Spássían - 2013, Side 30
30
HUGMYND SEM BANKAÐI LENGI
Það má lesa margs konar boðskap úr
Tímakistunni, og þá sérstaklega um
viðhorf okkar til tímans. Það er tekið á
þeirri áráttu okkar að flýja veruleikann
og fresta því að vera til, endalausri
bið okkar eftir betri tíð. Svo er það sú
þversögn að þegar við reynum að spara
tíma getum við hreinlega týnt honum.
En Andri Snær segir að boðskapurinn
sé bara hluti af sögunni. „Ég fékk
einfaldlega hugmynd um kistu sem
er ofin úr kóngulóarsilki. Mér fannst
svolítið gaman að finna þannig nýja
nálgun á það sem hefur blasað við
manni allt lífið; þessar prinsessur í
kistunum. Þær hafa alltaf verið álitnar
sofandi. En svo hugsaði ég að kannski
kæmist tíminn ekki inn í kistuna. Og
að kannski gæti maður opnað kistuna
og lokað henni. Svo ég fór að hugsa
um kistuna sem einhvers konar tæki
– og drifkraft í sögu. En eiginlega
var fyrsta hugmyndin sú að skrifa
framtíðarsögu og ég ætlaði að skrifa
hana strax eftir LoveStar – fyrir tíu
árum. En ég fékk ritstíflu. Það átti að
eyðileggja Lagarfljót og Þjórsárver og
Skjálfandafljót og mér fannst liggja á að
skrifa um það. En svo dróst þetta fram
úr hófi því ég gerði heimildamynd líka
og tvö leikrit með Þorleifi Arnarsyni.
Þessi bók hafði verið að banka á mig í
sex ár og var farin að hóta því að fara
til Hollywood eða í Latabæ eða bara
til einhvers annars höfundar. Og um
svipað leyti og hrunið varð náði ég að
setjast niður og skrifa.“ Andrúmsloft
hrunsins lak því óhjákvæmilega aðeins
inn í framtíðarsöguna.
NÁTTÚRAN MUN EKKI LÁTA
UNDAN
Það hefur varla farið fram hjá neinum
að Andri Snær hefur tekið virkan
þátt í samfélagsumræðunni, þá helst
á sviði umhverfismála, og hann telur
það klárlega hluta af því að vera
rithöfundur. „Fyrst er erfitt að tala um
þessi mál því maður skilur þau ekki.
En svo þegar maður fer að kynna sér
t.d. orkumálin, þegar maður er farinn
að geta rökrætt við einhvern sem er að
bulla um stærð á raflínum og stíflum,
þegar maður er stiginn inn á völlinn
og finnur að maður er bara orðinn
nokkuð góður í þessu, þá er erfitt að
stíga út. Ég var nokkuð þögull á meðan
ég skrifaði bókina en hef þó haft annað
verk samtímis í vinnslu, bók og mynd
sem eru tengdar umhverfismálunum.
Í raun held ég að umhverfismálin hafi
aldrei verið brýnni á heimsvísu. Það er
svo margt sem við erum að gera vitlaust
hér heima en er verið að gera á þúsund
sinnum stærri skala annars staðar og
það eru ákveðin hættumerki sem menn
virðast ekki taka mikið mark á.“
Í Tímakistunni er ekki mikið
komið inn á náttúruverndarmál á
beinan hátt, en þó er til dæmis þeirri
spurningu varpað fram hvort ef til
vill væri betra að mannkynið svæfi í
tímakistunum sínum til eilífðar. Því
viðhorfi er þó hafnað; fólkið á að koma
út aftur og mannkynið á að takast á
við ástandið. „Góði endirinn er ekki
sá að mannkynið hverfi og náttúran
fái að eiga sig. Ég vildi að einhverju
leyti hreinsa mig af þeim boðskap,
þeirri orðræðu, en auðvitað eru þessar
tímakistur líka allegoría fyrir að takast
ekki á við hnattræna hlýnun og bara
bíða og bíða. Því á endanum verður það
ekki náttúran sem lætur undan; þvert
á móti mun náttúran taka yfir og við
látum undan. 99% vísindamanna vita
hvað gerist ef við höldum svona áfram.
En við bara lokum bílhurðinni og
látum eins og þetta sé ekki að gerast. En
svo er sumt þarna miklu bókstaflegra.