Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2013, Blaðsíða 40

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2013, Blaðsíða 40
40 – Sjómannablaðið Víkingur Callao til San Fernando á Trinidad var liðlega viku sigling. Komið var til Trini- dad upp úr miðnætti. Eftir að búið var að dæla út ballest hófst lestun undir há- degi. Þá fór Sigurður 1. stýrimaður með umboðsmanninum í land og til læknis. Hann hafði haft óþægindi sem rekja mátti til botnlangans undanfarnar vikur og versnað verulega á leiðinni frá Perú. Læknirinn í Trinidad kvað upp úr með að of áhættusamt væri fyrir hann að fara með skipinu yfir Atlantshafið til Eng- lands og yrði hann að leggjast á sjúkra- hús í Trinidad og láta taka botnlangann. Ekki var annað hægt en að hlíta þeim úrskurði. Þannig háttaði til í höfninni í San Fernando að við undirmenn og gestir urðum að fara með bát frá útsíðunni milli skips og lands, en yfirmenn máttu fara eftir landganginum á bryggjuna þar sem þeir gátu tekið bíl. Um kvöldmatar- leytið sáu þeir sem voru á dekki óvænta sjón. Stórum árabáti var róið upp að skipshliðinni og reru sex fílefldir svert- ingjar en hinn sjöundi sat í skut og stýrði. Á miðþóftunni sat glæsilega búin kona, sannkölluð hefðarfrú. Þegar báts- verjar höfðu lagt að reis hún á fætur, heilsaði á íslensku og spurði eftir „kapt- eininum“. Þarna var komin engin önnur en höfðingskvinnan Ása Guðmundsdótt- ir Wright. Gunnar skipstjóri var ekki um borð, en eftir að Sigurður kom aftur frá lækninum, þar sem ákveðið var að hann færi ekki áfram með skipinu, varð skip- stjórinn að fara með umboðsmanni til að gera ráðstafanir vegna breytinga sem úr- skurður læknisins hafði í för með sér. Sigurður tók að sér hlutverk gestgjafa og bauð Ásu í sína íbúð ásamt nokkrum af yfirmönnum skipsins. Þar sat Ása fram eftir kvöldi og hafði mjög gaman af að ræða við landa sína og fá fréttir frá Ís- landi. Þá framreiddi skipsþernan léttar veitingar fyrir viðstadda. Ástæða þess að Ása var þarna komin var sú að hún átti skyldmenni um borð og frétti þess vegna að því að við værum væntanlegir. Pétur Vatnar Hafsteinsson, 3. vélstjóri, var frændi hennar og hann fékk skeyti frá móður sinni um að hann yrði að hafa samband við Ásu frænku sína. Af þeirri ástæðu var Ása mætt með svo mikinn mannskap, en í bátnum var heilmikill farangur sem hún þurfti að senda heim til Íslands. Í samræðum við Ásu kom Sigurður því að, að hann færi ekki áfram með skipinu, heldur yrði eftir og færi á spítala. Kom þá stjórnsemi hennar strax í ljós. Vildi hún fá að vita á hvaða spítala hann ætti að fara og spurði svo hvort ekki væri sími um borð. Síðan hringdi hún í vinkonu sína sem átti og rak spítala. Þá kom í ljós að búið var að panta pláss fyrir Sigurð á einmitt þeim spítala og lokaorð samtalsins urðu: „Þú hugsar vel um hann og þegar hann er orðinn frískur kemur þú með hann til mín.“ Ása náði hins vegar ekki að hitta Gunnar skipstjóra. Frágangur á nauðsyn- legum breytingum reyndist tímafrekari en áætlað var, og þá einkum að fá heim- ild til að sigla með aðeins tvo stýrimenn yfir Atlantshafið. Frá Trinidad var haldið áleiðis til Avonmouth á vesturströnd Englands. Á þeirri leið gerðist sá hryggilegi atburður að einn skipsfélaga okkar veiktist og lést skömmu síðar. Franskur læknir af sjúkraskipi kom um borð til okkar og gerði hvað hann gat til að bjarga lífi hans en allt kom fyrir ekki. Avonmouth er, eða var að minnsta kosti á þessum tíma, olíuhöfn í næsta nágrenni hinnar fornfrægu siglingaborgar Bristol. Þangað komum við síðdegis hinn 25. janúar 1965. Þegar lóðsbáturinn renndi upp að skipshliðinni kallaði einn bátsverja til okkar og spurði hvort við hefðum séð blöðin. Það höfðum við vita- skuld ekki gert og kastaði hann þá blaðabunka upp á dekkið. Í öllum blöð- unum var sama forsíðufrétt, með stóru letri: Kempan Winston Churchill hafði látist daginn áður, 91 árs að aldri. Í Avonmouth og Bristol bar fátt til tíð- inda og er mér það minnisstæðast að daginn áður við létum aftur í haf sátum við nokkrir félagar á krá í Bristol. Þar fylgdumst við með útför Churchills í beinni útsendingu í sjónvarpi. Enginn okkar hafði áður séð beina sjónvarpsút- sendingu, sumir jafnvel ekki sjónvarp, og þóttu okkur þetta undur og stór- merki. Ekki áttuðum við okkur hins veg- ar á því að þarna var ekki aðeins verið að sýna útför Churchills, heldur í raun- inni þess sem eftir var af breska heims- veldinu. Heim á leið Í Avonmouth kom Ríkharð Jónsson skip- stjóri úr fríi og tók aftur við skipstjórn- inni og Gunnar við stöðu 1. stýrimanns. Eftir brottför frá Avonmouth var siglt sem leið lá til Aruba og þar kom Sigurð- ur stýrimaður aftur um borð og var sem farþegi með skipinu heim, hress og end- urnærður eftir veruna á Trinidad og Aruba, en þar dvaldi hann síðustu 3 vik- urnar á meðan hann beið komu okkar. Í Aruba lestuðum við þotueldsneyti fyrir bandaríska varnarliðið á Íslandi og héldum síðan áleiðis heim. Til Hafnar- fjarðar komum við um miðjan mars eftir liðlega þriggja og hálfsmánaðar útivist. Þar lauk þessari eftirminnilegu og við- burðaríku ferð. Höfundur þakkar Sigurði Hallgrímssyni ómetanlega aðstoð við samantekt þessarar greinar. Hamrafell, stærsta skip íslenska flotans, fyrr og síðar.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.