Spássían - 2013, Qupperneq 53
53
GRÆNT CHUTNEY Í KVIKMYNDINNI
MIÐNÆTURBÖRN
Minningar Saleems af bernsku sinni og heimili eru
nátengdar græna chutneyinu hennar ayah Maríu.
Skærgræna kryddmetið var alltaf á borðinu og
borið fram með hverri máltíð, líka morgunmatnum.
Þegar María huggar hinn unga Saleem á spítala
eftir skelfilega uppgötvun um „slæmt blóð“ hans,
lofar hún honum „öllu chutneyinu í heiminum“.
Fyrstu einmanalegu nóttina í húsi Emerald frænku
hans hefur hann mynd af Maríu og krukku með
chutneyinu hennar á náttborðinu; einu huggun sína.
Og þegar María hittir táninginn Saleem á Karachi
lestarstöðinni þegar hann snýr aftur úr útlegð er
það fyrsta sem María býðst til að gera fyrir hann
að útbúa uppáhalds chutneyið hans. Og auðvitað
reynist uppgötvunin á chutneykrukku frú Braganza
afdrifarík.
Eins og Saleem segir með röddu sögumanns,
leikinn af Salman Rushdie: „Stundum er tilfinningum
hrært út í mat og þær verða að því sem þú finnur
fyrir. Og stundum lekur fólk inn í hvert annað, eins
og bragð þegar þú eldar.“
GRÆNT CHUTNEY Í SKÁLDSÖGUNNI
MIÐNÆTURBÖRN
Engisprettugrænt chutney Maríu er sameinandi
minning hjá Saleem og kveikjan að könnun hans
á fortíðinni: „[...] bragðið af chutneyinu var meira
en bara endurómur af því bragði forðum – það var
gamla bragðið sjálft, einmitt það sama, og bjó yfir
mætti til að færa manni fortíðina aftur eins og hún
hefði aldrei verið fjarri [...] Enn og aftur abrakadabra,
sesam, opnist þú: orð prentuð á chutneykrukku
sem opnuðu síðustu dyr ævi minnar ...“3
„Pæklun sögunnar“ er leið til að endurheimta og
túlka minningar. Á síðustu blaðsíðum skáldsögunnar
lýsir Saleem þessu, með sömu orðum og í lok
myndarinnar: „Dag einn mun heimurinn ef til vill
bragða pikkles sögunnar. Það kann að vera of sterkt
fyrir suma góma, lyktin kann að vera þrúgandi, tár
kunna að streyma til augna; ég vona samt sem áður
að hægt verði að segja um það að það hafi ósvikið
bragð af sannleika ... að í því felist, þrátt fyrir allt,
kærleiksverk.“4
UPPSKRIFTIN AÐ GRÆNU CHUTNEY
Chutneyið sem borið er fram í Miðnæturbörnum er
útbúið ferskt á hverjum degi; er undraverð blanda
af ferskum jurtum styrkt með grænum chilipipar og
snerpt á með lime safa. Á Indlandi eru uppskriftirnar
að þessari gerð heimalagaðs chutneys jafn margar
og kokkarnir. Við bjóðum hér upp á afar sveigjanlega
og auðvelda uppskrift frá Vimla Mehta, móður
leikstjórans; ljúffengt uppáhald fjölskyldunnar. Þetta
chutney er hægt að setja saman í hvelli, í blandara,
en einnig er hægt að mauka hráefnin með handafli.
Grænt chutney er alltaf góð viðbót við máltíð; með
hrísgrjónum, sem ídýfa fyrir djúpsteikta smárétti eða
indverskt brauð, eða sem kryddsósa fyrir grillað kjöt
eða fisk.
FERSKT GRÆNT CHUTNEY
Um 2 bollar fersk kóríanderlauf
Um 1 bolli fersk myntulauf
2 til 4 græn chili, grófsöxuð
¼ til 1 tsk. þurrkað rautt chiliduft (eða 2 græn chili
í viðbót)
3 miðlungs hvítlauksgeirar, flysjaðir og saxaðir
1 msk. fersk granateplafræ
¼ tsk. sykur
1/4 til 1/3 bolli nýkreistur limesafi
1 tsk. sykur
3/4 tsk. sjávarsalt
¼ bolli grísk jógúrt eða skyr (má sleppa)
Skolið kóríanderinn og myntuna í köldu vatni og
hristið vætuna vel af. Setjið í blandara með öðrum
hráefnum, fyrir utan limesafann og jógúrtina.
Blandið saman þar til útkoman verður gróft mauk.
Færið blönduna í skál og látið hana standa. Bætið
lime safanum við rétt áður en chutneyið er borið
á borð, hrærið honum vel saman við og smakkið
blönduna til um leið. Bætið við salti eftir þörfum.
Til að milda bragðið og gefa meiri fyllingu má bæta
við jógúrt.