Morgunblaðið - 10.01.2020, Qupperneq 22

Morgunblaðið - 10.01.2020, Qupperneq 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. JANÚAR 2020 ✝ Ragnar Gunn-laugsson fædd- ist 26. febrúar 1949 á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 30. des- ember 2019. For- eldrar hans voru Ólína Ragnheiður Jónsdóttir og Gunnlaugur Jón- asson, bændur í Hátúni í Seylu- hreppi. Ragnar á einn bróður, Jón Gunnlaugsson, kvæntur Jónínu Stefánsdóttur. Eru þau bændur í Stóru-Gröf. Ragnar giftist Maríu J. Val- garðsdóttur, f. 28.4. 1952. Þau skildu 1985. Eignuðust þau fjög- ur börn saman: Finnu Guðrúnu, f. 29.1. 1969, Ólaf Gunnar, f. 16.12. 1970, d. 27.2. 1986, Val- garð Inga, f. 27.7. 1974 og Rögnu Maríu, f. 24.5. 1978. Eig- inmaður Finnu Guðrúnar er Ragnar ólst upp í Hátúni í Skagafirði og bjó þar alla sína tíð. Hann gekk í barnaskóla í Varmahlíð. Síðar stundaði hann nám við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur 1968 eftir tveggja ára nám. Ragnar hóf búskap ásamt föður sínum í Hátúni ungur að árum og bjó með kýr og kindur til ársins 2007, þegar nýir bændur, bróðursonur hans Gunnlaugur Hrafn og kona hans Helga Sjöfn, tóku við búi hans og ævistarfi. Ragnar sinnti ýmsum félags- störfum af alúð og áhuga. Hann var einn af stofnendum Lions- klúbbs Skagafjarðar og starfaði með honum alla tíð. Hann sat um árabil í stjórn Bún- aðarfélags Seyluhrepps, sat í stjórn félags kúabænda í Skaga- firði og var formaður sókn- arnefndar Glaumbæjarkirkju í fjölda ára. Hann var einnig mik- ill áhugamaður um gamla bíla og var félagi í Fornbílaklúbbi Íslands. Útför Ragnars fer fram frá Glaumbæjarkirkju í dag, 10. janúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 14. Garðar Smárason og eiga þau synina: Ólaf Ragnar, Einar Smára og Gunnar Inga. Ólafur á son- inn Garðar Leó og Einar synina Stein- þór Óla og Bergþór Skorra. Eiginkona Valgarðs Inga er Jórunn Sigurðar- dóttir og eiga þau börnin Maríu og Frosta. Eiginmaður Rögnu Mar- íu er Guðmundur Hreinsson og eiga þau synina Ragnar Svein og Arnar Loga. Fyrir átti Ragna Guðnýju Ósk með Jónasi Tryggvasyni. Árið 1993 giftist Ragnar Önnu Margréti Stefánsdóttur. Þau skildu. Ragnar hóf sambúð með Björgu Baldursdóttur frá Vigur árið 2014. Björg á þrjá syni, Baldur, Jónas og Hauk og 7 barnabörn. Vormorgunn. Vorsólin hellir geislum sínum yfir Glaumbæjar- eyjarnar. Náttúran er að vakna til lífsins. Húseyjarkvíslin liðast eins og silfurborði gegnum lág- lendið. Út um stofugluggann í Hátúni má sjá mann og hund á rösklegri göngu eftir veginum á Eyjunum. Dagleg sjón nær alla daga ársins, jafnt vetur, sumar, vor og haust, hvernig sem viðr- aði. Göngumaðurinn er samofinn náttúrunni í öllum sínum marg- breytilegu myndum og elskar hana af öllu hjarta. Stundum slæst hinn Hátúnsbróðirinn í för. Þeir njóta þess bræðurnir að ganga saman, verður tíðlitið upp á Langholtið þar sem æskuheim- ilið blasir við. Að lokinni göngu kaffisopi, lopakex og notalegt spjall við eld- húsborðið í Hátúni. Stundum mæta sveitungar og vinir til um- ræðna um landsins gagn og nauð- synjar. Þetta voru dásamlegar stundir. Ekki er setið auðum höndum eftir morgunkaffið. Ef engin sérstök verkefni eru á dag- skrá má þá að minnsta kosti finna eitthvað að gera í Athvarfinu. Þurrka rykið af bílunum, bóna einhvern þeirra, dytta að lakki eða annað smálegt. Svo þarf kannski að skreppa á bæi og veita aðstoð við eitt og annað. Þessi mynd er ein af ótalmörg- um sem birtast mér nú þegar elsku Raggi minn er horfinn mér yfir á grænar grundir annars heims. Þessi alltof fáu ár sem við áttum saman voru ómetanleg og