Bændablaðið - 25.08.2022, Side 38

Bændablaðið - 25.08.2022, Side 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. ágúst 2022 Veitingastaður af bestu gerð í gamalli vélaskemmu: Pop-up eldhús á Þingeyri Sjónvarpskokkurinn, dagskrár- gerðarmaðurinn og listamaðurinn Kristinn Guðmundsson, oft nefndur Kristinn soð, var með pop- up eldhús í gamalli vélaskemmu á Þingeyri í sumar. Kristinn hefur framleitt nokkrar þáttaraðir þar sem hann eldar í óreiðueldhúsi. Þáttaröðin Soð í Dýrafirði var sýnd á RÚV síðastliðið haust og var þessi veitingasala óbeint framhald af því. Kristinn fékk aðstöðu til þess að undirbúa matinn í Grunnskólanum á Þingeyri, en var svo með matarvagn fyrir utan vélaskemmuna til þess að leggja l o k a h ö n d á matreiðsluna. „Aðstaðan í grunnskólanum var ágæt, nema útsýnið var ekkert nema brött brekka rétt fyrir utan gluggann – sem er kannski allt í lagi fyrir svona sveimhuga mann eins og mig,“ segir Kristinn. Einföld framkvæmd og hráefni af svæðinu Veitingasalan sjálf var í Skelinni, sem er gömul vélaskemma við Fjarðargötu 42 á Þingeyri. Samtals var opið í átta daga í lok júlí og voru viðtökurnar framar vonum, en mest voru 38 matargestir á einu kvöldi. Matseðillinn var nokkurn veginn sá sami allan tímann til þess að framkvæmdin væri sem einföldust þar sem Kristinn var einn í eldhúsinu. „Einhvern tímann var ég með kindakjöt í kássunni í staðinn fyrir nautakjöt, sem var æðislega gott. Sósan í kássunni er frekar sæt og það passar fullkomlega með svona ærkjöti,“ segir Kristinn, en það kom til vegna þess að nautakjötið var uppselt í það skiptið. Hráefnið reyndi Kristinn að nálgast úr nærumhverfinu eins og hægt var. „Við fengum fiskinn úr fiskbúðinni á Ísafirði, ísinn fengum við frá Örnu í Bolungarvík og rabarbarann og súrurnar tíndum við þarna rétt hjá. Sjoppan Hamona á Þingeyri reddaði okkur með mjög margt annað, eins og hvítkál, kartöflur, krydd.“ Fleiri þáttaraðir á leiðinni Í haust verður sjónvarpað nýrri þáttaröð sem nefnist Pabbasoð, þar sem hann eldar allt í pitsuofni sem hann byggði með vini sínum í Frakklandi. „Ég fór að elda miklu meira í ofni þegar sonurinn fæddist í fyrra,“ segir Kristinn, en það gerir hann af praktískum ástæðum. „Það er svo fyrirgefanlegt að elda í ofni. Ef strákurinn fór að skæla og þurfti mat eða athygli þá gat maður beðið aðeins með að taka matinn út. Ef þú ert að steikja eitthvað á pönnu eða sjóða þá er það ekki eins sveigjanlegt. Það getur verið helvíti hart ef pastað sýður mínútu of lengi.“ Núna er Kristinn að vinna að nýrri þáttaröð sem nefnist Soð á Austurlandi, sem verður áframhald af því óreiðueldhúsi sem hefur verið í fyrri þáttaröðum. „Við ætlum meðal annars í Mjóafjörð, inn að Hallormsstað, upp að Stóruurð og út að Þerribjörgum. Við erum að vinna handritið núna, sem er aðallega að ákveða hvert við förum,“ en Kristinn er að hefja tökur um þessar mundir. Hann reiknar svo með að klára alla eftirvinnslu á þáttunum í febrúar og þá munu þeir fara í sýningar á RÚV fljótlega eftir það. „Ef fólk er með hugmyndir að góðum upptökustöðum fyrir austan þá má það alveg senda mér skilaboð í gegnum síðuna Soð á Facebook,“ segir Kristinn. /ÁL Kristinn soð reiddi fram dýrindismáltíðir á Þingeyri í sumar. Myndir / ÁL Þorskur úr fiskbúðinni á Ísafirði. Kjötkássa. Yfirleitt með nautakjöti en stundum með ærkjöti. Í eftirrétt var boðið upp á ís frá Örnu í Bolungarvík. Þessi gamla vélaskemma á Þingeyri fékk tímabundið hlutverk sem veitingastaður í júlí. Mest var hægt að koma fyrir 38 matargestum. LÍF&STARF Kært er á milli hins tveggja ára gamla Heiðmars Árna og kálfsins Marra á Steindyrum í Svarfaðardal. Þessa dásamlegu mynd tók móðir Heiðmars Árna, Kristrún Birna. „Við vorum í heimsókn í sveitinni og það var svo dásamlegt að sjá þegar Heiðmar Árni, tveggja ára sonur minn, og kálfurinn Marri sváfu saman á fóðurganginum. Marri var endurlífgaður strax eftir burð og var því hálfslappur þegar félagarnir tóku blundinn sinn saman,“ segir Kristrún Birna. Mynd / Aðsend Í Kew grasagarðinum í London er að finna elstu núlifandi pottaplöntu í heimi sem vitað er um. Plantan er köngulpálmi sem barst til Englands frá Suður-Afríku árið 1775 en var flutt í Pálmahúsið 1848 þegar byggingu þess lauk og hefur verið þar síðan þá. Skoski grasafræðingurinn Francis Masson, sem dvaldi í Suður-Afríku við gróðurrannsóknir frá 1773 til 1775, sendi hátt í 500 sýni af bæði lifandi og þurrkuðum plöntum til Englands á sínum tíma og er langlífa pottaplantan í Kew ein af þeim. Plantan er upprunnin á austurhluta Góðrarvonarhöfða og er kögurpálmi sem kallast Encephalartos altensteinii. Tegundin er á válista International Union for Conservation of Nature yfir plöntur í útrýmingarhættu í náttúrulegum heimkynnum sínum vegna eyðingu skóga. Köngulpálmar eru hægvaxta og þrátt fyrir að plantan hafi vaxið í Kew í 247 ár er plantan ekki nema um fjórir metrar á hæð. Þegar pálmanum var umpottað síðast árið 2009 var hann vigtaður án pottsins og reyndist vega um það bil eitt tonn. /VH Köngulpálmategundin Encephalartos altensteinii er elsta planta í heimi sem vitið er um að sé ræktuð í potti. Mynd / RBG Kew Elsta pottaplanta í heimi

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.