Bændablaðið - 25.08.2022, Side 4

Bændablaðið - 25.08.2022, Side 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. ágúst 2022 FRÉTTIR Kelduhverfi: Dýrbítur leggst á lömb – Bóndi telur fæðuskort á heiðum ástæðu þess að tófur leiti til byggða Skæður dýrbítur hefur drepið að minnsta kosti fjögur lömb í Kelduhverfi í sumar. Að sögn heimamanna hefur talsvert sést af tófu við byggð undanfarið og greinilegt að hann er í ætisleit. Heyrst hefur af fleiri dýrbítum víðar um land undanfarna daga. Ólafur Jónsson, bóndi á Fjöllum 1 í Kelduhverfi, segir að til þessa hafi fundist fjögur dauð lömb sunnan við bæinn Sultir og eitt nánast heima í hlaði. „Það var hjólreiðamaður sem fann fyrstu tvö lömbin á heiðarvegi með nokkurra daga millibili og tilkynnti það strax. Eitt af lömbunum var frá mér, annað frá Fjöllum 2 og það þriðja frá Lóni en fjórða lambið var svo illa leikið að við fundum ekki merkið og sáum ekki frá hvaða bæ það var. Okkur virðist sem tófan sé farin að færa sig frá heiðinni og nær byggð og það sjást tófur á hverjum degi víða í sveitinni og það hefur óvart verið keyrt á þrjár. Við teljum ástæðuna fyrir allri þessari tófu vera að það er lítið um fugl á heiðinni og tófan því í ætisleit.“ Að sögn Ólafs hefur hann heyrt fregnir af fleiri dýrbítum víðar um land undafarna daga. Ótvíræð ummerki eftir dýrbít „Við teljum að fyrsta lambið hafi verið drepið um miðjan júlí og það síðasta fannst viku af ágúst. Öll fjögur lömbin fundust á eða við heiðarveginn en við vitum ekki hversu mörg til viðbótar geta legið lengra utan við veginn. Fyrstu viðbrögð voru að skoða vegsummerki á lömbunum og senda sýni til tófusérfræðinga til greiningar og allir sem séð hafa útganginn á þeim eru sammála um að um tófu og dýrbít hafi verið að ræða.“ Ólafur segir að tófan bíti skinnið og hreinsi það af snoppunni inn að beini og drekki síðan blóðið og skilji lömbin eftir, oft lifandi, liggjandi í blóði sínu. „Tófan hefur beittar tennur og sterkan kjaft og ef henni tekst að bíta sig við snoppuna eiga lömb erfitt með að verja sig. Tófa hangir á snoppunni þar til að það fer að blæða og blóði fer að renna ofan í lungun á lambinu og að endingu gefst það upp og drepst. Dýrbítar byrja yfirleitt á að ráðast á veikburða lömb eins og undanvillinga og ef að það gengur færa þeir sig upp á skaftið og ráðast að lokum á fullorðið fé.“ Dýrbítar á öðru hverju greni „Í tilfellinu hér í Kelduhverfi sýnist okkur að það sé eitt dýr að bíta og svo annað sem nagar nára og bóga lambanna eftir að þau eru dauð. Ég kom sjálfur að einu lambinu nánast nýdauðu, því flugan var varla búin að setja maðk í það og það var enn uppblásið, og greinilegt að það höfðu verið tvö dýr að verki við að naga það. Mesta hættan núna er að ef dýrbíturinn er mjög skæður þá kenni hann yrðlingunum hvað sé matur og að eitt af því séu lömb, að hér verði á næstu árum dýrbítar á öðru hverju greni ef ekkert verður að gert. Við vitum ekki enn hvort dýrið er að taka eitt og eitt lamb eða eitt á hverri nóttu eins og getur gerst og þá er málið orðið verulega alvarlegt.“ Grenið ekki enn fundist Ólafur segir að búið sé að reyna að finna greni dýrbítsins og að þeir hafi heyrt vælið í yrðlingunum en ekki fundið það enn. „Dýrbítar virðast vera miklu varari um sig og varkárari en aðrir refir og því erfiðari viðureignar og grenjaskyttur sem hafa fundið greni sjái engin merki um umgang um þau. Grenjaskyttur eru búnar að fara í öll þekkt greni og holur og þar hefur dýrbíturinn ekki verið. Það er búið að setja upp eftir­ litsmyndavél og ég er búinn að sjá fullorðinn skolla í mynd nótt eftir nótt en ekki yrðlingana þannig að þeir eru líklega búnir að færa sig lengra suður. Yrðlingarnir eru það stálpaðir á þessum tíma að þeir eru orðnir eins stórir og fullorðin dýr og því farnir að hlaupa um alla heiði og því mjög erfitt að finna þá. Skammt frá okkur er þjóðgarð­ urinn Jökulsárgljúfur og þar er bannað að skjóta refi og slæmt fyrir okkur ef dýrbíturinn kemst þangað í skjól og því um að ræða mjög erfiðan eltingarleik.