báru í sér samfellda hamingju, ást, gleði og allt það sem þarf til að gera lífið fullkomið. Allar ferð- irnar okkar, einkum innanlands, sem voru ófáar, eru dýrmætar perlur í minningasjóðnum. Hann elskaði landið sitt með öllum þess fjölbreytileka og gerði sér far um að fara með mig á staði sem við höfðum ekki séð áður. Ekki var hægt að hugsa sér dásamlegri ferðafélaga bæði í ferðalögum og á lífsins leið. Þótt vágesturinn mikli, krabbameinið, herjaði af mis- kunnarleysi á elsku Ragga minn síðustu mánuðina breyttist hans innri maður ekki. Ástin, um- hyggjan, virðingin, tillitssemin, vináttan, ótrúlegt æðruleysi og óendanleg ást hans á fallegu fjöl- skyldunni hans var alltaf í fyr- irrúmi, hversu þjáður sem hann var. Ég er svo ólýsanlega þakklát fyrir að hafa kynnst og fengið að elska þennan dásamlega mann og fengið að eiga fjölskylduna hans með honum, yndislegu börnin hans, afa- og langafabörnin. Sorgin nístir hjarta og sál vegna þess hversu heitt hann var elskaður. „Mikil er sú gæfa að geta öllum stundum af æðruleysi lagt aðstæðurnar í Guðs almáttugu hendur og þannig falið sig og sína af einlægni honum á vald. Ævigangan verður svo ólýsanlega léttbærari maður fyllist óskiljanlegum friði, þakklæti og auðmýkt. Traustið og friðurinn, sem æðruleysinu fylgir, er Guðs gjöf.“ (Sigurbjörn Þorkelsson) Góður Guð geymi þig, elsku hjartans Raggi minn. Minningin um þig og samvistir okkar mun lifa með mér að eilífu. Björg Baldursdóttir. Elsku pabbi minn. Það sem ég er þakklát fyrir að hafa átt þig fyrir pabba. Ég er svo þakklát fyrir þá hluti sem þú kenndir mér og ég geymi með mér. Þú varst einstakur maður, ótrúlega hjálp- samur hvort sem það voru við fjölskyldan, nágrannarnir eða aðrir, þú varst alltaf tilbúinn að aðstoða. Þú elskaðir lífið og allt sem það hafði upp á að bjóða. Þrátt fyrir að vera orðinn mjög veikur núna í desember sagðir þú við okkur að þú nytir hvers dags og það sagði svo mikið um þig. Þú kenndir mér að elska landið okk- ar Ísland, náttúruna, fólkið og allt sem það hefur upp á að bjóða. Þér fannst fátt skemmtilegra en að ferðast um landið og höfum við farið saman í margar ferðir, bæði stuttar og langar. Ekki skemmdi það ferðina ef eitthvað kom upp á með bílana, eitthvað bilaði eða veður versnaði. Þú varst yndis- legur afi og börnunum mínum fannst fátt skemmtilegra en að hafa þig í kringum sig. Þau munu geyma minningu þína með sér og taka til sín það sem þú kenndir þeim eins og að tína rusl og ganga vel um landið. Guðný mun svo feta í þín fótspor og gerast bóndi eins og Raggi afi. Þú eydd- ir síðustu vikunni þinni, jólavik- unni, á líknardeild Landspítalans í Kópavogi og þar leið þér ein- staklega vel. Þér fannst starfs- fólkið einstakt og andrúmsloftið svo gott. Langar mig að færa starfsfólkinu þar okkar innileg- ustu þakkir fyrir einstaka umönnun og hlýhug til okkar allra. Ég geymi síðustu setninguna þína til mín með mér. Ég elska þig, elsku pabbi minn. Þín Ragna María. Elsku pabbi. Takk fyrir að gefa mér líf, takk fyrir að gefa mér þrautseigju, takk fyrir að gefa mér tilfinningu fyrir náttúrunni, takk fyrir að sýna mér hvað vinskapur skiptir miklu máli, takk fyrir að sýna mér að fjölskyldan skiptir öllu máli, takk fyrir að gefa mér systkinin mín, takk fyrir að kenna mér að umgangast dýr, takk fyrir að kenna mér að fara vel með alla hluti, takk fyrir að sýna mér hvað lífið er dýrmætt, takk fyrir að leyfa mér að hugsa um þig í veikindum þínum, takk fyrir að gefa mér sorgina og takk fyrir allar minningarnar, góðar og erfiðar, sem við áttum saman. Takk fyrir að vera pabbi minn, ég elska