Spássían - 2013, Blaðsíða 55
55
Mynd: Listasafn Reykjavíkur
dýrinu á hundslegum grundvelli, í
stað þess að teyma hann stöðugt
um mennskar slóðir. Beini elskar
ilmsinfóníuna og dregur lesandann
með sér inn í óvenjulega veröld
þar sem sjónin er í aukahlutverki
og lyktin aðal. Lesandinn verður
þannig nokkurs konar blendingur
af manni og hundi, að minnsta
kosti meðan á lestri stendur, og
það sama má segja um gest á
sýningunni Kaflaskiptum, þar sem
þefskynið fær að trompa sjónina
stundarkorn.
Í vinsælli bók taugafræðingsins
Olivers Sacks, Maðurinn sem
hélt að konan hans væri hattur
(The Man Who Mistook His Wife
For A Hat), má finna frásögnina
„Hundur undir húð”, eða „Dog
Beneath the Skin”. Þar segir frá
ungum læknanema sem fór yfir
um á skynvíkkandi eiturlyfjum og
máði burtu mörkin á milli þess
að vera maður og hundur. Sá var
annar hundurinn sem gekk með
mér um sali listasafnsins. Stephen
D. var 22 ára gamall þegar ein
nótt af yfirgengilegri lyfjanotkun
sendi hann yfir strikið og opnaði
fyrir honum öðruvísi skynjun á
umhverfi sínu. Nefið færðist fram
fyrir augun sökum einhvers konar
heilatruflunar og hann tók að „sjá“
umhverfið í gegnum lykt. Litir
brengluðust út frá ilminum sem
fylgdu þeim og hann segist hafa
borið kennsl á fólk út frá lykt, en
ekki út frá sjónrænu útliti. Þannig
talar Stephen D. um „lyktarfés“
eða „smell-face“ til að aðgreina
upplifun sína frá hefðbundinni
skynjun á andlitum. Ástandið varði
í u.þ.b. tvær vikur en eftir það óx
maðurinn aftur yfir hundinn og
Stephen D. varð ekki var við aðra
hjáskynjun eftir það.
Síðasti hundurinn í þessari stuttu
hugleiðingu hét ekki neitt, enda var
hann heimspekilegs eðlis og meira í
ætt við hugarþjálfun manna heldur
en raunverulegt dýr. Hann kemur
úr skrifum dýrasiðfræðingsins
Garys Franciones og hugleiðingum
um eðli mannmiðjuhugsunar
sem grunn að mannlegri skynjun
og uppbyggingu samfélags. Við
mannfólkið höfum sérsmíðað
bæði menningu og umhverfi sem
snýst um þá hugsun að maðurinn
sé miðja alls. Við berum önnur
dýr saman við okkur og leggjum á
þau gildismat út frá stöðlum sem
eiga við okkar eigin dýrategund.
Út frá því er hægt að ákvarða að
sum dýr séu ómerkilegri en önnur,
heimskari en við og eigi minni
tilverurétt vegna þess að þau
koma illa út í samanburði sem á
sér stað á mennskum forsendum
– en ekki á forsendum þeirrar
tegundar sem um ræðir. Þannig
verða dýr að plágum og pirringi,
að hráefni og hlutgervingu, að
þjónum mannfólksins og í eðli
sínu óæðri. En slík hugsun byggir
alfarið á mannmiðjunni, sem gerir
staðla mannfólksins að algildu
viðmiði fyrir öll önnur dýr á
jörðinni, og slíkur samanburður er
vandkvæðum bundinn.
Að hliðra þefskyninu fram
fyrir sjónina er auðmýkjandi
áminning um afstæð gildi innan
dýraríkisins og hversu geðþóttaleg
og ósanngjörn mannmiðjan getur
verið, sérstaklega þegar hún er
notuð til að leggja siðferðislegt
mat á önnur dýr. Í bókinni
Dýr sem persónur (Animals as
Persons) notar Francione einmitt
þefnæmi hunds sem dæmi um
ólík gildi sem ættu ekki að skipta
máli siðferðislega séð, en verða
merkingarhlaðin þegar eitt er
notað til að halda öðru niðri í stífu
stigveldi á milli tegunda. Hvers
vegna skiptir meira máli að þekkja
sjálfan sig í spegli, spyr Francione,
heldur en að þekkja sjálfan sig í
lykt? Sýningunni Kaflaskiptum lauk
í septemberbyrjun, en hundarnir
þrír sem gengu með mér um
salinn, lyktuðu af hverjum poka
og upplifðu rýmið út frá þefvísi,
þeir fylgja mér enn og minna mig
reglulega á mikilvægi ilmsins og
höftin sem mannfólkið lifir við
innan heimsmyndar sem nær langt
út fyrir hefðbundna, mennska
skynjun.
Við mannfólkið höfum sérsmíðað
bæði menningu og umhverfi sem
snýst um þá hugsun að maðurinn
sé miðja alls. Við berum önnur dýr
saman við okkur og leggjum á þau
gildismat út frá stöðlum sem eiga við
okkar eigin dýrategund.
„