Spássían - 2013, Síða 45
45
Sem betur fer tekst Nigellu mun betur
upp með uppskriftirnar. Þær eru einfaldar
og ef maður sleppir að lesa langlokurnar
á undan þeim eru útskýringarnar
mjög góðar og lítið mál að fara eftir
þeim - svei mér ef útkoman á diskinum
er ekki svolítið lík ljósmyndunum í
bókinni - að minnsta kosti ef marka má
þær þrjár uppskriftir sem ég prófaði.
Vissulega er erfitt að láta sem maður
sé í ítölsku fjallaþorpi að gæða sér á
tvöföldum amaretto semifreddo með
gullgljáandi sósu eða saffran-orzotto,
þegar höfundurinn hefur viðurkennt að
uppskriftirnar séu ekki ítalskar (og þó!)
en örlítið fantasíuflopp er í fínu lagi þegar
útkoman er jafn góð og raun ber vitni.
KJÚKLINGURINN FER SIGURFÖR UM
ELDHÚS LANDSINS
Kjúklingaréttir Nönnu eftir Nönnu
Rögnvaldardóttur er lítil og lágstemmd
bók. Titillinn er einfaldur og
höfundarmyndin er aftan á kápunni,
allra neðst og alls ekki áberandi. Hér
er augljóslega engin Nigella á ferð!
Fremst í bókinni eru þrír fræðslukaflar,
einn um það hvernig kjúklingurinn
sigraði heiminn og endaði sem bæði
hátíðar- og hversdagsmatur á diski fjölda
landsmanna, umfjöllun um íslenskar
kjúklingauppskriftir og svo stutt
umfjöllun um matreiðslu á kjúklingi.
Þetta eru fræðandi og skemmtilegir
kaflar - það er meira að segja minnst
á Grettis sögu - og síðurnar eru
skreyttar skondnum skuggamyndum af
kjúklingum og hænum. Nanna blandar
sjálfri sér lítið sem ekkert í frásögnina,
aðalsöguhetjan, kjúklingurinn, er í
sviðsljósinu.
Uppskriftakaflarnir eru sex talsins
og er þeim skipt upp eftir hráefnum,
heill kjúklingur fær einn kafla, bringur
og lundir saman einn o.s.frv. Hver
uppskrift fær eina opnu, mynd á annarri
síðunni, uppskriftin og hráefnalisti á
hinni. Alveg eins og í Nigellu á ítölskum
nótum eru myndirnar aðeins af matnum
- kokkurinn kemur hvergi nærri. Og alveg
eins og í bresku bókinni eru myndirnar
í Kjúklingaréttum Nönnu yfirleitt
nærmyndir - maturinn er í fyrrirúmi,
ekki borðbúnaðurinn eða umhverfið.
Munurinn á ljósmyndunum er helst sá
að myndirnar eru manneskjulegri í bók
Nönnu. Vissulega er í báðum bókum
um að ræða afskaplega girnilegan mat en
maturinn í bók Nigellu virðist ekki eins
ekta, aðeins of plastkenndur, diskarnir
aðeins of hreinir. Þótt myndirnar í
kjúklingabókinni séu vissulega snyrtilegar
sést t.d. olíubrák hér og þar, lítil brunarúst
í eldföstu móti sem í liggur kjúklingur í
hunangssinnepssósu og þess háttar. Þetta
skapar afskaplega notalega og heimilislega
stemningu.
Uppskriftirnar eru langflestar
einfaldar og aðgengilegar og alls kyns
fræðslumolum er skotið að lesendum,
t.d. hvernig koma megi í veg fyrir að
heilsteiktur kjúklingur þorni um of
og hvernig megi heitreykja kjúkling á
pönnu. Hráefnin eru flest aðgengileg
í helstu verslunum og sé um „skrítin“
hráefni að ræða kemur oft fram að
þeim megi sleppa, t.d. má sleppa
grófmuldum stjörnuanísgeirum í tereyktu
kjúklingabringunum á síðu 30. Auk
þess að taka það fram ef einhverju má
sleppa bendir Nanna oft á hráefni sem
má nota í staðinn eða bæta við en þetta
hressir og kætir heimiliskokka sem nenna
ómögulega í enn eina búðarferðina.
Sjálfri gengur Nönnu illa að fara eftir
eigin uppskriftum, eins og hún upplýsir í
bloggfærslunni „Nanna reynir að fara eftir
eigin uppskrift“ en þar segir:
Ég hef stundum sagt að ég eldi
aldrei sama réttinn tvisvar. Það er
reyndar ekki alveg rétt en það er
ekki algengt að hann verði alveg
eins í tvö skipti – ég á satt að
segja óskaplega erfitt með að láta
það eiga sig að spila af fingrum
fram og prófa einhver tilbrigði.
Og ykkur að segja hendir það
ótrúlega oft að ég uppgötva þegar
ég er að hefja eldamennskuna eða
í miðju kafi að ég á ekki eitthvað
sem stendur í uppskriftinni eða
ég hafði ætlað að nota eða það
reynist ónothæft eða það sem ég á
er ekki alveg eins og eitthvað sem
ég hafði áður notað.1
Nanna lýsir svo tilraun sinni til að fara
eftir uppskrift að kjúklingavefjum með
hráskinku (45) en útkoman reynist
stórgóð þótt hún hafi orðið ólík því sem
sýnt er í bókinni. Þetta blés undirritaðri
kjark í brjóst til að ráðast í að elda fylltar
bringur í raspi (37) - án þess að eiga
allt hráefnið. Þetta er einföld uppskrift
að kjúklingabringum, fylltum með
rjómaosti og basilíku, toppaðar með
raspi og fræblöndu sem eru svo bakaðar
í ofni ásamt nokkrum tómötum. Þegar
á hólminn var komið þurfti að sleppa
söxuðu basilíkunni og brúka þess í stað
ferskan kóríander, fræblandan var ekki
til en einhverjar pekanhnetur fundust
sem voru notaðar í staðinn. Brauðraspið
var ekki heimatilbúið heldur búðarkeypt
og tómatarnir alls ekki vel þroskaðir
eins og uppskriftin krefst. Þá fundust
girnilegar skinkusneiðar í ísskápnum og
þær voru lagðar ofan á bringurnar auk
þess sem rifnum osti var blandað saman
við raspinn. Og útkoman? Örugglega
allt öðruvísi á bragðið en rétturinn sem
var myndaður fyrir bókina og í útliti
ansi ólíkur því sem blasir við lesendum
Kjúklingarétta Nönnu. Ég sleppti því
þó að örvænta og gerði orð Nönnu
á blogginu að mínum: „Á sumum
heimilum væri þetta disaster. En mér
finnst þetta oftast nær frábært því það
gefur mér hugmyndir til að reyna eitthvað
annað og búa til nýjan rétt.“
Að öllu samanlögðu er nýjasta bók
Nönnu Rögnvaldardóttur heillandi og
aðgengileg matreiðslubók, full af fallegum
myndum og girnilegum uppskriftum en
tekur sjálfa sig ekki of hátíðlega - ekki
frekar en höfundurinn. Bókin er ekki
sveipuð neinum leyndardómsfullum
matreiðsluleyndarmálaljóma og
Nigella Lawson. Nigella á
ítölskum nótum. Veröld.
2013.
Nanna Rögnvaldardóttir.
Kjúklingaréttir Nönnu.
Iðunn. 2013.
Sveinn Kjartansson og
Áslaug Snorradóttir.
Fagur fiskur. JPV. 2013.