þig eins og þú ert. Þín Finna. Elsku afi minn. Það sem ég get rifjað upp margar dásamlegar minningar um þig, mínar sterkustu minn- ingar koma frá sveitinni, þegar ég var um sex og sjö ára. Það skemmtilegasta sem ég gerði var að sitja með þér í traktornum. Ég man eftir því þegar þú þurftir að fara með New Hollandinn þinn í viðgerð á Hofsós, ég fór með þér og minnir að ég hafi sofið meiri- hlutann af ferðinni. Öll sumrin þegar við vorum að bagga, heyja og rúlla voru dásamleg. Síðan má ekki gleyma því þegar við fórum saman til fátæka mannsins og sóttum baggavélina, ég skildi ekkert í því hvað hann átti gamla traktora og hélt að hann væri sárafátækur. Ég elskaði að vera hjá þér í sveitinni og hlakkaði alltaf til að fara til þín. Einnig fannst mér svo gaman þegar þú fórst með okkur í ferðalög eins og þegar við fórum á Patreksfjörð árið 2012. Í þeirri ferð er einn dagur sem stendur upp úr en það er þegar við fórum öll í dásamlegu veðri upp að Dynjanda. Þar voru teknar margar góðar myndir af okkur bræðrunum með þér og Hlunk. Mér þykir alveg ofboðslega vænt um þig afi og þú átt eftir að lifa innra með mér allt mitt líf. Ég hlakka til að segja mínum börn- um frá því hversu frábæran afa ég átti. Þinn Gunnar Ingi (Gunni). Nú hefur hann elsku tengda- faðir minn kvatt þetta jarðneska líf, hann gerði það næstsíðasta dag liðins árs, þar sem við öll hans nánasta fjölskylda fengum að vera við dánarbeð hans þegar hann kvaddi. Það var erfið en samt góð stund með fjölskyld- unni. Ég er þakklátur fyrir að hafa kvatt hann með þessum hætti. Hann var búinn að berjast við þetta illvíga krabbamein í bráð- um tvö ár. Elsku Raggi minn, það kannski lýsir þér best að aldrei kvartaðir þú í yfirstandandi veik- indum. Þú varst ekki vanur að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut, tókst öllum verkefnum af æðruleysi. Það er synd að þú skyldir ekki fá lengri tíma, því þú varst svo lifandi, hafðir áhuga á svo mörgu. Það var alveg sama hvort það var mannfólk, skepnur eða vélar. Þú áttir svo auðvelt með að kynnast fólki, gafst þig á tal við alla, enda fann maður allt- af hvað fólki sem í kringum mig var þótti gaman að hitta þig og spjalla. Svo voru það skepnurnar, þú hafðir alveg einstakt lag á því að láta skepnum líða vel í kring- um þig. Alltaf svo rólegur í kring- um þær. Svo ég tali nú ekki um vélar. Þú varst alltaf að passa upp á smurningu. Það var ósjaldan sem þú spurðir: „Garðar, geturðu aðstoðað mig við að smyrja?“ Hann tengdafaðir minn hafði ein- stakt lag á því að halda gömlum vélum í lagi. Ég má til með að segja frá því þegar ég fyrst hitti Ragga í Há- túni. Ég var þá að koma með Finnu fyrst í Hátún. Húsbóndinn var eðlilega í fjósi, ég beið spenntur, smá stressaður að hitta tilvonandi tengdaföður minn í fyrsta sinn. Svo kom að því. Hann kom inn í bláa gallanum sínum, með húfu á höfðinu, hávaxinn, tók í höndina á mér, mín hönd hvarf inn í hönd- ina á honum, þetta voru vinnu- hendur og því mjög stórar. Ég var hálffeginn að fá höndina mína til baka, hann sagðist heita Ragn- ar og bara vera „bóndaræfill“, sem auðvitað var hluti af hans húmor. Ég vissi ekkert á þeim tíma hvernig ég ætti að taka þessu. En þetta atvik lýsir Ragga bara svo vel; kom til dyranna eins og hann var klæddur, var ekki mikið að flækja hlutina. Ég hélt alltaf að ég fengi lengri tíma með þér. Einir bestu tímar sem ég hef átt voru þegar ég var með þér í búskapnum. Það var al- veg sérstaklega gaman að heyja með þér, þar varstu alveg í essinu þínu. Ég má til með að minnast á það, að einu sinni, þegar flestir bændur voru á landsmóti