Spássían - 2013, Side 42
42
lustað, fyrsta skáldsaga
afbrotafræðingsins
og fyrrverandi
lögreglumannsins Jóns Óttars
Ólafssonar, er hressandi viðbót í
íslenska glæpasagnaflóru og ágætt
mótvægi við glæpasögur steyptar í hið
skandinavíska mót, það er að segja
bækur á borð við Skuggasund Arnaldar
Indriðasonar og Andköf Ragnars
Jónassonar. Vissulega er söguhetja Jóns
Óttars komplexaður Íslendingur með
samviskubit yfir því hafa ekki staðið
sig nægjanlega vel innan heimilisins
og vinnur allt of mikið. Og svo
sannarlega koma félagsleg vandamál
og gagnrýni á samfélagið við sögu.
Þó er nýr og spennandi andi yfir bók
Jóns Óttars - það liggur við að ég segi
ameríkaníseraður spennusagnablær
kryddaður með sönnunargögnum og
nýjustu tækni.
Aðalsöguhetja Hlustað er
lögreglumaðurinn Davíð. Hann
starfaði sem lögreglumaður
um góða hríð áður en hann elti
útrásardrauminn og fór að vinna í
bönkunum en sneri til baka með
skottið milli lappanna eftir hrun og
er þegar sagan gerist í tímabundinni
stöðu sem „rannsakari“ hjá
lögreglunni í Reykjavík. Hann er
vinnusamur með eindæmum en
heimilislífið er eins og rjúkandi rúst
og því er eins gott að húka í vinnunni
eins oft og lengi og mögulegt er.
Þannig sleppur maður við að horfa á
eiginkonuna sem er afar döpur kona.
Í upphafi bókar finnst lík af konu í
grásleppuskúr við Ægisíðu og lýsingin
er ansi nöturleg:
Konan var á að giska hálffertug og
að því er virtist öll útæld, en þó sá
hann enga ælu á gólfinu í kringum
hana. Kollegar hans höfðu rétt
fyrir sér. Hún var löngu dáin. Það
var græn slikja yfir henni og hvítar
línur um alla húðina. Alveg eins
og marmarastytta, hugsaði hann
með sér. Hún hafði verið smágerð
í lifandi lífi og virtist óendanlega
umkomulaus písl þar sem hún lá
þarna innan um kaðla og annað
sem fylgdi grásleppuveiðum. Hún
hafði gengið saman, næstum því
bráðnað niður í gólfið eins og lík
gerðu alltaf (11).
Davíð fær mál konunnar, Sóleyjar, til
rannsóknar. Hún reynist hafa verið
óreglukona sem hafði mánuðina áður
en hún dó reynt að koma reglu á líf
sitt, búið í snyrtilegri íbúð og stundað
reglubundna vinnu í Bónus. Líf og
örlög þessarar einmana og ólukkulegu
konu snerta einhverja strengi í hjarta
Davíðs og hann leggur sig allan fram
við að finna morðingja hennar. Eins
og gengur í glæpasögum reynist
málið ansi flókið - enda fyllir bókin
heilar 359 síður - og við sögu koma
spilltar löggur, lögmenn, pólitíkusar,
smáglæponar, fíkniefnasalar,
útsendarar MI5, Cayman-eyjar,
útrásin og hennar víkingar, hrunið og
fylgifiskar þess, þýfi og fíkniefni. Davíð
þeytist í hinar og þessar ólíklegustu
áttir eftir því sem rannsókninni vindur
fram en flest virðist beina athyglinni
frá dauða Sóleyjar og í átt að einhverju
mikilvægara, arðbærara og stærra en
morðinu á einni lítilli konu, sem hvort
sem er var haugur, fyrrverandi fíkill og
trúlega nýfallin í þokkabót.
Hlustað er hátæknileg glæpasaga
og gerist að miklu leyti inni á
lögreglustöðinni við Hlemm þar sem
megnið af rannsóknarvinnu Davíðs
og samstarfsmanna hans fer fram.
Heilmikið púður fer í að útskýra
verklagsreglur, goggunarröð og venjur
innan lögreglunnar auk þess sem fræða
þarf lesendur um gagnagrunna og fleira
sem myndar mikilvægan grunn við
lögregluvinnu. Þá er einnig töluvert
rætt um samskipti milli ólíkra deilda
lögreglunnar, sem geta verið ansi
stirð. Lausnirnar er ekki endilega að
finna í skuggalegum húsasundum eða
ályktunarhæfni lögreglumanna, eins og
lesendur íslenskra glæpasagna eiga að
venjast, heldur í tímalínugreiningum
á símagögnum fórnarlamba og
grunaðra og með öðrum tólum og
tækjum. Það tekur oft dágóðan tíma
að útskýra stafræn sönnunargögnin
fyrir lesendum. Ágætt dæmi um það
er brot úr útskýringu Hallgríms í
upplýsingadeildinni á símanotkun
Sóleyjar rétt fyrir andlát hennar:
„Þetta er tímalínugreining á
símagögnum Sóleyjar. Þarna er
lóðrétt lína fyrri hvert númer
sem Sóley hringdi í, eða hringdi í
Sóleyju, síðustu átján mánuði og
ein lárétt lína fyrir samtal á milli
Sóleyjar og hinna,“ sagði hann
og benti með leysigeislabendi á
myndina. „Láréttu línunum er
raðað í hlutfallslega tímaröð sem
skýrir af hverju það eru svona fáar
lóðréttar línur hægra megin á
myndinni. Símnotkunin hrapaði
eftir fjórtánda apríl á þessu ári“
(bls. 83).
Áfram er svo rætt um símanotkun
Sóleyjar, þeirra sem hringdu í hana
og þeirra sem hún hringdi í og
með svipuðum hætti er fjallað um
símnotkun annarra sögupersóna. Titill
bókarinnar vísar svo til þess hversu
mikið er hlustað á glæpamennina, þ.e.
lögreglumenn fá heimildir til að koma
fyrir hlerunarbúnaði á heimilum þeirra
og skrifstofum og hlera síma þeirra.
Þannig afla þeir sér upplýsinga sem
geta leitt til þess að einhverjir hnútar
leysast; lögreglan kemst ef til vill að því
að hún hefur verið á villigötum – eða
einhver misskilningur kemst á kreik.
Helga Birgisdóttir
Jón Óttar Ólafsson.
Hlustað. Bjartur. 2013.
alls staðar
eru eyru
sem hlusta …
H