Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Síða 8
6
síðastliðnum árum og að sama skapi hefur orðið þróun í afstöðu til
endurskoðunarvalds dómstóla, sem sýnast ætla sér æ rýmri heimildir
í þá veru. Það má fullyrða að skilyrðið um að almenningsþörf krefji hafi
einkum valdið vafa og eru ýmis dæmi þess að ágreiningur hafi risið
um hvort sú sé raunin. Mat á þessu getur verið vandasamt og tekur mið
af atvikum og aðstæðum í hverju máli, en það grundvallast ótvírætt
á sjónarmiðum um nauðsyn og meðalhóf. Við skoðun þessa skilyrðis
skiptir aðdragandinn að töku ákvörðunar um eignarnám miklu máli
og koma þar til skoðunar atriði á borð við hvernig könnun á nauðsyn
þeirrar framkvæmdar sem er tilefni eignarnáms er háttað, hvernig
tryggt er að val á framkvæmdarkosti samræmist sjónarmiðum um
meðalhóf, sem og samskipti og viðræður við eignarnámsþola.
Vikið verður að eignarnámi með almennum hætti í kafla 2.
Þar verður fjallað um eðli eignarnáms og gerður greinarmunur á
eignar námi í þrengri merkingu og öðrum eignarskerðingum. Þá
verður í kafla 3 fjallað um skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar um laga-
heimild og að almenningsþörf krefji, auk þess sem vikið verður að
endurskoðunarvaldi dómstóla. Að svo búnu verður í kafla 4 fjallað
um sjálfa eignarnámsákvörðunina. Þar verður vikið að eðli slíkrar
ákvörðunar, þá sem fara með ákvörðunarvald í einstökum tilvikum
og þær formkröfur sem gerðar eru til ákvarðana um eignarnám, meðal
annars með hliðsjón af reglum stjórnsýsluréttarins. Síðan verður fjallað
um efnislegt mat stjórnvalda á því hvort heimila skuli eignarnám í
einstökum tilvikum, en þar þarf bæði að huga að skilyrðum 72. gr.
stjórnarskrárinnar og ákvæðum þeirra heimildarlaga sem liggja til
grund vallar beiðni um eignarnám. Lögð verður sérstök áhersla á
rannsóknar skyldu stjórnvalda og mat á því hvort efnisleg skilyrði séu
uppfyllt til eignarnáms. Þær kröfur um nauðsyn og meðalhóf, sem
dómstólar telja felast í stjórnarskrárákvæðinu, verða þar í forgrunni.
Loks verða helstu ályktanir og niðurstöður dregnar saman í fimmta
kafla, þar sem lögð verður áhersla á þau skilyrði sem þurfa að vera
uppfyllt svo að tekin verði lögmæt ákvörðun um eignarnám.