Spássían - 2013, Page 52
52
„Ég hef alltaf verið hrifinn af matarlýsingum og
máltíðum í bókmenntum, en ekki endilega þeim
flóknustu eða skáldlegustu. Stundum getur fágaður
höfundur dregið aðalatriðið saman í einni setningu –
mér verður oft hugsað til hins íkoníska gins og tóniks
í sögu Johns Cheever um Westchester húsmæðurnar
og eiginmenn þeirra sem sífellt eru í vinnunni, eða til
piparmeyja Patriciu Highsmith og kvöldverða þeirra,
sem voru gufusoðin egg og ristað brauð.
Miðnæturbörn ganga inn í hefð matar sem
táknmyndar og tækis til að framkalla minningar. Ég veit
ekki hvort hægt sé að segja að Rushdie noti chutney
eða pikkles við persónusköpun, eins og Paula Fox, sem
byrjar skáldsögu á því að par í nývinsælu Brooklynhverfi
óskar hvort öðru til hamingju með vel heppnaða
pönnusteikta kjúklingalifur. Ég held að Rushdie sé
uppteknari af einhverju stærra, að maturinn tákni þjóð,
sjálfsmynd sem nær út fyrir einstaklinginn.“
Hvernig fékkstu uppskriftina að græna chutneyinu og er
þín útgáfa jafn græn og engisprettur og mun hún draga
fólk frá öðrum landshlutum í pílagrímsferðir að heimili
þínu?
„Uppskriftin er frá móður leikstjórans og algengasta
gerðin af þessari vinsælustu kryddsultu Indverja, en
svæðisbundnar útgáfur eru óteljandi! Uppáhaldið
mitt er frá Rajasthan og inniheldur súrmjólk í staðinn
fyrir jógúrt en margar uppskriftir innihalda ekkert
mjólkurkyns svo bragðið verður hreinna og ferskara. Í
Bangalore og strandsvæðum Suður-Indlands er kókos
notaður til að gefa meiri fyllingu.
Í Miðnæturbörnum hefur þessi forni þjóðarréttur
táknræna merkingu fyrir nýsjálfstætt og dálítið
óreiðukennt Indland . Segja má að hann leiði
aðalpersónuna aftur að sjálfri sér. En ég er sannfærður
um að matartíska gefi ávallt til kynna tilfærslur í
þjóðarvitund og einstaklingsvitund. Ég er nokkuð viss
um að bragðviðmið breyttust eftir að flugferðalög,
frystitækni og sjávarfang urðu aðgengileg í landluktum
svæðum. Nýjar hreyfingar eins og grenndarát
(locavorism) og fæðuleit (foraging) endurspegla
vaxandi umhyggju fyrir – og áhyggjur af – umhverfi
okkar. Matur getur verið menningarleg táknmynd
tímabils. Skáldsaga Brets Easton Ellis, American
Psycho, væri ekki það sem hún er án hinna fáránlegu
matarlýsinga á barokkréttum nýja eldhússins – sem eru
jafn miklar táknmyndir níunda áratugarins og Nancy
Reagan og herðapúðar. Árið 1984 setti ég geitarost,
sólþurrkaða tómata og brúnaðan lauk á pizzu og pasta á
hverju kvöldi.“
Að lokum: Kvikmyndin sleppir að mínu mati miklu
af því sem kryddar bókina. Lögð er áhersla á sögulegu
kaflana upp á samhengið en kjötið virðist hafa verið skafið
af beinum sögupersónanna. Saleem er ekki ástfanginn
af systur sinni í myndinni, og í raun virkar Apynjan
frekar yfirborðsleg. En í einni senunni var eins og myndin
tæki við sér og persónurnar feng ju að slaka á og verða
raunverulegar. Það var þegar Apynjan og Saleem dansa
saman við Bítlalag sungið á indversku. Þau virkuðu
eins og alvöru táningar, staddir í klikkuðum heimi en
samt bara táningar sem langar að skemmta sér aðeins.
Það er athyglisvert að þessi sena er ekki í bókinni en var
tilgerðarlausasta senan í kvikmyndinni að mínu mati.
„Kvikmyndin hefur verið gagnrýnd fyrir að ofgera
töfraraunsæinu, fyrir að vera of tilfinningasöm og
sérviskuleg. Það er skemmtilegt að uppáhaldssenan þín í
myndinni er sú sem virðist hafa svo sterkar rætur í gleði
hversdagsins, sem er að dansa við Bítlana á Hindí.“
1 Sjá fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu frá 30. apríl 2009. Sótt 6. desember
2013 af http://www.whitehouse.gov/the_press_office/News-Conference-by-
the-President-4/29/2009/.
2 „Þegar glæpasagan stal senunni“, Spássían, vetur 2010, 13-14.
3 Íslensk þýðing fengin úr: Salman Rushdie: Miðnæturbörn, þýð. Árni
Óskarsson, Reykjavík, Mál og menning, 2003, 449.
4 Sjá sama rit, 454.
Í námskeiðinu var þátttakendum boðið
að kafa í hina sætu og krydduðu veröld
exótískra súrkrása, kryddanna sem komu
úr austri og má nú finna á matseðlum
veitingahúsa um allan heim, og uppgötva
hvernig sú veröld tengist hinu klassíska verki
Salmans Rushdies, Miðnæturbörn. Farið
var í sögu chutneys og uppruna þess, auk
þess sem fjallað var um notkun þess í
kvikmyndinni og skáldsögunni. Að lokum
var sýnt hvernig gera má þrjár tegundir
af chutney, eina fyrir hverja af þremur
landssvæðum sem koma við sögu í
Miðnæturbörnum; Bangladesh, Pakistan
og Delí. Þá var horft á valin atriði úr
kvikmyndinni á meðan þátttakendur gæddu
sér á afrakstri vinnunnar.