Morgunblaðið - 17.10.2020, Blaðsíða 45

Morgunblaðið - 17.10.2020, Blaðsíða 45
MENNING 45 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. OKTÓBER 2020 VIÐTAL Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Mér finnst æðislegt að vera umvafin heitum gufum og gróðurhúsum og allir taka svo vel á móti mér hérna,“ segir Elísabet Jökulsdóttir rithöf- undur sem flutti fyrir þremur vikum í Hveragerði en hún sendi nýlega frá sér bókina Aprílsólarkuldi, frásögn um ást og geðveiki og huggun. Í þeirri sögu segir frá ungri móður, Védísi, föðurmissi hennar, ástinni og ferlinu inn í geðsjúkdóm. Sagan er að hluta til byggð á eigin reynslu Elísabetar. „Þetta er vissulega saga mín, en ég beiti aðferðum skáldskaparins á hana og þessi saga hefði orðið allt öðruvísi ef ég hefði skrifað hana í fyrstu per- sónu um mig. Ég bjó til persónuna Védísi og hún er ljóslifandi fyrir mér, hún er persóna sem er ekki ég. Ég finn til með Védísi sem hafði stórar hugmyndir um tilgang lífsins og ást- ina, en hún verður fyrir áföllum og fær geðsjúkdóm. Ég er ekki viss um að ég hefði fundið svona til með sjálfri mér ef ég hefði skrifað söguna um mig.“ Hrikalegt að veikast á geði Elísabet segist hafa verið í tíu ár að skrifa þessa sögu. „Af því það var svo hrikalegt að veikast á geði. Það var sárt fyrir mig sem manneskju og ég mætti miklum fordómum í sam- félaginu á þeim tíma sem sagan ger- ist, á áttunda áratugnum. Ég var allt- af að reyna að skrifa þessa sögu, pældi endlaust í því hvernig hún ætti að vera og ég var í raun komin með nokkur handrit að henni, en ég náði aldrei sambandi við söguna. Fyrr en einn daginn þegar ég settist í sófann og sagði við sjálfa mig: Elísabet, segðu söguna bara eins og hún var. Aprílsólarkuldi er mín saga eins og hún var, þó ég geri eins og krakk- arnir, breyti nöfnum og leiki mér. Ég skrifaði hana á þremur vikum, sagan ruddist fram eins og eldgos og hraunstraumur. Ég sat við og skrif- aði og gat ekki hugsað um neitt ann- að. Ég var bogin í baki við að koma henni frá mér, en það er ekkert víst að hún hefði komið svona hratt nema af því ég hafði verið að reyna að skrifa hana í áratug, það var nauð- synlegur undanfari.“ Þetta er líka skemmtileg saga – Ertu laus undan aprílsólarkuld- anum í sálinni, sem þú fannst þegar þú stóðst yfir gröf pabba þíns? „Þegar manni eru gefin ýmis áföll yfir æfina, þá held ég að tilfinningin frá þeim komi upp öðru hverju. Stundum alveg óvænt, ég er kannski í berjamó og yfir mig hellist sakn- aðartilfinning. Líf mitt var heltekið af sorginni eftir föðurmissinn, ég var að rústa lífi mínu. Árið 2004 fór ég til Jemen, þar sá ég sólina rísa upp og áttaði mig á að ég var búin að drösl- ast með sorgina alla leið þangað. Tví- burarnir mínir sögðu við mig þegar þeir voru 12 ára: Mamma, prófaðu að skrifa góðu minningarnar, þá get- urðu grátið. Ég gerði það og gaf út bók árið 2006 um góðu minningarnar, en ég gat ekki grátið, gat ekki losað sorgina. Kannski er þessi bók, Apríl- sólarkuldi, ákveðinn grátur,“ segir Elísabet og tekur fram að sagan hennar sé líka rosa skemmtileg. „Hún er ekkert þung, heldur létt- skrifuð og þarna eru margar skemmtilegar persónur sem koma við sögu.“ Fannst Guð hafa valið mig Elísabet segir að hið langa sorgar- ferli hafi í raun verið mjög gjöfult, því hún hafi skrifað svo margt um það. „Ég hef syrgt í gegnum skrifin, ég hef til dæmis verið að skrifa leikrit í 25 ár og eitt þeirra fjallar um stelpu sem missir pabba sinn og er send í ferðalag til að leita að tárinu, en tárið er persóna í verkinu. Mig dreymir að sjá þetta litla tár á stóru sviði, því mannkynið þarf á þessu tári að halda núna.