Morgunblaðið - 10.01.2020, Blaðsíða 19
MINNINGAR 19
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. JANÚAR 2020
þrif í hópnum, hafði sterkar
skoðanir, var vel inni í málum,
kímnigáfan ríkuleg og hún kvað
niður alla neikvæðni. Henni
fylgdi alltaf ferskur blær þegar
hún kom inn úr dyrunum. Hún
þurfti tíma til að komast að
borðinu okkar, því hún þekkti
svo marga sem hún kyssti og
knúsaði á leið sinni. Gunna fékk
sér jafnan appelsín og purusteik
meðan við hinar létum okkur
nægja vatn og hálfa „smørre-
brød“.
Danmörk átti sterk ítök í
Gunnu. Þar stundaði hún nám,
þar kynntist hún Gísla og þar
tók hún þátt í starfi íslensku
kvennahópanna. Kim Larsen,
Anne Linnet og félagarnir
Benny Andersen og Povl Diss-
ing voru í uppáhaldi. Kim Lar-
sen orti: Livet er langt, lykken
er kort“ en því var öfugt farið
hjá Gunnu, líf hennar varð of
stutt en gæfan mikil.
Eftir að hún kom heim frá
námi gekk hún til liðs við
Kvennalistann en þar voru fyrir
baráttusystur úr Rauðsokka-
hreyfingunni. Hún hellti sér í
starfið, varð varamaður í borg-
arstjórn fyrir Kvennalistann og
síðan borgarfulltrúi 1992-1998.
Gunna átti langan pólitískan
feril í borgarstjórn og á Alþingi
en eftir að honum lauk tók við
afar erfitt verkefni. Það var
ekki heiglum hent að fást við
úttekt á vistheimilum ríkisins
þar sem níðst var á börnum svo
ævarandi skömm er að. Gunna
stýrði þessu starfi og við erum
til vitnis um að oft gekk hún
nærri sér og mætti stundum á
Jómfrúna gjörsamlega að nið-
urlotum komin eftir að hafa
hlustað á hræðilegar reynslu-
sögur fólks.
Gunna bjó yfir æðruleysi og
hugrekki sem lýsti sér m.a. í því
að henni tókst að ljúka þessu
erfiða verkefni en ekki síður í
því hvernig hún tókst á við veik-
indin sem lögðu hana að velli á
síðasta degi ársins 2019. Æðru-
leysi hennar birtist m.a. í heim-
spekilegum vangaveltum um líf-
ið og tilveruna. Hún hvatti
okkur til að meta og njóta lífs-
ins, gefa hamingjunni tækifæri
og láta ekki sektarkennd taka
völdin. Á síðustu mánuðum lífs
síns miðlaði Gunna góðum ráð-
um til sinna fjölmörgu vina, hún
vildi fá að deyja fallega og
senda frá sér jákvæða strauma.
Fáa þekkjum við sem áttu því-
líkan vinahóp, hún leit á alla
sem jafningja, óháð kyni, stétt
og stöðu.
Gunna nýtti margþætta lífs-
reynslu sína til þess að láta gott
af sér leiða og tengja fólk sam-
an. Næmi hennar á líðan ann-
arra var mikið og það nýttist
henni vel í starfi sem félagsráð-
gjafi á Landspítalanum, sem
borgarfulltrúi þar sem barna-
verndarmál voru henni hugleik-
in og á þingi þar sem mannrétt-
indi samkynhneigðra voru
hennar hjartans mál.
Að leiðarlokum þökkum við
Gunnu áratuga samstarf og dýr-
mæta vináttu. Baráttan heldur
áfram, fyrir kvenfrelsi, mann-
réttindum, jöfnuði og réttlæti.
Megi fordæmi Gunnu Ö. vera
okkur leiðarljós og áminning
um að halda ótrauðar áfram.
Við sendum Gísla, Ögmundi,
Ingibjörgu og öðrum ættingjum
og vinum okkar innilegustu
samúðarkveðjur. Minning
Gunnu Ö. mun lifa.
Danfríður Skarphéðinsdóttir,
Guðrún Agnarsdóttir,
Kristín A. Árnadóttir,
Kristín Ástgeirsdóttir,
Kristín Einarsdóttir,
Kristín Jónsdóttir,
Sigríður Lillý Baldursdóttir,
Þórhildur Þorleifsdóttir.
