Spássían - 2013, Side 25
25
móðir Baldurs, Frigg, alla hluti jarðar til að lofa að skaða
hann ekki. Æsir skemmta sér eftir það við að henda vopnum
í hinn ósæranlega Baldur. Loka gremst það og fær upp úr
Frigg að mistilteinn hafi ekki svarið eiðinn því hann var of
ungur. Loki býr til ör úr mistilteini, fær Heði hinum blinda
hana í hendur og hvetur hann til að taka þátt í leiknum.
Höður skýtur örinni og Baldur deyr. Reynt er að fá Baldur
úr Hel. Til að það sé hægt þurfa allir að gráta hann. Það gera
allir samviskusamlega nema tröllkonan Þökk, sem neitar. Í
refsingarskyni breyta æsir öðrum syni Loka, Vála, í úlf og
láta hann rífa bróður sinn Narfa í sundur og nota þarma
hans til að binda Loka.
Saman við þessa frásögn er hér fléttað sögunni um
Baldur og Höð (eða Balderus og Høtherus) í Danasögu
Saxa málspaka, þannig að úr verður ein heild. Þar er Baldur
hálfguð sem girnist heitmey prinsins Haðar, sem er í þessari
sögu alsjáandi. Þeir berjast þrisvar en að lokum tekst Heði
að drepa Baldur með galdrasverðinu Mímingi og aðstoð
galdrakvenna.
Loki er í aðalhlutverki í þessari myndasögu, og er
efniviðurinn nýttur á frjálslegan hátt. Loki hittir dóttur
sína Hel í draumi og segist hún vera einmana. Draumarnir
halda áfram og næst upplifir hann eftirmál dauða Baldurs,
þegar æsir fanga hann og fjötra. Loki verður dauðhræddur
um hefnd ásanna ef eitthvað skyldi koma fyrir Baldur og
reynir því að vernda hann fyrir öllum hættum. Höður
hinn blindi verður afbrýðissamur út í bróður sinn vegna
valkyrjunnar Nönnu og reynir sitt besta til að drepa hann.
Loki reynir að hindra það, m.a. í gervi gýgjarinnar Þakkar,
en mistekst hrapallega, því óafvitandi réttir hann Heði það
vopn sem hann þarf til að drepa bróður sinn. Loki er því
ekki ráðbani Baldurs líkt og í Snorra-Eddu heldur óheppinn
milligöngumaður í sögu þar sem ástir og afbrýði eru stór
þáttur í framvindunni. Baldur verður ekki heimtur úr helju,
en allt fer samt vel. Í stað þess að vera harmræn saga um
bróðurmorð, líkt og í Snorra-Eddu er hér sögð ástarsaga
sem endar vel.
Eftir þessari bók hefur verið saminn samnefndur
söngleikur, Balladen om Balder, sem frumsýndur var í
Viborg árið 2011 en er nú sýndur í Kaupmannahöfn.
AÐ LOKUM
Goðheimabækurnar eru ekki einu skáldverkin eða
teiknimyndasögurnar þar sem höfundar nýta sér hinn
norræna goðaheim sem efnivið. Margir hafa nýtt sér
norrænu guðina og fært þá til í tíma og rúmi, ýmist einn
eða fleiri. Í bók Neils Gaimans American Gods leika Óðinn
og Loki t.a.m. stór hlutverk, en rammi þeirrar sögu eru
Bandaríki nútímans, í þeirri bók og fleiri fantasíubókum eru
guðirnir söguhetjur, en innfluttar í heim hverrar fantasíu
fyrir sig.
Aðrir höfundar hafa ekki bara nýtt sér einstaka guði
heldur guðaheiminn í heild. Sem dæmi um slíkt má nefna
nýlega íslenska teiknimynd og bækur um Þór. Þar er guðinn
Þór í aðalhlutverki en aðrir guðir og guðaheimurinn mynda
ramma utan um sögur sem eru að mestu frumsamdar. Það
sama gildir um bandarísku teiknimyndasögurnar um Þór,
þar er guðaheimurinn hliðstæður hinum „venjulega“ heimi
og margir guðanna koma við sögu. En Þór sjálfur er gerður
útlægur þaðan og að venjulegum dauðlegum manni, sem
breytist þó í guðlega ofurhetju þegar þörf krefur.
Sérstaða Goðheimabókanna er sú að í þeim er unnið með
þær goðsögur sem varðveist hafa frá miðöldum. Sögurnar
eru endurunnar og höfundar taka sér vissulega skáldaleyfi
og leika sér með efniviðinn en víkja aldrei of langt frá
heimildum sínum. Bækurnar mynda því nokkurs konar
brú til fortíðarinnar og þær sögur sem skemmtu forfeðrum
okkar.
Úr Balladen om Balder, 2011.