Læknablaðið - 01.03.2021, Blaðsíða 54
166 L ÆK N A BL AÐIÐ 2021/107
Fyrir nær aldarfjórðingi fluttum við
fjölskyldan til Osló í sérnám, full eftir-
væntingar og staðráðin í að leggja hart að
okkur í námi, starfi og leik.
Hér hefur lífið verið gott og árin hafa
fokið áfram og það var eiginlega ekki fyrr
en ég settist niður til að skrifa þessa grein
að ég gerði mér grein fyrir að ég er næst-
um búin að búa hér jafn lengi og á Íslandi!
Svo hvar er heima og hvar er að heiman?
Ég starfa sem nýrnalæknir á Ullevål-
sjúkrahúsi sem er með stærstu háskóla-
sjúkrahúsum á Norðurlöndunum. Hér
er alltaf nóg að gera, oft of mikið að gera
en ég minnist þess ekki að hafa leiðst í
vinnunni einn einasta dag. Hér lenda
þyrlurnar oft á dag, maður dáist að bráða-
móttökunni og öllu því sem hægt er að
bjarga þar, nýtur þess að hlusta á smit-
sjúkdómalæknana sem virðast allir hafa
upplifað frumskóga Afríku, skemmtir
sér yfir bæklunarlæknunum sem skilja
hvorki upp né niður í nýrnastarfsemi og
brosir í kampinn yfir hjartalæknunum
sem virðast allir hlaupa maraþon og sagan
segir að þegar þeir borða hér hádegismat
megi ekki opna gluggann því vindurinn
geti blásið burt fitusnauðu ostsneiðinni
af hrökkbrauðinu. Og svo eru það auð-
vitað nýrnalæknarnir sem eru eins og
nýrnalæknar flestir alveg stórskemmti-
legir. Ullevål verður samt aldrei eins og
heima þar sem maður fer í matsalinn á
Landspítalanum og líður eins og maður sé
á reunion, þekkir alla!
Ég hef líka reynt að láta gott af mér
leiða hér í borginni og er í sjálfboðavinnu
fyrir Rauða krossinn á heilsugæslu fyrir
réttindalausa flóttamenn. Þetta eru oft
svona „Helga gerir hluti sem hún ekki
kann“-kvöld og þá er gott að eiga góða
kollega. Og mikið er manni hollt að vera
minntur á það reglulega hvað maður er
heppinn að hafa fæðst á Íslandi.
En lífið hér hefur ekki bara verið vinna.
Við höfum líka leikið okkur mikið! Osló
er stórborg en samt ekki svo stór og hér er
stutt út í skóg og til hafs og til fjalla. Hér
er oft mikill snjór og vetrarstillur og við
elskum að fara á skíði. Svigskíðin eru í
uppáhaldi og það var mikið hlegið þegar
dóttir mín sagði við bróður sinn þar sem
þau sátu í skíðalyftunni og horfðu niður
á fjölskyldu á gönguskíðum: „hei sjáðu,
aumingja þessir krakkar, þau þurfa að
labba á skíðunum sínum“. En síðan er
nú öll fjölskyldan algjörlega búin að taka
gönguskíðin í sátt. En bara svo það sé
sagt, Norðmenn ganga sko ekkert á sínum
gönguskíðum, þeir hlaupa eða alla vega
renna og oft langt og lengi enda heita
gönguskíði „langrennski“ hér. Og þó það
sé nú ekki satt að allir Norðmenn séu
„født med ski på bena“ þá er það nú ekki
langt frá sannleikanum og gönguskíði
eru staðalútbúnaður í leikskólunum. Það
er mjög gaman að sjá að gönguskíðin eru
greinilega komin í tísku á Íslandi og þá
eru bara allt í einu allir á gönguskíðum
og námskeiðin fyllast á augabragði og
meira segja ég kom frá Noregi til að fara
á gönguskíðanámskeið. Það fannst fólk-
inu hér stórskrýtið. Mér fannst það mjög
gaman og allt í einu var að heiman komið
heim eða hvernig var þetta aftur?
Er maður einhvern tíma búinn að
búa svo lengi í útlöndum að að heiman
verður heima? Mér finnast vöfflur með
brunost dásamlegar, segi „uffameg“ og
„herregud“, er orðin stundvís og veit að
„koselig“ er hluti af tilgangi lífins. Ég hef
aldrei upplifað gula viðvörun, skil ekki
helminginn af gríninu í áramótaskaupinu,
er ekki vegan og hef ekki þurft að hlýða
Víði! Er ég þá meira norsk en íslensk? Við
því er bara eitt svar; nei! Heima er ennþá
heima. Kannski það sé kominn tími til að
snúa heim?
L I P R I R P E N N A R
Heima að heiman
Helga Guðmundsdóttir
nýrnalæknir í Osló
UXHEUD@ous-hf.no