Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/19 „LANDSRÉTTAR MÁLIГ Hinn 12. mars s.l. komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að skipun dómara við Landsrétt á árinu 2017 hafi ekki verið í samræmi við 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Mikið hefur verið rætt og ritað um þennan dóm og sitt sýnist hverjum. Stjórn Lögmannafélagsins sendi frá sér eftirfarandi ályktun eftir uppkvaðningu dómsins: „Stjórn Lögmannafélags Ísland beinir því til stjórnvalda að leysa úr þeirri réttaróvissu sem leitt hefur af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26374/18. Jafnframt að ákvörðun um málskot til yfirdeildar mannréttindadómstólsins verði ekki tekin nema að undangengnu ítarlegu faglegu mati. Komi til málskots telur stjórn Lögmannafélagsins mikilvægt að samhliða verði gripið til annarra ráðstafana sem miði að því að tryggja skilvirkni Landsréttar sem framast er kostur“. Ákvörðun stjórnvalda um málskot til yfirdeildar mann­ réttindadómstólsins var tekin í apríl sl. og samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var málskotsbeiðni íslenska ríkisins nýverið send dómstólnum. Fari svo að málið verði tekið fyrir af yfirdeildinni, en sú ákvörðun ætti að liggja fyrir innan nokkurra mánaða, getur biðin eftir endanlegri niðurstöðu dómstólsins tekið allt upp í tvö ár. Í ljósi framangreinds verður að teljast heldur bagalegt að engar áætlanir séu til staðar um að tryggja skilvirkni réttarins á meðan á ofangreindri vegferð stendur og vekur viðbragðsleysi stjórnvalda þar að lútandi nokkra undrun. Núverandi staða viðheldur ákveðinni réttaróvissu og kann jafnvel að draga úr trú á dómskerfinu og þar með tilvist réttarríkisins. Þær raddir hafa þó einnig heyrst að þar sem dómar mannréttindadómstólsins séu ekki bindandi að landsrétti sé ástæðulaust til að bregðast sérstaklega við. Dómararnir fjórir eigi að sitja áfram og taka þátt í dómstörfum enda séu þeir löglega skipaðir. Jafnvel er talað um óskilgreinda tegund óskapnaðar og aðför að fullveldi Íslands. Slík hugsun getur verið varasöm. Okkur ber að þjóðar­ rétti skylda til að fara eftir dómsúrlausnum mann réttinda­ dómstólsins en með því virðum við mannréttindasáttmálann sem settur er til stuðnings lýðræði í Evrópu allri og okkur sjálfum til verndar. Ákvörðun um að hætta að fylgja dómsúrlausnum mannréttindadómstólsins felur í sér hættulegt fordæmi. Hér á landi hefur ríkt almennur skilningur á hlutverki Mannréttindadómstóls Evrópu. Íslenskir lögmenn og dómarar hafa í sívaxandi mæli litið til dómafordæma dómstólsins í störfum sínum og hefur vægi þeirra dóma aukist. Almennt má segja að íslenskir dómstólar beiti sáttmálanum í samræmi við dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins og hafa fordæmi dómstólsins bæði beint og óbeint leitt til grundvallar réttarbóta í okkar dómskerfi. Íslenska ríkið hefur sýnt það til þessa að það hafi mikinn metnað til að draga lærdóm af fordæmum dómstólsins. Breyting þar á kann að kalla á frekari málarekstur í Strassborg. Nauðsynlegt er hins vegar að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi í Landsrétti, sem mun, ef ekkert verður að gert, leiða til óhóflegs málaálags með tilheyrandi töfum á rekstri mála auk þeirra atriða sem áður er getið. Bæði innan og utan réttarkerfisins hafa ýmsar hugmyndir verið reifaðar sem leiðir til lausna og sem stjórnvöld hljóta að gefa gaum að. Í öllu falli þá gera lögmenn kröfu til þess að sem fyrst verði gerðar ráðstafanir til að tryggja skilvirkni réttarins, hverjar sem þær nákvæmlega verða. Bara ekki gera ekki neitt. BERGLIND SVAVARSDÓTTIR LÖGMAÐUR FORMAÐUR

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.