Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 19

Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 19
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/19 19 Ætti að rýmka heimildir LMFÍ? Að óbreyttum lögum hefur LMFÍ, að mati undirritaðs, ekki heimild til að beina kvörtunum gegn félagsmönnum sínum í þeim tilvikum sem hér hefur verið fjallað um til úrskurðarnefndar lögmanna. Lagabreytingu þyrfti til. Þá vaknar sú spurning hvort gera eigi slíkar breytingar og færa LMFÍ víðtækari heimildir en leiðir af gildandi lögum. Svar mitt við þeirri spurningu er að það eigi ekki að gera. Til rökstuðnings bendi ég á að það er skylduaðild að félaginu. Slík skylduaðild er því aðeins heimil ef hún er talin nauðsynleg „til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra“, eins og þetta er orðað í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessu felst undantekning frá meginreglunni um félagafrelsi sem kveðið er á um í 1. mgr. sömu greinar. Á grundvelli almennra sjónarmiða um slíka skylduaðild, telur undirritaður að líta verði svo á að öll beiting agaviðurlaga eigi að ganga eins skammt og unnt er með hliðsjón af lögbundnu hlutverki félagsins. Ekki verður annað séð en að gildandi löggjöf tryggi nægilega að sá aðili, sem telur að lögmaður hafi brotið gegn sér, geti leitað réttar síns fyrir úrskurðarnefndinni. Rök fyrir slíkri lagabreytingu þyrftu að vera þau að á skorti að unnt sé koma agaviðurlögum yfir félagsmenn LMFÍ en ekki verður séð að svo sé. Hvað varðar fyrra tilvikið, sem tekið var til skoðunar hér að framan, hefur sá sem telur að lögmaður hafi gert á hlut sinn heimild til að beina kvörtun til úrskurðarnefndarinnar. Ef hann kýs að gera það ekki, sem geta verið margvíslegar ástæður fyrir, er engin þörf á því að LMFÍ grípi inn í og gerist aðili að slíku máli. Er enda vandséð hvar slík inngrip myndu enda en það færi væntanlega eftir afstöðu stjórnar félagsins hverju sinni. Í síðara tilvikinu er sérstaklega kveðið á um tiltekið úrræði LMFÍ vegna brota lögmanns, og í reynd skyldu félagsins um að leggja til við sýslumann að réttindi brotlegs lögmanns verði felld niður. Er engin sýnileg þörf á að lögmaður, sem vegna vanrækslu sinnar þarf að þola að farið sé fram á niðurfellingu réttinda, sæti einnig öðrum viðurlögum af hendi úrskurðarnefndarinnar. Ef ekki er þörf á frekari úrræðum LMFÍ varðandi möguleg brot félagsmanna er ekki ástæða til að breyta því fyrirkomulagi sem er við lýði samkvæmt gildandi lögum. „...LÍTA [VERÐUR] SVO Á AÐ ÖLL BEITING AGAVIÐURLAGA EIGI AÐ GANGA EINS SKAMMT OG UNNT ER MEÐ HLIÐSJÓN AF LÖGBUNDNU HLUTVERKI FÉLAGSINS.“

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.