Spássían - 2013, Qupperneq 76
76
bregður fyrir andstæðum litum í
litasamsetningum hennar. Stundum
greindi Elín andlitin niður í ótal lituð
svæði og minnir þá á Matisse, s.s.
í verkinu Femme aux chapeau frá
1905. Þar mætast ótal litir, gjarnan
andstæðir, innan andlitsins og einnig
í svæðinu sem umlykur fígúruna.
Verk Eyborgar teygja sig yfir í
vísindi og skynjun. Í Op-list er lögð
áhersla á samband áhorfanda og
verks, því unnið er með skynjun
hans á litum og formi og jafnvel
ljósi. Eyborg hélt sig við grunnform
og grunnliti en einnig gegndi ljósið
hlutverki í sumum verka hennar.
Í þeim tilvikum vann hún með
glerplötur sem hún felldi hverja
yfir aðra. Línurnar og formin
breytast vegna ljóssins sem leikur
milli glerjanna og verður því
myndin breytileg eftir sjónarhorni
áhorfandans.8 Um list sína sagði
Eyborg sjálf:
Myndir mínar eiga sjaldnast
að tákna neitt sérstakt.
Myndin er tilbúin í huganum
áður en ég byrja að mála og
ég mála aldrei yfir, annað
hvort tekst mér strax að fá
myndina eins og ég ætla í
upphafi eða þá að ég byrja á
nýjan leik... Ég held því ekki
fram að geometrían - eða
konstruktivisminn - sé öðrum
stefnum fremri eða réttari.
Það vill aðeins svo til, að
hún hentar mér. Mér finnst
hún spennandi viðfangsefni.
Frumform hennar, hringur,
ferhyrningur og lína, eru
undirstaða alls umhverfis
okkur og í öllu áþreifanlegu
lífi og það er hægt að brjóta
þessi form upp í óendanlegum
tilbrigðum.9
Eyborg hélt nokkrar einkasýningar
á Íslandi og dómar voru flestir
jákvæðir. Valtýr Pétursson skrifar
í dómi um sýningu Eyborgar að
nokkuð langt væri „síðan sézt hefur
jafn heilleg sýning á geometrískri
list“.10 Bragi Ásgeirsson skrifar í dómi
sínum m.a.: „Eyborg hefur staðfest
það með þessari sýningu, að hún
er vandvirkur málari, sem gædd er
miklu hugrekki og einurð og vinnur
því umtalsverðan sigur með þessari
sýningu.“11 Fyrsta sýning Eyborgar var
haldin í Bogasal Þjóðminjasafnsins
árið 1965, næsta sýning var á Mokka-
kaffi árið 1966 og sú þriðja og síðasta
í Norræna húsinu árið 1975. Eyborg
lést skömmu síðar, árið 1977, rétt
rúmlega fimmtug að aldri.12
Það er von mín að Eyborg
Guðmundsdóttir, Elín Pjet. Bjarnason
og aðrar framúrskarandi listakonur
fái í framtíðinni verðskuldaðan
sess í listasögunni og að fleiri og
fjölbreyttari skrif bætist við á næstu
árum og áratugum um íslenskar
listakonur.
1 Fyrsti listmálarinn sem gerði myndlist að
sínu ævistarfi hérlendis var sem kunnugt er
Ásgrímur Jónsson (1876-1958).
2 Heller, Nancy G., Woman artists, New York,
Abbeville Press, 2003, 176.
3 Einar Falur Ingólfsson, „Frumformin
undirstaða alls“, Morgunblaðið, 5. febrúar
1997, 24.
4 Elín Pjet. Bjarnason 1924 -2009. Öll erum
við einskonar trúðar, sýningarskrá, Kristín
G. Guðnadóttir og Pjetur Hafstein Lárusson,
Reykjavík, Listasafn ASÍ, 2011.
5 Bragi Ásgeirsson, „Tvær sýna í Bogasal,“
Morgunblaðið 17. apríl 1968, 13.
6 Elín Pjet. Bjarnason 1924 -2009. Öll erum við
einskonar trúðar.
7 Aðrar myndir Elínar voru sýndar í dagsbirtu í
Ásmundarsal Listasafns ASÍ.
8 Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, „Optísk
list“, Íslensk listasaga frá síðari hluta 19.
aldar til upphafs 21. aldar, III. bindi, ritstjóri
Ólafur Kvaran, Forlagið og Listasafn Íslands,
Reykjavík, 2011, 131-134.
9 Einar Falur Ingólfsson, „Frumformin
undirstaða alls“, 24.
10 Sama, 24.
11 Bragi Ásgeirsson, „Sýning Eyborgar“,
Morgunblaðið, 23. mars 1975, 22.
12 Einar Falur Ingólfsson, „Frumformin
undirstaða alls“, 24.
Af sýningu á verkum
Eyborgar á Kjarvalsstöðum
árið 2009.