Orð fá því ekki lýst hvernig
mér leið við að heyra að vin-
kona mín og kollegi væri fallin
frá. Það er svo margt sem við
áttum eftir að ræða og ég hafði
trú á að við gætum gert saman í
borgarstjórn. Eins og svo marg-
ir aðrir hef ég verið blinduð af
þeirri gríðarlegu bjartsýni sem
einkenndi Gunnu um að það
væru orkumiklir tímar fram
undan.
Leiðir okkar Gunnu, eins og
hún var ætíð kölluð, lágu fyrst
saman fyrir rúmlega tuttugu ár-
um þegar hún, sem borgar-
fulltrúi, var formaður velferð-
armála hjá Reykjavíkurborg,
þar sem ég starfaði sem yfir-
maður öldrunarmála. Saman
stóðum við, ásamt framsýnu
samstarfsfólki, að miklum
breytingum í málefnum aldr-
aðra. Gunna var okkur mikil
stoð í því að breyta og bæta í
velferðarþjónustu og enginn var
betri en Gunna í að berjast fyrir
mannréttindum og framþróun í
þjónustu með því að setja fólk
og þarfir þess alltaf í forgrunn.
Hún minnti reglulega á mikil-
vægi þess að hlusta, svo að fólk
gæti lifað og dafnað á eigin for-
sendum. Mér, sem ungri konu,
var það mikill fengur að hafa
slíka fyrirmynd innan handar
og aldrei stóð á stuðningi henn-
ar eða góðum ráðum.
Alla tíð átti hún líka stuðning
minn vísan. Kostir hennar,
mannkærleikur og kraftur skein
í gegn til allra þeirra sem við
hana töluðu og líkt og svo
margir aðrir var ég ætíð dygg
stuðningskona hennar, þvert á
flokkapólitík, því ég trúði á
Gunnu sem manneskju. Gunna
var fyrst og síðast góð mann-
eskja og það fundu allir sem
hana þekktu og unnu með
henni. Góð ráð hennar og óbil-
andi trú á það pólitíska litróf
sem við myndum í borgarstjórn
í dag var okkur mikil styrkur.
Hún var dugleg, fram á síðustu
stund, í að hvetja okkur félaga
sína í borgarstjórn áfram og
minna okkur á í þágu hverra við
störfum. Við í Viðreisn áttum
góðan vin og félaga í Gunnu og
við fundum að okkar frjálslyndu
og evrópsku hjörtu slógu í takt.
Mannréttindi, velferð og jafn-
rétti verða alltaf nátengd minn-
ingunni um baráttukonuna okk-
ar sem nú er fallin frá. Hún
brýndi fyrir okkur að láta hjart-
að ráða för sem er gott vega-
nesti í stjórnmálum í dag. Það
er því með hjartað fullt af tár-
um og sorg en um leið barma-
fullt af bjartsýni sem ég þakka
henni fyrir kraftinn, baráttuna
og framsýnina sem verður okk-
ur leiðarljós inn í framtíðina.
Fjölskyldunni votta ég mína
dýpstu samúð.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir,
oddviti Viðreisnar
í Reykjavík.
Það er til fólk sem hefur
áhrif á allt sem það snertir.
Fólk sem hefur djúp áhrif á
samferðafólk sitt og gerir sam-
félagið betra. Guðrún Ögmunds-
dóttir var þannig manneskja.
Kærleikurinn alltaf í forgrunni í
öllu sem hún tók sér fyrir hend-
ur og við sem vorum henni sam-
ferða fengum að njóta.
Guðrún var einn af stofn-
félögum EXEDRA, sem er vett-
vangur umræðna, og þar líkt og
annars staðar hafði hún mikil
áhrif. Hún lét til sín taka frá
fyrsta degi. Hún átti fólk að vin-
um þvert á flokka og stöðu.
Hún lagði áherslu á gott samtal
og samvinnu, var uppbyggjandi
og hvetjandi. Ávallt jákvæð, trú
og heiðarleg í afstöðu sinni til
manna og málefna.
Mannvinurinn Guðrún var
virk í góðgerðarhópi EXEDRA
og lagði þar áherslu á að standa
við bakið á þeim sem á þurfa að
halda. Alltaf var Gunna til í að
leggja sitt af mörkum. Eitt sinn
héldum við uppboð til styrktar
konum og börnum í Jemen þar
sem meðal annars var hægt að
bjóða í „sunnudagslæri heima
hjá Gunnu Ö“ og var slegist um
að komast í það matarboð. Enda
enginn skemmtilegri en Gunna.
