Gerðir kirkjuþings - 2018, Page 60
60 61
12. mál kirkjuþings 2018
Flutt af Hreini S. Hákonarsyni og Örnu Grétarsdóttur
Starfsreglur
um samfélags- og fræðslunefnd þjóðkirkjunnar
1. gr.
■Hlutverk samfélags- og fræðslunefndar þjóðkirkjunnar er að eigin frumkvæði eða að ósk
einstakra safnaða og kirkjulegra stofnana að boða til funda og málþinga um mál er snerta
kirkju og samfélag í því skyni að vekja umræðu innan kirkju sem utan, veita fræðslu og
afla sér þekkingar, og koma fram kristnum sjónarhornum.
■Samfélags- og fræðslunefndin skal eftir því sem við á hafa samvinnu við nefndir og
stofnanir kirkjunnar og samfélagsins um þau málefni sem hún tekur til umfjöllunar.
2. gr.
■Samfélags- og fræðslunefnd þjóðkirkjunnar skilar kirkjuráði árlegri skýrslu, sem fjallað
er um af kirkjuþingi.
□Samfélags- og fræðslunefndin gerir starfs- og fjárhagsáætlun sem samþykkt er af
kirkjuráði og lögð fyrir kirkjuþing til ályktunar.
3. gr.
■Biskup Íslands skipar fimm fulltrúa í samfélags- og fræðslunefnd þjóðkirkjunnar til
fjögurra ára og jafnmarga til vara. Kirkjuþing tilnefnir tvo fulltrúa í nefndina og skal
annar þeirra vera formaður hennar. Biskup Íslands skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar úr
röðum starfsmanna sinna. Starfsmennirnir skulu vera verkefnastjórar frá fræðslusviði,
kærleiksþjónustusviði og Starfs- og leikmannaskóla kirkjunnar. Nefndin skal skipa með
sér verkum.
4. gr.
■Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr kirkjumálasjóði og styrkjum er kunna að
fást vegna verkefna á vegum nefndarinnar.
5. gr.
■Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti
þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, með síðari breytingum, öðlast gildi við birtingu. Jafnframt
falla brott starfsreglur um þjóðmálanefnd þjóðkirkjunnar nr. 1028/2007.