Spássían - 2013, Page 51
51
og pólitískar ryskingar. Árið 2012 var kvikmynd
eftir bókinni mynduð í laumi (til að forðast refsingar
ofsatrúarfólks). Rushdie skrifaði handritið sjálfur
upp úr bókinni og er sögumaður myndarinnar. Það
lofaði góðu, en það varð úr sem svo oft áður, að elskað
bókmenntaverk varð heldur lítilfjörlegt á skjánum.
Þrátt fyrir að búið væri að klippa út allt of mikið,
til dæmis allt það umdeilanlega sem gerir fólk að
persónum, var enn allt of mikið eftir; þéttpökkuð
mynd af upplýsingum sem ná ekki að tengjast saman
nema maður muni baksöguna úr bókinni. Og ansi
sótthreinsuð; losti milli systkina, rasismi, drengur sem
horfir á „svartan mangó“ rass móður sinnar og vaknar
til vitundar um tilgang sinn í heiminum - þetta var
allt klippt út, það var auðmeltur Hollywood-andi yfir
vötnum og ekkert hrámeti skilið eftir.
Drake Page, maðurinn á bakvið JP Chutney
Collective, var beðinn um að halda chutneygerðarkvöld
í tengslum við frumsýningu myndarinnar í New
York. Þessi pæklunarsérfræðingur samþykkti að svara
nokkrum spurningum í netpósti, þrátt fyrir miklar
annir. Drake er nýfluttur frá Brooklyn til Woodstock,
og fyrir utan pæklun heldur hann matreiðslunámskeið,
stendur í ströngu við uppeldi á Lloyd (sem er feitasti
köttur New York-fylkis), og þótt kokteilstundin byrji
á slaginu 6:00 hjá föður Saleems í Miðnæturbörnunum,
þá byrjar hún um fimmleytið í sveitakyrrðinni í
Woodstock:
Hvert er hlutverk chutney í bókinni og kvikmyndinni?
Er það nógu stórt til að kalla á chutneygerðarkvöld á
frumsýningu myndarinnar í New York?
„Chutneynámskeiðið er frumlegt markaðsbragð
því chutney hefur skotið upp kollinum á nær öllum
fínum matseðlum í landinu þessa dagana. Ég fékk
rabbarbara-chutney með Crème Brûlée um daginn.
Og „foodie“-hreyfingin er svo sterk í Norður-Brooklyn
að matreiðslunámskeið var áhrifamikil leið til að ná til
stærri hóps áhorfenda en myndin höfðaði annars til.
Chutney er miðlægt tákn í sögunni um
Miðnæturbörnin – kvikmyndinni og bókinni
– á svo mörgum sviðum. Í sögu sem á rætur í
eftirlendumenningu hins nýsjálfstæða Indlands má
líta á þennan frægasta og vinsælasta „rétt“ landsins
sem sameinandi þátt margra sundurtættra svæða.
Eitthvað sem er jafn sínálægt og chutney, á hverju
heimili, hverju matborði, hjá múslimum og hindúum,
getur á sannfærandi hátt staðið fyrir menningarlega
ímynd Indlands. Í skáldsögunni verða pikkleskrukkur
að köflum í sjálfsævisögu sögumannsins, en pikkles
er náskylt chutney og oft ruglað saman við það
(mangó chutneyið sem borið er fram á indverskum
veitingahúsum á Vesturlöndum myndi til dæmis
flokkast sem pikkles í heimalandinu). Og það er „hari“,
eða grænt chutney, sem fylgir Saleem á ferðum hans og
hjálpar honum að finna sjálfan sig aftur, bernsku sína
og heittelskaða fóstru sína, Maríu. Grænt chutney er
„Rosebud“ Miðnæturbarna.“
Virkaði markaðsbrellan að þínu mati og tengdi fólk
myndinni gegnum önnur skilningarvit?
„Ég held að hugmyndin um námskeið hafi ef til
vill virkjað meðvitund þátttakenda um mikilvægi
bragðskyns og skynminnis í kvikmyndinni og
skáldsögunni. Að minnsta kosti hjá þeim sem hafa
áhuga á mannfræðilegum matarstúdíum, hvort sem það
er faglega eða sem sófasérfræðingar.“
Tekurðu, sem New York „foodie“ og lestrarhestur,
sérstaklega eftir matartengingum í bókmenntum og finnst
þér Miðnæturbörn hafa einhverja sérstaka stöðu í því
samhengi?