Strandapósturinn - 01.06.1989, Side 19
það hlutverk að endurnýja íjárstofn á landsvæðum sem hafa verið
fjárlaus undanfarin ár vegna riðuniðurskurðar. Líflambasölu
þessari fylgir veruleg fyrirhöfn fyrir seljendur og verðið hefur
tæplega þótt nægilega hátt. Einnig hefur lítið tillit verið tekið til
þessara viðskipta við úthlutun fullvirðisréttar til bænda. Að
óbreyttu er því framhald líflambasölunnar í nokkurri óvissu.
Fallþungi dilka var að meðaltali um hálfu kílói meiri en árið
áður. Langmestu munaði þó í sláturhúsi Kaupfélags Stranda-
manna í Norðurfirði, en þar jókst fallþungi milli ára úr 14,1 kg. í
15,8 kg. Tíðarfar var mjög óhagstætt þar sumarið 1988, og skýrir
það þennan mikla mun. Þess má geta að haustið 1987 var meðal-
fallþungi dilka í Norðurfirði um 16 kg.
I haust voru mun fleiri dilkaskrokkar verðfelldir vegna fitu en
árið áður, og færri skrokkar komust í-úrvalsflokk. Skýringin á
þessu er eflaust fólgin í betra tíðarfari nú en sumarið 1988, en
einnig getur kjötmat verið nokkuð mismunandi milli ára. Sérstak-
lega ber þó að vara við samanburði milli sláturhúsa, þar sem
kjötmat virðist nokkuð breytilegt eftir því hver kjötmatsmaðurinn
er.
Nú ríkir nokkur óvissa um framtíð einstakra sláturhúsa. Á
Ströndum er óvissan mest í kringum sláturhúsið á Óspakseyri, en
þar þarf að ráðast í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir til að
uppfylla nýjar kröfur um aðstöðu til slátrunar. Svipað gildir um
Borðeyri, en þar hafa þegar verið gerðar miklar endurbætur.
Vonast aðstandendur Kaupfélags Hrútfirðinga eftir því að slátur-
hús félagsins fái löggildingu á næsta ári. Tölur um afkomu
minnstu sláturhúsanna eru athyglisvert innlegg í umræðuna um
„nauðsynlega fækkun“ sláturhúsa. I því sambandi má nefna, að
Kaupfélag Bitrufjarðar skilaði 1,6 milljónum króna í hagnað á
árinu 1988 á sama tíma og næstum öll önnur kaupfélög á landinu
töpuðu stórfé. Það virðist því engin rekstrarleg nauðsyn að draga
úr starfsemi kaupfélagsins, auk þess sem störfín í sláturhúsinu
hafa skapað byggðarlaginu aukatekjur sem annars væru vand-
fengnar.
Allmargir bændur á Ströndum hafa tekið upp þann sið að rýja
yngra fé og lömb strax á haustin þegar féð er tekið á hús. Aðrir
17