Hún sagði frábærar sögur og
hlátur hennar og gleði smitaði
alla. Gunnu var umhugað um
komandi kynslóðir. Hún deildi af
örlæti reynslu sinni og þekkingu
til yngri þátttakenda í EX-
EMPLA, sem er systurhópur
EXEDRA, og gaf góð ráð.
Guðrún var okkur mikil fyr-
irmynd og kenndi okkur margt.
Að fylgja ávallt hjartanu og
þora að njóta lífsins. Að gleðjast
yfir hinu smáa og henda sekt-
arkenndinni á haugana. Styrkur
og æðruleysi einkenndu þessa
merku konu. Þakklæti er okkur
efst í huga. Þakklæti fyrir ein-
staka vinkonu með hjarta úr
gulli.
Við vottum fjölskyldunni okk-
ar dýpstu samúð.
Blessuð sé björt minning
Guðrúnar Ögmundsdóttur.
Fyrir hönd EXEDRA,
Sigþrúður Ármann,
Áslaug Hulda Jónsdóttir.
Að loknum alþingiskosning-
um vorið 1999 settust 17 menn
á þing fyrir Samfylkinguna.
Meirihluti þeirra var konur og
ein þeirra var Guðrún Ög-
mundsdóttir. Nýja stjórnmála-
hreyfingin okkar fékk tæplega
27% atkvæða og það var hugur í
fólki. Mikil orka hafði farið í að
smíða og samræma stefnumál í
aðdraganda kosninganna og
leggja grunn að kosningabanda-
lagi sem ári síðar varð stjórn-
málaflokkur. Þegar til átti að
taka var það hinn ólíki pólitíski
kúltúr sem flokkarnir tóku með
sér inn í Samfylkinguna annars
vegar og það verkefni að skapa
gott samfélag í nýrri stjórn-
málahreyfingu hins vegar sem
mests krafðist af okkur hverju
og einu. Í þeirri glímu stóð
Gunna fremst meðal jafningja.
Hún las samskipti betur en aðr-
ir og kunni að vinna fólk á sitt
band. Hún vissi sem er að gleði
og góður húmor er lykill að
góðu starfsumhverfi og var
hrókur alls fagnaðar í þing-
flokknum. Hún sat í stjórn
þingflokksins á þessu fyrsta og
krefjandi kjörtímabili Samfylk-
ingarinnar með Rannveigu Guð-
mundsdóttur og Jóhanni Ár-
sælssyni. Þeim var treyst fyrir
því mikilvæga verkefni að stilla
saman strengi í nýjum þing-
flokki. Í glímunni við stór egó
og fyrirferðarmikla einstaklinga
var Gunna á heimavelli.
Á Alþingi beitti Guðrún sér
af fullu afli fyrir sínum hjartans
málum; réttindum samkyn-
hneigðra, barnavernd, málefn-
um útlendinga, jafnrétti, þróun-
arsamvinnu og þannig mætti
áfram telja. Hún náði miklum
árangri þrátt fyrir að vera í
stjórnarandstöðu þau átta ár
sem hún sat á þingi. Að öðrum
ólöstuðum á hún mestan heiður
af því að hafa siglt í höfn lög-
gjöfinni um staðfesta samvist
samkynhneigðra gegn andstöðu
kirkjunnar eins og flestir muna
og það var Guðrún sem hrinti af
stað umræðunni um klám og
vændi hér á landi með skýrslu-
beiðni til ráðherra fyrsta vet-
urinn sem hún sat á þingi. Á
þeim grunni hvílir löggjöfin sem
við búum við í dag.
Í eftirmælum um Guðrúnu
sést vel hvað hún snerti margt
samferðafólk á lífsleiðinni. En
hún Gunna var enginn dýrling-
ur og lét sig ekki muna um að
segja fólki til syndanna þegar
henni þótti ástæða til. Hún bjó
hins vegar yfir þeirri náðargáfu
að geta nálgast alla með sama
hætti, af virðingu og skilningi,
og með einstöku innsæi í mann-
legt eðli. Þeir eðliskostir hennar
nutu sín til fullnustu í því erfiða
verkefni að ákvarða sanngirn-
isbætur til barna sem vistuð
höfðu verið á ríkisstofnunum og
sætt illri meðferð.
