Morgunblaðið - 17.10.2020, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 17.10.2020, Blaðsíða 18
ÚR BÆJARLÍFINU Jón Sigurðsson Blönduósi Í gær kviknaði vetrartungl í vestri. Þetta er skýr vísbending um að haustið er á síðustu metrunum og veturinn er rétt handan við hornið. Þegar litið er yfir farinn veg kemur ýmislegt í ljós og þegar menn spá í framtíðina þá er ekkert svar betra en „það kemur í ljós“. „Það kemur í ljós,“ er að mínu mati setning ársins og á alveg eins við hér við botn Húna- fjarðar sem og annars staðar. Það kom til dæmis í ljós að veið- in í Blöndu var með allra daprasta móti í sumar. Hér á árum áður veidd- ust að að meðaltali 1.100 laxar og mest rétt um 2.000 laxar á fjórar stangir. En í sumar voru taldir 475 laxar upp úr ánni á 14 stangir. Eitt- hvað hefur gerst en hvað, það kemur ef til vill í ljós.    Kirkjugarðinum á Blönduósi hefur verið sýndur margvíslegur sómi hin síðustu ár. Nú í haust eru menn að leggja síðustu hönd á bygg- ingu geymsluskúrs í garðinum. Áður höfðu stígar og útveggir garðsins verið endurbættir og sett upp upp- lýsingaskilti. Gaman er að geta þess að þessi uppbygging hefur verið unn- in töluvert í sjálfboðavinnu og til að mynda var afrakstur á einu af hinum margrómuðu kótilettukvöldum á Blönduósi notaður til að kaupa allt efni í geymsluskúrinn. Og svo því sé til haga haldið þá er forsvarsmaður kótelettukvöldanna Valdimar Guð- mannsson, sami maðurinn og stýrir kirkjugarðsráðinu.    Gamla brúin á Blöndu sem var vígð árið 1897 og flutt árið 1962 fram í Svartárdal til þessa að tengja Stein- árbæi við þjóðvegakerfið kom árið 2001 aftur á Blönduós. Þessi elsta brú landsins var hætt að gegna hlut- verki sínu fyrir Steinárbændur því samgöngutæki nútímans eru orðin breiðari en þessi trausta og forn- fræga brú. Nú hefur verið ákveðið að setja brúna í það verkefni að tengja náttúruparadísina Hrútey við fasta- landið. Framkvæmdir eru hafnar af fullum þunga og stefnt að því að gamla Blöndubrúin verði komin á sinn stað áður en mjög langt um líð- ur.    Ekki er langt síðan byggingu fimm leiguíbúða var lokið á Sunnu- brautinni. Núna er hafin bygging á fimm til viðbótar. Þetta segir aðeins eitt að samfélagið hér stendur föstum fótum og sækir fram ef eitthvað er. Fyrst hér eru nefndar framkvæmdir þá er rétt að segja frá því að að bygg- ing verknámshúss við grunnskólann er langt kominn og langþráður frá- gangur skólalóðar í augsýn. Breyt- ingar á gömlu byggingavöruverslun kaupfélagsins eru á lokametrunum og munu Hárgreiðslustofa Bryndísar og Vínbúðin væntanlega flytja í hið breytta húsnæði í mánaðarlok. Húnakaffi, sem reyndar er bakarí, hefur komið sér fyrir á þessu svæði og hafið starfsemi. Með þessum breytingum tengist þessi starfsemi við Kjörbúðina svo hér má segja að fyrsta „Mollið“ sé risið á Blönduósi.    