Spássían - 2013, Síða 17

Spássían - 2013, Síða 17
17 reyju saga: Múrinn er mikill fengur fyrir aðdáendur fantasíubókmennta en hér er komin út alíslensk, dystópísk unglingasaga í ætt við til dæmis Hungurleikana eftir Suzanne Collins. Rétt eins og raunin varð með þann geysivinsæla þríleik er ekki ólíklegt að aldursbil lesenda Múrsins verði breiðara en svo að það einskorðist við unglinga. Og lesendur sögunnar geta hugsað sér gott til glóðarinnar, Freyju saga: Múrinn er aðeins fyrsta bókin í sagnabálki um aðalpersónuna Freyju.  Sagan gerist í framtíðinni, eftir rúmlega 100 ár, í borginni Dónol sem er ein af níu borgum heimsálfunnar Íslands. Heimsálfan ber nafn gamla landsins sem fór á kaf í flóðunum miklu árið 2021. Dónol er girt af með risastórum múr sem hefur þann tilgang að vernda íbúa borgarinnar fyrir ógnunum sem leynast handan múrsins. Og jú, vitaskuld reikar hugurinn til Berlínar. Múrinn minnir á að þó að hugmyndin um slíkan múr þyki fjarstæðukennd er hún nýlegur hluti mannkynssögunnar.  Aðalsöguhetjan, Freyja, er fimmtán ára og býr hjá ömmu sinni Júlíu. Hún er munaðarlaus og dauði foreldra hennar er sveipaður dulúð. Sagan er krydduð hugmyndum og áhrifum víða úr bókmenntasögunni, til að mynda norrænni goðafræði. Nánustu vinir Freyju eru þau Baldur, Höður og Nanna, orðrómur er á kreiki um að til sé borgin Vanheimar handan múrsins og Skíðblaðnir er einn þeirra sem verður á vegi krakkanna. Fremst í bókina er einnig prentuð ein vísa úr Völuspá sem gefur forsmekkinn af því sem koma skal.  Freyja er ein fárra íbúa Dónol sem telur ríkjandi skipulag athugavert og á erfitt með að „láta eins og hún sjái ekki neitt þrátt fyrir það sem við blasti“ (44) eins og flestir aðrir íbúar borgarinnar gera. Alla sína ævi hefur Freyja lifað tiltölulega venjulegu lífi hjá ömmu sinni, grunlaus um að spurningar hennar og uppreisn gegn ríkjandi fyrirkomulag geti hrint af stað óvæntri atburðarás.  Söguna prýða allir helstu eiginleikar dystópískra bókmennta en þeim hefur Árni Bergmann til að mynda lýst svo: Lesandinn er staddur í samfélögum sem hafa náð næstum því fullkomnum árangri í því að gera alla hlýðna og auðsveipa með góðu eða illu. En samt kemur til uppreisnar. Einhver einn maður neitar því að ríkjandi skipulag sé hið eina sem kemur til greina. Hann vill bjarga því sem glatast hefur. Hann vill muna það sem áður gerðist og þekkja það líf sem áður var lifað. Hann vill lesa bækur og njóta lista, þótt listum og bókmennum hafi verið útrýmt.1 Einstaklingsfrelsi er ekkert; einvaldurinn Zheng hefur íbúa borgarinnar undir hæl sér og elur á ótta með harkalegum refsingum fyrir þá sem óhlýðnast. Tækni, eða öllu heldur skortur á tækni einkennir samfélagið. Rafmagn og rennandi vatn er til að mynda fjarlægur fortíðardraumur. Ofbeldi og miskunnarleysi einkennir lífvarðasveit borgarinnar sem er áberandi á götum borgarinnar en sveitin hefur meðal annars þann tilgang að „vernda“ íbúa Dónol fyrir „hinum Utanaðkomandi“ og láta þá hverfa sem fara ekki að lögum Zhengs. Freyja er þessi eina manneskja sem syndir gegn straumnum. Hún fer á svarta markaðinn og nælir sér í dót frá gamla tímanum, eins og gamlar bækur sem hún felur heima hjá sér. En bækur eru óþarfar eins og endurspeglast í orðum Zhengs: „Fólk þarf ekki bækur. Þær leiða einfaldlega til þess að það fer að hugsa“ (239). Og það kann ekki góðri lukku að stýra ef fólk fer að hugsa eins og Freyja og vinir hennar komast að raun um.  Þetta form skáldsagna sýnir mannfólkið í sinni verstu mynd, sýnir heiminn eins og hann gæti orðið ef mannvonska og valdníðsla taka yfir. En um leið er athygli beint að voninni, að ljósinu í myrkrinu sem hugsanlega og mögulega getur breytt heiminum. Og ljósið, það er Freyja.  Það er áhugavert að lesa sögu af þessu tagi, þar sem íslenskur bakgrunnur og Íslandssagan (okkar nútími) lúrir undir yfirborðinu. Óhætt er að segja að fyrsta bók þessa væntanlega sagnabálks lofi góðu. Þetta er hörkuspennandi og metnaðarfullt verk sem erfitt er að leggja frá sér. Raunar er hið eina sem er erfitt við þessa bók, að þurfa að bíða eftir þeirri næstu. Þó að sumt kunni að þykja fyrirsjáanlegt kemur fleira á óvart. Sif er óhrædd við að bregðast væntingum eða fyrirfram ákveðnum hugmyndum lesenda og ráðið sem Freyja hlýtur frá Svaðilfara á ekki síður við til lesenda: Treystu engum! 1 Árni Bergmann, „Þrengt að voninni: Illar staðleysur við aldarlok“, Ritið 1, 2002, 7-18. Eftir Þórdísi Eddu Jóhannesdóttur Sif Sigmarsdóttir. Freyju saga: Múrinn. Mál og menning. 2013. F hart er í heimi

x

Spássían

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.