Guðrún Ögmundsdóttir gerði
íslenskt samfélag betra. Við
sem áttum því láni að fagna að
starfa með henni á Alþingi
kveðjum samverka- og vinkonu
okkar með söknuði og þakklæti.
Gísla, Ingibjörgu, Ögmundi,
Birnu og ömmubörnunum vott-
um við okkar dýpstu samúð.
Þingkonur Samfylkingarinn-
ar 1999-2003,
Ásta Ragnheiður
Jóhannesdóttir,
Bryndís Hlöðversdóttir,
Jóhanna Sigurðardóttir,
Margrét Frímannsdóttir,
Rannveig Guðmundsdóttir,
Sigríður Jóhannesdóttir,
Svanfríður Inga Jónasdóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Það er ótrúlega sárt að
kveðja Guðrúnu Ögmundsdótt-
ur. Síðustu dagar hafa einnig
undirstrikað hvað hún var fólki
víðs vegar að úr samfélaginu
mikill harmdauði. Augljóst er að
fáir hafa snert jafnmörg hjörtu
samferðafólks síns á jafn djúp-
stæðan hátt á löngum, fjöl-
breyttum og gifturíkum ferli.
Gunna tókst á við veikindin
eins og aðra baráttu með lífs-
gleði, sjarma, jákvæðni og smit-
andi bjartsýni auk þess sem
húmorinn var aldrei langt und-
an. Og baráttukona var Gunna
alltaf. Hún ruddi brautina á
ótalmörgum sviðum og skildi
eftir sig djúp spor í samfélag-
inu. Fáir höfðu aðra eins innsýn
í stöðu kvenna sem bjuggu við
misjöfn kjör eftir störf hennar
sem félagsráðgjafi á kvenna-
deildinni. Hún kom hvarvetna
við í velferðarmálum, lagðist
víða á plóginn og sáði nýjum
fræjum. Hún var leiðandi í
kvenfrelsis- og kvennabaráttu.
Hún var sannur jafnaðarmaður.
Leiðandi í því á vettvangi borg-
arinnar að horfið var frá því að
líta á fjárhagsaðstoð sveitar-
félaga sem ölmusu en miklu
frekar stuðning til sjálfshjálpar,
tímabundna neyðaraðstoð
byggða á mannréttindum. Hún
beitti sér fyrir umbótum í
barnavernd og leiddi tilrauna-
verkefni í nýrri nálgun á heild-
stæðri hverfaþjónustu með
stofnun þjónustumiðstöðvarinn-
ar Miðgarðs í Grafarvogi. Og
þannig mætti áfram telja.
Hvar sem einstaklingar eða
hópar sem áttu undir högg að
sækja þurftu stuðning eða rödd
var Gunna mætt með eldmóð og
óbilandi baráttuhug í bland við
klókindi og málafylgju. Eftir
allan sinn magnaða feril var
gríðarlegur fengur að fá hana
aftur inn í borgarstjórnarflokk
Samfylkingarinnar vorið 2018
og að sama skapi er það mikill
missir að sjá á eftir henni, ekki
aðeins sem stjórnmálakonu
heldur ekki síður þeirri mögn-
uðu og sönnu manneskju sem
hún var. Það urðu allir ríkari af
því að kynnast Gunnu Ö. Eng-
um hef ég kynnst sem hafði jafn
mikið og djúpt innsæi í sam-
skipti fólks og hópa. Gunna var
örlát á ráð og reynslu og varð
hvarvetna „límið“ í þeim fé-
lagsskap sem hún gekk til liðs
við – og oftar en ekki sjálfskip-
aður veislustjóri – því enginn
var meiri stemningsmanneskja
eða skemmtilegri á góðri stund.
Mér þykir ótrúlega vænt um
að hafa fengið að vinna með
Gunnu að borgarmálum síðustu
misserin en einhvern veginn var
táknrænt að gleðigangan síð-
asta sumar hafi verið síðasta
opinbera þátttaka Gunnu sem
borgarfulltrúi áður en hún fór í
veikindaleyfi. Bæði vegna ómet-
anlegs framlags hennar til bar-
áttu hinsegin fólks og einnig
vegna sólskinsins og ósvikinnar
gleðinnar af því að lyfta fjöl-
breytileikanum og því góða og
bjarta í samfélaginu sem svo
sannarlega var þess virði að
berjast fyrir. Ég votta Gísla og
öllum aðstandendum mína
dýpstu samúð. Blessuð sé minn-
ing Guðrúnar Ögmundsdóttur.
