar má benda
sérstaklega á að bæði útdrættir og
flest erindi, þ.e. afrit af glærum
fyrirlesara, má hlaða niður af
heimasíðunni www.kvaegkongres.
dk. Þá er hluti af þessum
fyrirlestrum einnig aðgengilegur
sem veffræðsluerindi auk þess sem
með mörgum þeirra fylgja faglegar
greinar, sem bæta enn frekar við
fróðleiksgildi efnisins. Rétt er að
geta þess að mest allt efni er á
dönsku, en þónokkur erindi og efni
eru á ensku.
Á FAGLEGUM NÓTUM
Snorri Sigurðsson
snsig@arlafoods.com
Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku 2018 – annar hluti:
Bætt afkoma standi undir fjárfestingakostnaði
Íslandsvinurinn og fjósahönnuðurinn Robert Pedersen var einn af mörgum fyrirlesurum á Kvægkongres í ár og fjallaði erindi hans um það hvernig
kúabændur geta metið endurgreiðslugetu af framkvæmdum við fjós sín. Mynd / SEGES
Afar mörg áhugaverð erindi voru í þessari málstofu og eitt af þeim var erindi sérgreinadýralæknisins Lars Pedersen