Spássían - 2013, Page 19

Spássían - 2013, Page 19
19 TÆPAR LEIÐIR Þegar Jolli (einnig leikinn af Davíð Þór Jónssyni), unnusti og fyrirvinna Hildar, er hnepptur í varðhald fyrir fjársvik og eignir hans gerðar upptækar, neyðist Hildur til þess að fá sér vinnu og sjá um sig sjálf. Fyrir tilviljun ratar hún á afgreiðslustarf í versluninni Astrópía. Búðin er griðastaður „nördamenningar“ og eru þar seldar teiknimyndasögur, bækur, kvikmyndir og leikir. Í Astrópíu er fantasían ekki aðeins viðurkennd sem hluti af daglegu lífi, heldur upphafin og gerð eftirsóknarverð. Með því að byggja á sögunni af ofdekruðu prinsessunni sem lærir að sjá um sig sjálf, felst í Astrópíu bæði óður til ævintýraheims fantasíunnar og gagnrýni á firringu hennar - einkum innan ástarsögunnar. Þessir þættir eru teknir til skoðunar í gegnum samband Hildar og Jolla. Í upphafi myndar er Hildur ánægð í sambandinu. Jolli gefur henni fallegar gjafir, hún þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum og þegar hann biður hana um að koma fáklædda fram gerir hún það, með semingi þó, og metur það svo að hann sé að setja hana í „ábyrgðarhlutverk.“ Þegar Jolli er fangelsaður og getur ekki myndað mótvægi við kröfur sínar með dekri og gjöfum, áttar Hildur sig fljótlega á að hlutverk hennar í lífi hans er að vera þægilegt skraut sem hægt er að skipa fyrir. Þegar Hildur er farin að sjá fyrir sér sjálf með vinnunni í Astrópíu þarf hún ekki lengur á fantasíunni um bjargvættinn að halda. Rómantískt yfirbragð sambandsins og gjafirnar sem voru forsendur þeirrar rómantíkur eru horfnar og raunveruleikinn, þar sem Hildi er stjórnað og skipað fyrir, blasir við henni. Fjárhagslegt sjálfstæði Hildar er þannig tengt við kvenfrelsi og hennar eigin hugmyndir um sjálfstæði. Að auki er sjónum beint að félagslegri stöðu hennar, einkum vináttu hennar við vinnufélagana í Astrópíu. ÁLAGAFJÖTRAR Í nýja starfinu er Hildi falið að sjá um þá deild verslunarinnar sem snýr að spunaspilum (e. RPG, role-playing games). Í fyrstu virðist Hildur vera utanveltu í versluninni en fljótt kemur í ljós að hún á ýmislegt sameiginlegt með jaðarsettum viðskiptavinum Astrópíu. Hún ákveður að læra að spila leikina til þess að skilja vöruna sem hún selur og með því að byggja á fyrri tengslum sínum við fantasíur í gegnum lestur ástarsagna Joan Wilder og Margit Sandemo finnur Hildur leið til þess að tengjast spunanum sem leikirnir byggja á. Leikirnir styrkja samband hennar við krakkana í Astrópíu sem verður til þess að sjálfsmynd hennar breytist. Þetta birtist í nýjum áherslum í ákvarðanatöku, t.d. lætur hún vita að henni mislíki að föt hennar ...hún lærir að vinna fantasíuna inn í daglegt líf án þess að vera ofurseld firringu hennar. „

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.