Spássían - 2013, Side 12

Spássían - 2013, Side 12
12 rðið „tegunda- bókmenntir“ er tilraun til að þýða hugtakið „genre literature“ á þann hátt að það verði þjálla í notkun en hin hefðbundna íslenska þýðing, bókmenntagrein. Þessi þýðing er fengin frá Úlfhildi Dagsdóttur sem hefur hvað mest fjallað um þær bókmenntir sem flokkaðar hafa verið á þennan hátt á íslensku. Tegundabókmenntir eru til dæmis hrollvekjur, vísindaskáldsögur, ástarsögur, krimmar og furðusögur. Eitt einkenni tegundabókmennta er að þær eiga sér yfirleitt margar undirgreinar og hafa lesendur þeirra oft sterkar skoðanir á því hvers konar bækur eru tækar í hvern flokk og líta á bækur í öðrum undirflokkum með sömu vanþóknun og þeir sem dæma tegundina í heild sem annars flokks bókmenntir. Bókmenntir sem þessar hafa ekki verið algengar á íslenskum bókamarkaði hingað til, nema helst þær sem skrifaðar eru fyrir börn. Hefðbundnir skáldsagnahöfundar hafa auðvitað nýtt sér fantasíuna í einhverjum mæli en hreinræktaðar tegundabókmenntir hafa verið sjaldgæfar. En auknar vinsældir erlendra bóka af þessu tagi fyrir fullorðna virðast hafa fengið íslenska höfunda til að reyna fyrir sér í auknum mæli á þessu sviði. Enn virðist þó lítill áhugi fyrir þeim meðal bókaútgefanda, en þar sem sjálfsútgáfur verða sífellt auðveldari þá hafa ungir höfundar í auknum mæli reynt fyrir sér á þessum markaði. Á erlendum bókamarkaði skiptast fantasíur, þrátt fyrir að vera flokkaðar sem ákveðin bókmenntategund, í marga undirflokka. Sá flokkur sem er hvað dæmigerðastur er sá sem á ensku nefnist „Sword and sorcery“ eða „sverða og galdra“ sögur. Þessar sögur gerast í skálduðum heimi sem oftast hefur einkenni miðaldaheims þar sem fólkið býr í þorpum eða miðaldaborgum, tækniþekking er lítil, menn berjast með sverðum og bogum og hægt er að hitta galdramenn í skikkjum, riddara í brynjum og dreka, tröll eða aðrar hefðbundnar vættir. Sögurnar fjalla oftast um ungt fólk sem lendir í ævintýrum þar sem það kemst að því að uppruni þeirra er annar en það heldur og það þarf að taka þátt í að bjarga heiminum. Sverða- og galdrabækur eru til bæði fyrir börn og fullorðna. Helsti munurinn á efni fyrir þessa aldurshópa liggur í því hversu áberandi pólitík, svik og kynlíf eru í sögunum. Bækur fyrir fullorðna eru yfirleitt flóknari, með fleiri persónum, flóknari heimsmynd og meira ofbeldi en í grunninn er ekki mikill munur á þeim. Eins og í öllum tegundum bókmennta eru innan þessarar tegundar bækur af mismunandi gæðum en eitt vandamál er ansi algengt, sem síður háir öðrum tegundum fantasíunnar, og það má kalla „Dreka- og dýflissuheilkennið“. Heilkennið er nefnt í höfuðið á samnefndum hlutverka- og spunaleik þar sem þátttakendur skapa sér persónur og lenda í ævintýrum sem stjórnað er af Dýflissumeistara sem býr til söguþráðinn eða ævintýrið með ýmsum hjálpartækjum, t.d. teningum. Bækur sem litast af þessu heilkenni eru alls ekki séríslenskt fyrirbæri, heldur má sjá þetta í mörgum erlendum sögum af þessu tagi. Það lýsir sér í því að persónur skortir eðlilega hvöt eða ástæðu fyrir gjörðum sínum og viðbrögðum og atburðir gerast án þess að fram komi rökrétt ástæða eða tengsl við heildarbyggingu sögunnar. Einnig er það oft þannig í þessum sögum að aðalpersónan safnar um sig liði ólíkra persóna sem af mistrúverðugum ástæðum slást í för með hetjunni á ferðalagi hennar. Heilkennið er kennt við leikinn vegna þess að í honum getur teningakast ráðið því hvað gerist næst; hvort hetjurnar rekast á ófreskju eða aðstoðarmann, hvort þeim tekst tiltekið verk á leið sinni og svo framvegis. Árangurinn og framrás sögunnar byggist á tilviljun eða dyntum sögumanns sem langar kannski bara að koma á óvart eða fá smá spennu í fyrirsjáanlega fléttu. Því miður eru sumar þeirra íslensku sagna sem hafa komið út litaðar af þessu. Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, sem fékk Íslensku barnabókaverðlaunin í fyrra, er dæmi um bók af „sverða og galdra“ gerðinni, ætluð stálpuðum börnum og unglingum. Þetta er fyrsta bók í þríleik sem gerist í skálduðum heimi þar sem óvættir og galdrar eru hluti af heimsmyndinni. Bókin segir frá ferðalagi þriggja ungmenna sem uppgötva að þau leika lykilhlutverk í spádómi er varðar framtíð heims þeirra. Bækurnar eru O

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.