Sjómannablaðið Víkingur

Volume

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2013, Page 6

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2013, Page 6
6 – Sjómannablaðið Víkingur Bara einu sinni og ég hefði verið sáttur Vélin í Óskar Halldórssyni RE – 157 var er hér er komið sögu orðin of lítil og gömul og lét Óli því setja nýja og stærri vél í skipið, ásamt því að gerðar voru aðrar breytingar á skipinu. Í fyrsta túr sem var á loðnuveiðar gerðist það óhapp, að skipið fékk á sig brot og lagðist á hliðina og sjór gekk niður í strompinn og vélarrúmið með þeim afleiðingum að vélin stöðvaðist. Dró Goðinn skipið til hafnar og var því lagt við Ægisgarð, þar sem það blasti við mér út um gluggann. Var nú helst talið að aðalvélin í skipinu væri ónýt og loðnuver- tíðin þar með fyrir bí, fyrir utan annað tjón. Daginn eftir óhappið kemur Óli til mín. Segir ekkert og er mjög þungur á brún. Gengur hann að glugganum og horfir á skipið stutta stund og síðan frá gluggan- um og að honum aftur og horfir á skipið í langan tíma. Ég sagði sjálfur ekki orð, en fylgist grannt með honum, eins og köttur með bráð og bíð nú eftir því að Óli játi nú einu sinni, að hann hafi ekki verið að gera góðan „díl“. Ekki núna. Ekki í dag. Ég ætla alls ekki að halda því fram, að það hafi hlakkað í mér, hvernig komið var fyrir Óla, en samt kom mér á óvart að ég innst inni ætti til svona illkvittni, sem kraum- aði þarna í mér. Ég varð bara að fá að heyra, þó ekki væri nema einu sinni hjá Óla, að hann hefði ekki gert góðan „díl“ í þetta skiptið. Ég beið bara þolinmóður og hafði allan tímann í heiminum til að bíða eftir því, að Óli bæri harm sinn á torg. Þótt ekki væri nema í þetta eina skiptið. Ég varð bara að fá að heyra hann segja eitthvað í þá veru. Til dæmis helvítis djöf- ull í helvíti hefði alveg dugað mér þarna, a.m.k til að byrja með og ég verið sáttur miðað við atvik. Viti menn. Allt í einu stansar Óli, sem gengið hafði fram og aftur og snýr sér að mér glaður á svip um leið og hann bendir á skipið út um gluggann og segir. Veistu það Jónas. Ég var að gera góðan „díl“. Ha, sagði ég og missti út úr mér tyggigúmmíið, svo klumsa varð ég. Já, já, ég samdi um það, að ég þyrfti ekki að borga nema helming af Goðataxt- anum við að draga skipið í land. Já. Óli var þarna búinn að sjá jákvæða flötinn á málinu, sem mér hafði alveg sést yfir. Þarna höfðu sparast nokkrir þúsundkallar. Ónýt vél og ónýt vertíð og guð má vita hvað fleira. Það varð bara allt að mæta afgangi. Af hverju get ég ekki verið eins og Óli? Að þessum orðum sögðum kvaddi Óli glaðlegri á svip en hann hafði verið við komuna. Eftir sat ég og var algerlega búið að stinga upp í mig. Þetta kennir manni auðvitað að ekkert er sjálfgefið í þessum heimi, en af hverju gat Óli ekki í eitt skipti, bara einu sinni, viðurkennt að nú væri ástandið ekki gott. Það er ekki sanngjarnt að fara svona illa með mann. Ég sem hélt að ég væri með öll trompin á hendinni. Gjörunnið mál. Þetta væri svo sem allt í lagi, ef þessi orð Óla væru ekki allt- af að koma upp í hugann á mér og samanburðurinn við hann. Af hverju hef ég ekki getað verið svona bjartsýnn, eins og Óli og séð jákvæðu hliðarnar á tilverunni í stað þess að vera með þetta vol og víl og svartsýnisraus, ef eitthvað er – eða fer – öðruvísi en maður vill sjálfur. Fór ég að ímynda mér, hvernig ég ætti að bregðast við í anda Óla, til dæmis ef húsið mitt stæði í ljósum logum um hávetur og miðja nótt. Maður stæði berfætt- ur á götunni á náttfötunum í kulda og trekki og horfði á aleig- una fuðra upp. Svo þegar einhver ætlaði að fara að vorkenna manni, þá gæti maður sagt í stíl Óla með sælubros á vör. Svaka- lega var ég að gera góðan „díl“. Ha! Jú hann Siggi hjá TM hf. var að segja mér áðan, að ég fengi helmings afslátt af bruna- tryggingu hjá þeim í framtíðinni. Komin um leið allt önnur til- finning, að sjá húsið sitt brenna til ösku, þegar maður nær loks að sjá jákvæðu hliðina á málinu. Nei. Ég held að mér takist aldrei að þessu leyti að taka Óla mér til fyrirmyndar og ná þessari bjartsýni og sjá alltaf hlutina í jákvæðu ljósi, hvað sem gengur á hjá manni eða eitthvað er ekki eins og maður vill. Maður gæti þó hætt að öfundast sí og æ út í þá sem eru lamaðir í hjólastól af því að þeir fá alltaf bestu bílastæðin. Það væri í áttina svona til að byrja með. Maður verður víst bara áfram kvartandi og kveinandi, ef eitt- hvað bjátar á eða passar manni ekki. Reyndar hafði einhvern tíma hvarflað að mér, að prófa að skipta um nafn, kennitölu og blóð og láta síðan ættleiða mig, en það hefði víst ekki breytt neinu. Eftir sem áður hefði ég setið upp með sjálfan mig. Maður breytir víst ekki eðli sínu úr þessu. Greinarhöfundur. SKEIFAN 3E-F · SÍMI 581-2333 · FAX 568-0215 · WWW.RAFVER.IS Skrúfupressur lofthreinsibúnaður - loftkútar - loftsíur lofttengibúnaður - loftþurrkarar Ýmsar stærðir! Hafið samand við sölumann.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.