Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 33

Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 33
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/19 33 Staðan í dag Ekki verður talið að unnt sé að sakast við dómendur þegar kemur að því ástandi sem er í dag varðandi máls­ kostnaðarákvarðanir. Þegar dómari tekur ákvörðun um málskostnað þá hefur ekki verið fjallað sérstaklega um málskostnaðarkröfur eða a.m.k. mjög takmarkað, en það helgast af þeim málsmeðferðarreglum sem í gildi eru og dómvenjum. Þær leiða óhjákvæmilega til þess að yfirleitt er málskostnaður ákvarðaður að álitum og niðurstaðan ekki rökstudd með neinum efnislegum hætti. Afleiðingin er að aðilar máls fá engan rökstuðning fyrir því hvaða kostnað þeir frá bættan og hvaða kostnað ekki bættan, eða hvaða kostnað er þá verið að bæta. Þetta er sérstaklega bagalegt í málum þar sem t.d. lagt hefur verið í mikinn kostnað við öflun sönnunargagna, svo sem matsgerða. Flestir lögmenn kannast eflaust við þá stöðu sem upp kemur þegar dómur liggur fyrir og mál hefur unnist að öllu verulegu leyti en aðeins takmarkaður hluti þess kostnaðar sem lagt hefur verið út í hefur fengist bættur. Það eina sem unnt er að segja við umbjóðandann í slíkum tilfellum er „að þetta sé bara svona“ og að engin rökstuðningur fylgi niðurstöðunni, ástæðan er því „af því bara“. Öllum mætti vera ljóst að brýnt er að bæta úr þessu. Umræðan um málskostnað hefur oftar en ekki snúist upp í hvað sé hæfileg þóknun lögmanna og að dómstólar séu að horfa til þess í niðurstöðum sínum. En slík nálgun á vandamálið er á þeim grundvallarmisskilningi byggð að málskostnaður er ekki þóknun til lögmanns. Umbjóðandi lögmanns greiðir lögmanni þóknun fyrir hans vinnu en málskostnaður er bætur til handa aðila vegna þess kostnaðar sem hann hefur þurfti að bera. Nauðsynlegt er því að aðilar máls fái efnislegan rökstuðning fyrir niðurstöðu, sérstaklega ef hluti kostnaðar fæst ekki bættur, þar sem málarekstur er í eðli sínu kostnaðarsamur og oft er málskostnaðarkrafa stærsta krafan í málinu sem fær þó minnsta umfjöllun. Auk þess er einfaldlega litið svigrúm við aðalmeðferð til að fara í ítarlega efnislegan málflutning um málskostnað aðila. Tvennskonar form úrlausna Niðurstöður dómstóla um málskostnað eru svo í ofanálag á tvennskonar formi. Annars vegar er um að ræða að málskostnaður er ákvarðaður með dómi, samhliða efnislegri úrlausn um aðrar dómkröfur aðila. Hins vegar, svo sem ef sátt næst undir rekstri máls, þá er niðurstaða um málskostnað kveðin upp í sérstökum úrskurði. Ef aðilar máls vilja ekki sæta niðurstöðu um málskostnað þá þarf því annars vegar að áfrýja málinu, ef um dóm er að ræða, en hins vegar að kæra úrskurðinn. Málsmeðferð varðandi endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað er því ólík eftir því á hvaða formi niðurstaðan er. Mun þungbærara er fyrir aðila að áfrýja máli aðeins til að fá endurskoðun á niðurstöðu um málskostnað heldur en að kæra úrskurð sem snýr einungis að niðurstöðu um málskostnað. Telja verður að áfrýjun máls, aðeins til að fá endurskoðun á niðurstöðu um málskostnað, sé einfaldlega of þungbært ferli og of kostnaðarsamt og þar af leiðandi ekki áhættunnar virði. Raunin er jafnframt sú að málum er einungis í algerum undantekningartilfellum áfrýjað af þeirri ástæðu einni og sér, og verður því að telja að um réttarfarslegt misræmi og vandamál sé að ræða. Lausn á vandamálinu Samræma þarf úrlausnir dómstóla varðandi málskostnað, þ.e.a.s. að úrlausnirnar verði allar á sama formi, og þá á formi úrskurða eftir að efnisleg niðurstaða liggur fyrir að öðru leyti. Málsmeðferð yrði þá hin sama í öllum málum. Heppilegast væri að eftir að efnislegur dómur er genginn verði málið tekið aftur fyrir varðandi kröfu um málskostnað. Aðilar geta þá lagt fram málskostnaðarkröfur sínar og þau gögn sem þeir byggja hana á. Gagnaðili fær þá tækifæri til að kynna sér þau gögn og röksemdir fyrir kröfunni og hefur tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum. Málið yrði svo flutt munnlega og efnislegur úrskurður kveðinn upp um þær bætur sem aðili máls fær, vegna þess kostnaðar sem hann hefur þurft að bera, vegna málareksturs og réttlætanlegur telst vegna þeirrar sönnunarfærslu sem talin hefur verið nauðsynleg. Í þessum efnum ber jafnframt að hafa í huga að nauðsyn sönnunarfærslu í tveimur málum, sem eru að öllu leyti sambærileg, getur verið gjörólík og algerlega háð þeim vörnum sem hafðar eru uppi í máli af hálfu gagnaðila. Umfang réttlætanlegs kostnaðar við mála­ rekstur er því í mörgum tilfellum háður þeim vörnum sem hafðar eru uppi í máli fremur en málsatvikunum sjálfum. ÞAÐ EINA SEM UNNT ER AÐ SEGJA VIÐ UMBJÓÐANDANN Í SLÍKUM TILFELLUM ER „AÐ ÞETTA SÉ BARA SVONA“ OG AÐ ENGIN RÖKSTUÐNINGUR FYLGI NIÐURSTÖÐUNNI, ÁSTÆÐAN ER ÞVÍ „AF ÞVÍ BARA“.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.