hesta- manna, þá fylltum við þurrheysp- artinn, ég, þú og Ragna. Þú varst svo ánægður með afraksturinn. Já, þú varst bóndi af lífi og sál. Eins var svo gaman að ferðast með þér eftir að þú hættir bú- skap. Við fjölskyldan fórum með þér svo margar skemmtilegar ferðir og strákarnir mínir hafa oft á því orð hversu ánægjulegar þessar ferðir voru. Ég get ekki lokið þessu án þess að minnast á það hversu tengdaföður mínum þótti vænt um landið sitt. Hann átti stóran þátt í að græða upp landið með félögum sínum í Lions. Síðasta ferðin sem hann fór var farin síðastliðið vor. Elsku Raggi minn, þú skilur eftir þig stórt skarð í mínum huga. Ég þakka þér fyrir öll góðu árin sem við áttum saman. Kveðja, Garðar. Ragnar Gunnlaugsson – Raggi í Hátúni, hefur kvatt. Ragnar var borinn og barn- fæddur á þeim fagra stað Hátúni á Langholti í Seyluhreppi hinum forna, gegnt Glaumbæ í Skaga- firði, bjó þar allt sitt líf – unni þeim stað umfram alla aðra í heimi hér og undi þar glaður við sitt til æviloka. Það var í fimmtugsafmæli mágs míns, Jóhanns Þorsteins- sonar í Miðsitju, sem leiðir okkar lágu saman – og er skemmst frá því að segja að ég var flutt í Há- tún þremur mánuðum síðar, und- ir haust 1986. Eldri dóttirin var að fara að heiman en yngri börnin tvö voru heima í Hátúni – handan við hlaðið bjuggu svo foreldrar Ragnars. Þau tóku mér öll ynd- islega vel og daglegt amstur sveitalífsins tók við. Ég naut bú- starfanna – náttúrunnar, dýr- anna og ekki síst samstarfsins við minn besta vinnufélaga fyrr og síðar: Ragga. En mikill skuggi hvíldi yfir fjölskyldunni: Sonur Ragnars og Maríu, fyrri konu hans, hafði látist af slysförum nokkrum mánuðum áður en við kynntumst. Missirinn var óum- ræðilegur og þjakaði Ragnar meira en orð fá lýst. Þrettán árum síðar yfirgaf ég Hátún og við skildum. Við höfð- um þá verið gift í 7 ár. Á þessum árum var Ragnar svolítið eins og stóri bróðirinn á Glaumbæjartorfunni hvað bú- skaparamstur varðaði: ráðagóð- ur, greiðvikinn, hlýr og kíminn og alltaf til í að lána vélar eða verk- færi eða fara og hjálpa til ef hann mögulega gat. Hann tók glaður að sér ýmis trúnaðarstöf í nær- samfélaginu en þó hann hafi sinnt þeim öllum af alúð, þótti honum vænst um starf sitt fyrir kirkjuna sína, Glaumbæjarkirkju, sem hann unni og hafði yndi af þeim stundum sem fóru í störf fyrir hana. Kirkjan var t.d. alveg end- urgerð að innan á hans tíð sem formanns og vorum við hjónin með iðnaðarmenn og aðra sem að verkinu komu, í mat, sumarið sem endurbæturnar stóðu yfir. Aldrei taldi Raggi heldur eftir sér að vera byggðasafninu innan handar ef hann mögulega gat og á ég góðar minningar af torfristu í góðra manna hópi á björtum sumardegi á Eylendinu handan við Kvíslina en þar er einhver besta torftekja á landinu. Síðustu árin átti Raggi með þeirri sómakonu Björgu Baldurs- dóttur frá Vigur í Ísafjarðardjúpi og hefðu þau ár mátt vera svo miklu fleiri. Björgu og börnun- um, Finnu Guðrúnu, Rögnu Mar- íu og Valgarði, sem og þeirra fjöl- skyldum, sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Ég veit að trúin er þeim styrkur í sorginni og er það vel. Að lokum: Við Raggi vorum samhent í búskapnum, töldum það ekki eft- ir okkur að vinna flestar vökustu- ndir og fannst það gaman – það var inntak okkar daga og svona vil ég minnast okkar tíma saman: Að vera bóndi ó, guð minn góður! í grænu fanginu á sinni móður og finna ljós hennar leika um sig og lyfta sálinni á hærra stig! Og bónda hitnar í hjartans inni við helgan ilminn frá töðu sinni, og stráin skína í skeggi hans sem skáldleg gleði hins fyrsta manns. — Og sumardagarnir