Dagur B. Eggertsson,
borgarstjóri.
Ég hef notið þeirra forrétt-
inda að þekkja Guðrúnu Ög-
mundsdóttur í marga áratugi.
Fáum hef ég kynnst sem þótti
jafn vænt um fólk. Engum hef
ég kynnst sem lét sér jafn annt
um velferð allra og Gunna. Hún
átti merkilega ævi og skilur eft-
ir sig einstakar minningar. Ævi
sem því miður var allt of stutt.
Það voru allir heppnir sem
voru með Gunnu í liði og nutu
vináttu hennar. Hún ræktaði
sitt fólk og hvatti áfram af mik-
illi ástríðu.
Við vorum saman í kvenna-
ráðgjöfinni og þar nutu sín vel
mannkostirnir miklu og traust
gildismat hennar.
Það var gæfuspor að fá Guð-
rúnu Ögmundsdóttur sem tengi-
lið vistheimila – það var gæfa
bæði fyrir þolendur og þjóðina.
Greiðsla sanngirnisbóta til
fyrrverandi vistmanna á vist-
heimilum og stofnunum er ein-
stakt verkefni í íslenskri sögu
og gerir ríkar kröfur til tals-
manns þeirra.
Að vinna nýrri hugsun braut-
argengi er ekki einfalt verk og
þar komu kostir Gunnu sér vel.
Og nutu sín. Hún hafði brenn-
andi áhuga á öllu sem hún gerði,
ríka réttlætiskennd og bar virð-
ingu fyrir rétti allra manna til
að lifa með reisn.
Hún var svo lausnamiðuð og
gleymdi sér ekki í rugli.
Ég efast um að nokkur hefði
getað unnið þetta jafnvel og
Gunna.
Til marks um það er meðal
annars hversu fá mál voru kærð
til úrskurðarnefndarinnar og
hversu mikil sátt er í raun um
þetta vandasama verkefni.
Samstarfskonan Guðrún Ög-
mundsdóttir var einstök, óspör á
holl ráð og umhugað um velferð
okkar samstarfsfólksins. Hún
sýndi það í verki og nýtti
reynslu sína, menntun og þekk-
ingu okkur öllum til góðs.
Gunna sagði okkur líka sann-
leikann og stundum til syndanna
ef þörf var á.
Á tímum mikilla áskorana
kom Gunna oftar en ekki með
hugmyndir og skoðanir sem
breyttu öllu. Og mikið kom hún
oft með góðar hugmyndir og
góð ráð til okkar stjórnendanna.
Dómgreind hennar brást
ekki.
Guðrún skilur eftir sig djúp
spor í stjórnsýslunni sem við
getum lært af.
Ég segi oft að það ætti að
vera ein Gunna Ögmunds á
hverjum vinnustað, í hverri fjöl-
skyldu og hverjum vinahópi.
Og vininn og selskapskonuna
Gunnu Ögmunds þekkjum við –
þar lýsti hún upp alla króka sál-
arinnar og allt varð svo miklu
skemmtilegra! Og betra!
Ég votta Gísla, Ögmundi,
Ingibjörgu og fjölskyldu allri
einlæga samúð mína. Megi
minningar um einstaka konu
veita ykkur styrk í mikilli sorg.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Það er sárt að þurfa að skrifa
minningarorð um hana Gunnu
Ö. sem kvaddi allt of snemma.
Erfiðast er það auðvitað fyrir
ástvini að þurfa að sjá á eftir
þessari yndislegu konu en líka
mikill missir fyrir samfélag sem
á allt undir því að umburðar-
lyndi, víðsýni og samhjálp nái að
blómstra. Það sem einkenndi
Gunnu var þrotlaus barátta fyrir
þessum gildum. Það endurspegl-
aðist bæði í vinnu hennar en
ekki síður í hversdagslífinu.
Hvernig hún á opinn og einlæg-
an hátt hélt á lofti réttindum
hópa sem áttu undir högg að
sækja og í því hvernig hún tal-
aði um fólk og við það. Hún var
sönn jafnaðarkona.
Gunna sat á þingi fyrir Sam-
fylkinguna frá árinu 1999 til
2007 og í borgarstjórn Reykja-
víkur frá árinu 2017. Hún
gegndi auk þess fjölmörgum
mikilvægum trúnaðarstörfum
fyrir flokkinn. Hún átti rætur í
Kvennalistanum enda ötul bar-
áttukona fyrir kvenfrelsi og var
fyrst kjörin til setu í borgar-
stjórn fyrir hann árið 1992.