“ /VH Dýrbítar bíta skinnið og hreinsa það af snoppunni inn að beini og drekka blóðið og skilja lömbin eftir, oft lifandi, liggjandi í blóði sínu. Myndir / Ólafur Jónsson Ólafur Jónsson, bóndi á Fjöllum 1 í Kelduhverfi, með riffil og tófuflautu framan á. Áverkar eftir tófu. Það var hjólreiðamaður sem fann fyrstu tvö lömbin á á heiðarvegi með nokkurra daga millibili. Dýrbítar byrja yfirleitt á því að ráðast á veikburða lömb eins og undanvillinga og ef að það gengur færa þeir sig upp á skaftið. Matvælaráðuneytið: 584,6 milljónum úthlutað Fyrir skömmu úthlutaði matvælaráðherra 584,6 milljónum króna úr Matvælasjóði. Alls var sótt um styrki fyrir 211 verkefni og hlutu 58 þeirra úthlutun að þessu sinni. Meðal verkefna sem hlutu úthlutun má nefna: Hringrásarhænur í bakgörðum, Þróun sælkeravöru úr lamba­ og kindaslögum, Markaðsátak í útflutningi á íslensku viský, Nýjar matvörur úr ærkjöti, Bætiefnadrykkir með íslenskum þörungum og Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða. Sköpunarkraftur og áræðni Í tilkynningu matvælaráðuneytisins er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra að „sá sköpunar­ kraftur og sú áræðni sem íslenskir matvælaframleiðendur búa yfir sé sérstakt ánægjuefni og sýnir áþreifanlega að Ísland er á réttri leið sem matvælaland. Það gleður mig einnig að sjá að hlutföll á milli kynja eru nær jöfn.“ Fjórir styrkjaflokkar Bára styrkir verkefni á hugmynda­ stigi til að kanna fýsileika, greina eða útfæra hugmynd tengda íslenskri matvælaframleiðslu. Styrkþegar geta verið fyrirtæki sem stofnuð eru á síðustu fimm árum. Einnig frumkvöðlar sem vilja þróa hugmynd, hráefni eða aðferðir sem tengjast íslenskri matvælaframleiðslu. Alls hlutu 23 verkefni að heildarupphæð 60.820.00 króna í þessum flokki. Kelda styrkir verkefni sem miða að því að afla nýrrar þekkingar sem styður við markmið sjóðsins um nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnis hæfni íslenskrar matvælafram­ leiðslu. Alls hlutu 14 verkefni að heildarupphæð 202.300.000 króna í þessum flokki. Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar. Styrkveitingar miða að því að gefa styrkþegum tækifæri til að móta og þróa afurðir úr hráefnum sem falla til við matvælaframleiðslu og stuðla þar með að verðmætasköpun. Alls hlutu 11 verkefni að heildarupphæð 187.300.000 króna í þessum flokki. Fjársjóður styrkir verkefni sem hafa það markmið að styrkja markaðsinnviði og stuðla að markaðssókn afurða tengdum íslenskri matvælaframleiðslu. Alls hlutu 10 verkefni að heildarupphæð 134.225.000 króna í þessum flokki. Hlutverk Matvælasjóðs Í tilkynningu á vef matvæla­ ráðuneytisins segir að hlutverk Matvælasjóðs sé að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar­ og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnis­ hæfni íslenskra matvæla. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðs­ sókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila. /VH Meirhluti íbúa í dreifbýli í Skagafirði vill að heimilissorp sé sótt heim á lögbýlin. Gerð var íbúakönnun um sorpmál í dreifbýli Skagafjarðar og stóð valið á milli tveggja kosta. Annars vegar að íbúar skiluðu flokkuðu heimilissorpi á móttökustöðvar í sveitarfélaginu og hins vegar að heimilissorp yrði sótt á öll lögbýlin. Þátttökurétt höfðu allir eigendur íbúða­ og íbúðahúsnæðis með lögheimilisfesti í dreifbýli Skagafjarðar. Alls voru 671 á kjörskrá, 171 tók þátt í könnuninni, eða 25%. Meirihluti þeirra sem þátt tóku valdi að heimilissorp yrði sótt heim á bæi í dreifbýli Skagafjarðar, eða um 64% þátttakenda. Um leiðbeinandi könnun var að ræða, sveitarstjórn á eftir að rýna niðurstöðuna og taka í framhaldinu ákvörðun. Stefnt er að því að bjóða út sorphirðu í dreifbýli Skagafjarðar við fyrsta tækifæri, að því er fram kemur á vefsíðu sveitarfélagsins þar sem fjallað er um könnunina, en bjóða þarf út á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. /MÞÞ Skagafjörður: Vilja að sorp sé sótt heim

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.