Gerðir kirkjuþings - 2018, Page 11
11
Ávarp biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur
Fjármála- og efnahagsráðherra, forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskupar,
góðir gestir.
Ég vil byrja á því að þakka sóknarnefnd og starfsfólki hér í kirkjunni fyrir aðstöðuna
og tónlistarfólkinu fyrir flutninginn. Einnig vil ég þakka forsætisnefnd, kirkjuráði og
starfsfólki sem undirbúið hefur þingið.
Fullveldið
Í ár höfum við hér á landi minnst 100 ára afmælis fullveldisins. Við vitum að árið 1918 var
hörmungarár fyrir þjóðina, frostaveturinn mikli, spænska veikin dró marga til dauða og
Katla spúði eldi, ösku og hrauni yfir land og skepnur. Sambandslagasamningurinn milli
Dana og Íslendinga var ljós í myrkrinu en hann var undirritaður og samþykktur árið 1918
og tók formlega gildi þann 1. desember eins og kunnugt er. Með því náðist megináfangi í
sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og brautin rudd fyrir lýðveldisstofnuninni árið 1944. Það liðu
mörg ár, mikil vinna var unnin, nokkrir áfangasigrar náðust og þjóðaratkvæðagreiðslur
fóru fram þar til samningurinn tók gildi. Samtal, skýr markmið og tiltrú á verkefnið
skiluðu þessum árangri.
Kirkjuþingið og stjórnskipan þjóðkirkjunnar
Þegar samningar nást og ákvarðanir eru teknar hefur alla jafna farið fram mikil vinna og
samtal og tiltrú á verkefnið áður en niðurstaða fæst. Það á einnig við um kirkjuna. Á þessu
ári eru 60 ár frá því að kirkjuþing var fyrst haldið og 20 ár frá því fyrst var sett kirkjuþing í
nýju lagaumhverfi. Biskup Íslands var forseti þingsins fyrstu 40 árin en nýja þinginu, ef svo
má að orði komast, hefur verið stýrt af fjórum forsetum. Jón Helgason var fyrsti forsetinn
og tók þátt í að móta starfshætti hins nýja kirkjuþings. Hann tókst á hendur að móta starf
kirkjunnar í nýju lagaumhverfi sem forseti þingsins og stýra mótunarárunum en flestar þær
starfsreglur sem í gildi eru í dag eru í grunninn frá fyrsta ári þingsins. Næsti forseti var Pétur
Kr. Hafstein sem stýrði þinginu á umbrotatímum þegar erfið mál komu upp í kirkjunni og
önnur erfið mál voru til umræðu. Þegar hann þurfti að hætta vegna veikinda tók varaforseti
við, Margrét Björnsdóttir, en á aukakirkjuþingi þann 1. september 2012 tók núverandi forseti
Magnús E. Kristjánsson við keflinu. Ljóst er að á þessu þingi verður kosinn nýr forseti þar
sem Magnús er að hætta á þinginu. Vil ég þakka þér Magnús samstarfið og framlag þitt til
þjóðkirkjunnar. Ég bið þér og fjölskyldu þinni farsældar og blessunar Guðs í bráð og lengd.
Þegar kirkjuþing kom fyrst saman árið 1958 hafði kirkjuráð verið starfandi í 26 ár, frá
árinu 1932. Alþingi samþykkti lög um kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar árið 1931 og
árið 1957 setti Alþingi lög um kirkjuþing. Í ritinu „Saga kirkjuráðs og kirkjuþings“ sem sr.
Magnús Guðjónsson tók saman segir í inngangi: „Í ritsmíðinni er einkum fjallað um tvær
mikilvægustu stofnanir íslensku þjóðkirkjunnar, kirkjuráð og kirkjuþing, og áhrif þeirra á
allt starf kirkjunnar. Þessar stofnanir eru áfangar á leið kirkjunnar til frekara sjálfstæðis.“
Sr. Magnús segir að markmið skrifanna sé „að gera eins og kostur er grein fyrir þeirri
þróun, sem kirkjan hefur gengið í gegnum og þó aðallega frá miðri 19. öld, þegar aðeins fer