faðma fjöllin og fljúga niður á þerrivöllinn, og stíga syngjandi sólskinsdans við sveittan bóndann og konu hans. (Jóhannes úr Kötlum) Anna Margrét Stefánsdóttir. Ragnar Gunnlaugsson  Fleiri minningargreinar um Ragnar Gunnlaugs- son bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. ✝ Sólveig GyðaGuðmunds- dóttir fæddist 17. júlí 1946 í Reykja- vík. Hún lést á líknardeild Land- spítalans í Kópa- vogi 30. desember 2019. Foreldrar hennar voru Sig- rún Klara Har- aldsdóttir, f. 3. júlí 1927, og Karl Ingimarsson, f. 20. september 1925. Sólveig giftist Gunnari Ólafssyni 16. des- ember 1978. Sam- an áttu þau tvö börn; Ingu Maríu, f. 5. desember 1979, og Gunnar Óla, f. 11. maí 1984. Sólveig átti úr fyrra sambandi Guðmund Frey, f. 27. janúar 1974, og gekk Gunnar honum í föðurstað. Sólveig verður jarðsungin frá Árbæjarkirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 13. Elskuleg systir og mágkona, Sólveig Gyða, er látin 73 ára að aldri. Sólveig kom inn í fjöl- skyldu okkar þriggja ára gömul, ættleidd af foreldrum Ásgeirs, Ragnhildi Ólafsdóttur og Guð- mundi Jónssyni, skólastjóra á Hvanneyri. Sólveig var mikið óskabarn en fyrir áttu hjónin þrjá uppkomna syni á aldrinum 16-22 ára sem allir voru komnir í framhaldsnám í Reykjavík. Sam- skipti við litlu systurina voru því ekki mikil á uppvaxtarárum hennar, aðallega gafst tími til samveru á sumrin og í fríum. Þetta breyttist eftir að foreld- ar Ásgeirs fluttu til Reykjavíkur árið 1972 og Sólveig eignaðist sitt fyrsta barn, Guðmund Frey Magnús, árið 1974. Þegar börn koma til sögunnar minnkar ald- ursbil systkina og foreldra, nánd- in og samskiptin eflast. Fjórum árum síðar giftist Sólveig yndis- legum manni, Gunnari Ólafssyni. Ungu hjónin komu sér upp fal- legu heimili í Keilufelli í Breið- holti. Þau eignuðust þrjú börn fyrir utan Guðmund Frey, Ingu Maríu 1979, Sigrúnu Klöru 1982, en hún lést nokkurra daga göm- ul, og Gunnar Óla 1984. Öll hlutu þau gott uppeldi og menntun og eiga í dag frábærar fjölskyldur. Við dáðumst oft að Sólveigu fyrir dugnað hennar því oft var hún ein með börnin vegna fjarveru Gunnars sem starfaði sem vél- stjóri fyrir Eimskip í siglingum milli landa. Auk þess menntaði hún sig og starfaði við blóma- skreytingar á þessum árum. Gunnar veiktist skyndilega í sigl- ingu til lands. Við skoðun reynd- ist hann vera með bráðahvít- blæði. Hann lést eftir harða baráttu árið 2012. Í veikindum Gunnars sýndi Sólveig mikið þrek og æðruleysi, studdi hann m.a. í langan tíma í Svíþjóð þar sem hann fór í mergskipti. Við hjónin höfðum töluverð sam- skipti við Sólveigu og Gunnar eft- ir að þau keyptu sumarbústað við Laugarvatn rétt hjá okkar bú- stað. Þar áttu Sigurður bróðir og Laufey einnig bústað. Áttum við margar góðar og eftirminnilegar samverustundir í bústöðum okk- ar við veislumat og spjall. Um ári eftir lát Gunnars flutti Sólveig í íbúð eldri borgara í Árbæ þar sem hún kom sér upp fallegu heimili. Þar áttum við saman yndislega stund stuttu fyrir andlátið. Um nokkurn tíma hafði Sólveig fundið fyrir tals- verðum lasleika en Þrátt fyrir læknaheimsóknir greindist hún ekki með krabbamein fyrr en síð- astliðið haust. Var hún þá langt gengin með þennan erfiða sjúkdóm og gerði sér grein fyrir hvert stefndi. Í veikindum sínum sýndi Sólveig sem fyrr kraft sinn og æðruleysi og naut stuðnings fjölskyldu sinnar þar til yfir lauk. Hennar verður sárt saknað af fjölskyldu og vinum. Við og fjölskyldur okk- ar vottum börnum Sólveigar innilega samúð. Ásgeir og Sigríður. Sólveig Gyða Guðmundsdóttir

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.