“ Hún segir að sjálfsmynd hennar hafi verið alveg rústuð eftir að hafa alist upp við alkóhólisma og að hún hafi farið inn í skaðlegt ástar- samband. „Ég fékk áfall ofan í áfall, fyrst dó pabbi minn og svo fór mað- urinn sem ég elskaði frá mér. Þegar maður elst upp við alkóhólisma þá er enginn farvegur fyrir sorgina, maður fer bara í kremju og fer að drekka og verður yfir sig ástfanginn, af því maður þarf á öðrum að halda. Ég veiktist alvarlega á geði þegar geð- sjúkdómurinn Bipolar 1 leysist úr læðingi hjá mér, þá fylltist ég krafti og mér fannst að Guð hefði valið mig. Hugsanir mínar snerust hratt eins og sagarblað, ég var sannfærð um að ég væri með ofurkraft og ætti að frelsa mannkynið.“ Ég veit ekki hvar ég væri Elísabet segir að í lok bókar hafi hún komist að því að þessi sorg sner- ist ekki öll um pabba hennar, heldur um mömmuna. „Mamma var svo upptekin af pabba mínum, þó ég viti vel að hún reyndi sitt besta til að hugsa um okk- ur börnin sín. Öll þessi pabbasorg hjá mér var til að blokkera sorgina út af því að tengslin við mömmu höfðu rofnað. Í bókinni er göldróttur endir, en þar segir frá því þegar Védís kem- ur til mömmu sinnar mjög veik á geði og mamman kallar til lögregluna. Þegar Védís er tekin burt með valdi af heimili móður sinnar, þessarar móður sem hún kannski þráði allan tímann, þá hrópar hún: Mamma! Þá kemur í ljós að mamman er heim- urinn, það er móðirin sem býr til merkingu heimsins, alla vegana í þessu tilviki. Það tók mig mörg ár að fyrirgefa að mamma skyldi hafa svift mig sjálfræði. Ég gerði mér grein fyrir því miklu seinna að hún hafði með því bjargað lífi mínu,“ segir El- ísabet og bætir við að hún sé mjög stolt af sjálfri sér að hafa gefið út þessa bók, því hún hafi þjáðst mikið af kvíða á þessu ári. „Ég veit ekki hvar ég væri ef Aprílsólarkuldi hefði ekki komið út.“ Morgunblaðið/Eggert Persónuleg „Þetta er vissulega saga mín, en ég beiti aðferðum skáldskaparins á hana og þessi saga hefði orðið allt öðruvísi ef ég hefði skrifað hana í fyrstu persónu um mig,“ segir Elísabet um nýútkomna bók sína. Sagan ruddist fram eins og eldgos og hraunstraumur  Elísabet Jökulsdóttir sendir frá sér bókina Aprílsólarkuldi, frásögn um ást og geðveiki og huggun Sýning Dýrfinnu Benitu Basalan, Náttúrlega brothætt / Natural Fragility, verður opnuð í galleríinu Þulu í dag, laugardag, kl. 13 til 18 og mun sýningin standa yfir til 8. nóvember. „Þegar ég teikna eða mála verk skiptir mig máli að draga fram sterka kvenlega orku og skapa litríka skynörvandi sögu. Ég dreg myndheim minn ýmist úr myndasögum, tarotspilum og per- sónulegri reynslu minni úr hvers- dagsleikanum jafnt og drauma- heimi. Hliðarheimur verka minna er opið rými sem hver og einn má forvitnast um á eigin forsendum og finna eigið sjálf í litunum og lín- unum. Heimurinn er mótaður af hugarlífi listakonunnar en einnig áhrifum samfélags og poppkúltúr. Náttúran nýtur sín og tjáir sig, fantasía og hryllingur er eðlilegur og það er ákveðin huggun í drama- tíkinni,“ skrifar Dýrfinna í tilkynn- ingu. Vegna Covid-19 verður fjórum gestum hleypt inn í einu við opnun sýningarinnar og mælt með því að fólk beri grímu. Á sýningu Hluti af verki eftir Dýrfinnu. Náttúrlega brot- hætt opnuð í Þulu Noregur, Svíþjóð og Danmörk hafa árum saman, eða frá 1962, samein- ast um sýningar á Feneyjatvíær- ingnum í myndlist í sýningarskála sem þjóðirnar eiga saman og nefn- ist upp á ensku Nordic Pavilion. Finnar og Íslendingar hafa hins vegar sýnt í sérskálum. Nú hefur sýningarnefnd þjóðanna þriggja ákveðið að breyta nafni skálans fyr- ir næsta tvíæring sem verður settur upp 2022, eftir að þeim sem átti að vera í ár var aflýst vegna Covid-19. Kastljósinu verður beint að mynd- list Sama, sem búsettir eru nyrst í Noregi og Svíþjóð, og skálinn nefndur Sámi Pavilion. Höfundar verkanna sem sýnd verða eru þrír Samar, Pauliina Feodoroff, Máret Ánna Sara og Anders Sunna. Norræni skálinn Skáli Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, hannaður af Sverre Fehn. Norræni skálinn kenndur við Sama 39

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.