Eins og einhverjir vita þá gistir Blönduósbæ töluverður fjöldi grá- gæsa frá apríl fram í september. Koma upp ungum og sjá um áburð á ákjósanlega staði sem og óákjós- anlega. Um nokkurra ára skeið hefur verið fylgst grannt með þessum gæs- um, GPS sendi komið fyrir á 1-3 gæs- um árlega svo hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra. Í sumar voru sendar settir á tvær gæsir og hafa þær skráð ferðir sínar samvisku- samlega í sumar og haust. Upp úr mánaðarmótum ágúst september hurfu þessar gæsir úr bænum og voru fljótlega komnar í kornakra í Skagafirði. Önnur gæsin tolldi ekki lengi innan um skotglaða Skagfirð- inga og kom sér yfir í Eyjafjörðinn og dvelur nú rétt við flugvöllinn á Ak- ureyri. Af framsögðu má sjá að ásætt- anlegur gangur er á lífinu við botn Húnafjarðar, atvinnuleysið mælist í kring um 3% og veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga. Í stuttu máli þá bera sig flestir vel. Morgunblaðið/Jón Sigurðsson Blönduós Haustið nagar hægt og bítandi laufin á trjánum og snjórinn búinn að koma sér fyrir efst í Langadalsfjalli. Veturinn handan við hornið 18 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. OKTÓBER 2020 Suðurlandsbraut 26 Sími: 587 2700 Opið 11-18 virka daga, 11-16 laugardaga www.innlifun.is 80% voru í sóttkví Ranglega var sagt í fyrirsögn í blaðinu í gær að 80% þeirra sem greindust smitaðir af COVID-19 sl. miðvikudag hefðu verið utan sóttkvíar. Eins og stóð í fréttinni sjálfri voru 80% smitaðra í sóttkví. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum. LEIÐRÉTT Allt um sjávarútveg Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Seldar hafa verið 17 af 18 íbúðum í fjölbýlishúsi fyrir fólk 55 og eldra sem verið er að byggja á Húsavík. Komið er kauptilboð í þá átjándu. Fyrstu tíu íbúðirnar voru afhentar með viðhöfn í fyrradag. Naustalækur ehf., dótturfélag Steinsteypis ehf., byggir húsið. „Jón Helgi Gestsson hélt fund með eldri íbúum fyrir fjórum árum um byggingu íbúða fyrir aldraða. Menn voru áhugasamir en enginn tilbúinn að stíga skrefið. Ég kom inn í þetta á árinu 2017 og við sem eigum Steinsteypi ákváðum að taka þá áhættu að byggja átján íbúða fjölbýlishús fyrir 55 ára og eldri,“ segir Friðrik Sigurðsson, stjórnar- formaður Steinsteypis. Það voru einmitt Jón Helgi og kona hans, Halldóra M. Harðardóttir, sem fengu fyrstu íbúðina afhenta í fyrradag. Trésmiðjan Rein er aðalverktaki við byggingu hússins. Tíu íbúðir hafa verið afhentar og þær sem eft- ir eru verða afhentar í desember. Friðrik telur að allir sem gengið hafa frá kaupum á íbúðum í fjöl- býlishúsinu séu búnir að selja húsin sín. Flestir hafi verið í stórum ein- býlishúsum og þess vegna hafi fast- eignamarkaðurinn á Húsavík verið líflegur á síðustu mánuðum. Unga fólkið hafi komist í stærri eignir. Ekki arðvænlegt Steinsteypir fór í þetta verkefni til að afla verkefna þegar stórfram- kvæmdum á Bakka og Þeistareykj- um var að ljúka. Friðrik segir að áhugavert væri að byggja fleiri íbúðir en tekur fram að enginn verði ríkur á því að byggja hús á þessu svæði í hagnaðarskyni. Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson Fyrst Halldóra M. Harðardóttir og Jón Helgi Gestsson tóku við lyklavöld- unum úr hendi Hermanns Aðalgeirssonar, faseignasala hjá Lögeign. Átján íbúðir fyrir 55+ á Húsavík  Allar íbúðirnar nema ein eru seldar Eign Fjölbýlishúsið er í Útgarði 6 og er það sambyggt eldra fjölbýlishúsi. Í húsinu eru átján íbúðir og bílageymsla fyrir sextán þeirra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.