Spássían - 2013, Qupperneq 48
48
Þegar maturinn kom blöstu
við mér lambalundir. Já, ég er
ekki að grínast. Leyndardómur
fiskréttastaðarins sem ég hafði
hlakkað til að fara á í marga daga
til að fá mér ljúffengan fiskrétt
var kjöt! Vonbrigði mín voru
takmarkalaus. Það sem við höfðum
sparað af matarpeningunum til
að geta farið út að borða hafði alls
ekki verið ætlað í kjötmáltíð og þar
breytti litlu þó að þetta væru meyrar
og vel eldaðar lambalundir með
gómsætu glóðarsteiktu grænmeti.
Ég pantaði borð á fiskiréttastað til
að fá fisk en ekki kjöt. Ég spurði
kokkinn hverju þetta sætti, hvers
vegna hann bæri fram lambalundir
sem leyndardóm hússins þegar
staðurinn hans væri heimþekktur
sem fiskréttastaður? Hann svaraði
að bragði að hann væri á listrænan
hátt að sprengja út formið.
Fiskréttastaðir snérust ekki bara um
fisk.
Sú hefð að gefa hlutum nafn og
skýra og skilgreina merkingu þeirra
til að móta sameiginlegan skilning
á hugtökum er mikilvægur þáttur í
að skapa tengsl og samræðu. Fólki
finnst eftirsóknarvert að einfaldar
staðhæfingar eins og „ég er svangur“
skiljist á þann hátt að óskað sé eftir
að fá eitthvað að borða en ekki
að fara í bað alveg eins og það er
rökrétt að álykta að fiskréttastaður
bjóði upp á fisk. Á bak við hvert
hugtak liggja oftast ákveðnar reglur
og viðmið sem fela í sér tiltekið
umhverfi og stemningu.
Hugtök eru þó mannanna verk
og breytast því í tímans rás. Þetta
á ekki síst við í heimi listanna þar
sem sífellt er verið að „sprengja
út formið“. Ögrun er mikilvægur
þáttur í listum, listamenn fjalla
um það sem ekki er venjulega
talað um eða benda á nýjar hliðar
á málum sem áður hafa verið
hugsuð á einn veg. Þeir leita
einnig í sífellu nýrra leiða til að
koma listrænum ásetningi sínum á
framfæri við áhorfendur. Það sem er
framúrstefnulegt í dag er gamaldags
á morgun. Listdansinn er engin
undantekning. Breytingar á
listforminu undanfarna áratugi eru
gífurlegar þótt sumar nýjungar séu
eldri kynslóðum að góðu kunnar og
hafi gengið í endurnýjun lífdaga.
Þetta mátti glögglega sjá á
nýafstaðinni hátíð, Reykjavík Dance
Festival, sem haldin var í tólfta sinn.
Íslensku dansverkin sem sýnd voru
á fyrri sýningarhelgi hátíðarinnar
voru öll með mjög ólíku sniði hvað
form varðar, eins ég reifaði í dómi
um hátíðina,1 en fjölbreytileiki
erlendu verkanna á hátíðinni
var ekki minni. Með hliðsjón af
hugmyndinni um sameiginlegt
tungumál og sameiginlegan skilning
hugtaka ýtti RDF rækilega við
skilgreiningum á því hvað dans
er. Hugtök sem komu í huga
undirritaðrar á sýningunum
voru oftar myndlist, leikhús og
bardagaíþróttir frekar en dans.
Í verki sínu Evaporated
Landscape notaði Mette Ingvartsen
sápufroðu, ljós og einhvers
konar reyk til að skapa mynd af
borgarísjökum á floti á rúmsjó.
Stemningin var sefandi og myndin
sem skapaðist falleg. Enginn líkami
var sjáanlegur í verkinu. Höfundur
kom ekki einu sinni fram í lokin
til að hneigja sig. Svipað var upp
á teningnum í verkinu Nothing‘s
for Something eftir Heine Avdal &
Yukiko Shinozaki. Þar léku leiktjöld
og risastórar fljúgandi blöðrur stórt
hlutverk ásamt dönsurum sem
tjáðu ekki endilega mannlega tilvist
heldur urðu eitt með leiktjöldunum
og blöðrunum. Endirinn á verkinu
var óljós, svipað og í Evaporated
Landscape og áhorfendur skildir
eftir með verkinu sjálfu. Blöðrurnar
héldu áfram að svífa um án þess
að áhorfendur fengju merki um
Nothing´s for
Something eftir Heine
Avdal og Yukiko
Shinozaki.