Guðrún barðist alla tíð fyrir
réttindum minnahlutahópa og
allra þeirra sem minna mega
sín. Hún lagði mikla áherslu á,
og náði árangri, í baráttu fyrir
réttindum hinsegin fólks, rétt-
indum útlendinga, jafnrétti
kynjanna, þróunarsamvinnu og
málefnum ungs fólks svo fátt
eitt sé nefnt.
Það er ekki langt síðan ég
kynntist Gunnu en strax á
fyrsta degi fann ég fyrir þeirri
hlýju og skilyrðislausa rausn-
arskap sem einkenndi hana.
Það var nokkrum dögum eftir
afhroð Samfylkingarinnar í
kosningunum 2016 að síminn
minn hringdi og karakterrík
rödd, sem ég býst við að flestir
þekki sagði: „Komdu og hittu
mig uppi á Mokka, mig langar
aðeins að spjalla við þig.“ Þetta
var sem sagt röddin hennar
Gunnu Ö. Við sátum síðan í
vetrarsólinni undir suðurvegg
kaffihússins og spjölluðum um
alla heima og geima. Fljótlega
áttaði ég mig á að tilgangur
hennar var hvorki að leggja
mér línur eða álasa neinum fyr-
ir slæma útkomu flokksins,
heldur að stappa í mig stálinu
og láta vita að hún væri til stað-
ar hvenær sem væri. Það var
heldur glaðari og bjartsýnni
maður sem hélt af hennar fundi
en sá sem kom til hans. Og það
leið ekki á löngu þar til mér
fannst ég alltaf hafa þekkt
þessa opnu og skemmtilegu
konu sem talaði óðamála um
margt af því fallega og
skemmtilega í lífinu. Og þessa
hlýju fann ég ævinlega stafa frá
henni síðar, hvort heldur ég
rakst á hana fyrir tilviljun eða
fékk skilaboð frá henni í sím-
ann, akkúrat þegar ég þurfti á
þeim að halda.
Stundum er sagt að ef fólk
vilji betri heim eigi það að byrja
á sjálfu sér því kröftugasta
byltingin hefjist innra með ein-
staklingnum sjálfum. Ég held
að það sé eins hægt að fullyrða
að við ættum öll að reyna að
verða aðeins meira eins og
Gunna Ö.
Fyrir hönd Samfylkingarinn-
ar votta ég Gísla, fjölskyldu
Gunnu og vinum, mína dýpstu
samúð. Við erum Gunnu eilíf-
lega þakklát fyrir hennar dýr-
mæta starf og nærveru í öll
þessi ár. Það skipti hreyfinguna
miklu máli.
Logi Einarsson, formaður
Samfylkingarinnar.
Gunna var aldrei ein. Hún
laðaði að sér fólk úr ólíkustu
áttum, stétt og staða skiptu
hana engu og allir virtust eiga
sinn sérstaka stað í hjarta
hennar. Það rúmaði vel heila
þjóð. Og þjóðin er sannarlega
miklu fátækari án hennar.
Gunna kom víða við og var
ávallt með veislu í farangrinum.
Hún háði ótal orrustur gegn
hvers konar ranglæti og bar
jafnan sigur úr býtum. Stund-
um tók það ár, stundum áratugi
en ég heyrði hana þó aldrei
hallmæla nokkrum andstæðingi.
Hún sá það góða í fólki og fólk
varð betra af að vera með
henni.
Gunna kvaddi á gamlárs-
morgun en mínar sterkustu
minningar um hana eru frá
gamlárskvöldum fortíðar. Hún
söng, dansaði og var í essinu
sínu þegar tímarnir mættust,
sátt við hið liðna, glöð í augna-
blikinu og trúði á morgundag-
inn. Það eru mikil forréttindi að
hafa fengið að telja Gunnu til
minnar nánustu fjölskyldu. Fal-
leg og tjáningarrík rödd hennar
mun hljóma innra með mér um
ókomna tíð. Ég kveð hana með
söknuði og þakklæti.
Víkingur Heiðar Ólafsson.
Fleiri minningargreinar
um Guðrúnu Ögmundsdótt-
ur bíða birtingar og munu
birtast í blaðinu næstu daga.