Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 31
29
kemur til skoðunar tilgangur eignarnámsins, umfang, tímasetning og
hvaða lögbundna aðdraganda sé að öðru leyti gert ráð fyrir. Skilyrði
1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár um almenningsþörf og stjórnskipuleg
meðalhófsregla skipta grundvallarmáli við það mat. Verður nú nánar
vikið að þessum þáttum eignarnámsákvörðunarinnar.
4. ÁKVÖRÐUN UM EIGNARNÁM
Meginreglan er sú að með lögum er eignarnám heimilað við tilteknar
aðstæður, en ákvörðun um að beita því hverju sinni svo tekin af því
stjórnvaldi sem fer með fyrirsvar á viðkomandi málasviði (almennar
eignarnámsheimildir). Með því framselur löggjafinn í reynd þann
þátt mats síns á almenningsþörf sem varðar afstöðu til nauðsynjar
(nauðsynjarþáttur) eignarnáms í einstökum tilvikum.
Eins og rakið hefur verið kann svigrúm viðkomandi stjórnvalds
við töku ákvörðunar um eignarnám að vera nokkuð mismunandi með
hliðsjón af útfærslu viðkomandi eignarnámsheimildar að lögum. Þannig
er afar sjaldgæft að lagaheimildinni sé svo háttað að framhaldið ráðist
nánast af einfaldri ákvörðun stjórnvaldsins til eða frá. Almennt er beiting
eignarnámsheimilda að lögum háð mati og túlkun lagaskilyrða þar sem
grundvallarþættir ákvörðunar lúta að því annars vegar hvort að beita
skuli eignarnámi og þá á því tímamarki sem um er að ræða og hins vegar
hversu umfangsmikið það skuli vera. Við þessa vegferð stjórnvaldsins
eru að sjálfsögðu gerðar strangar kröfur bæði að formi og efni.
4.1 Stjórnvaldsákvörðun og stjórnsýslusamningar
Ákvörðun um eignarnám telst ótvírætt vera stjórnvaldsákvörðun,
enda er um að ræða einhliða ákvörðun stjórnvalds um skyldu aðila
til að láta af hendi eign sína.52 Að sama skapi má ætla að þar sem um
íþyngjandi ákvörðun er að ræða sem skerðir stjórnarskrárvarin réttindi
sé eftirlit dómstóla strangt með því að ákvæðum stjórnsýslulaga, sem
og meginreglum stjórnsýsluréttar, sé fylgt við undirbúning og töku
slíkrar ákvörðunar.
Svo sem rakið verður nánar þá hvílir sú skylda á aðila að leita
samninga við eiganda viðkomandi réttinda áður en til greina kemur að
taka ákvörðun um eignarnám. Það vaknar þá sú spurning, þegar í hlut
52 Fram kemur í áliti nefndar sem var skipuð af dómsmálaráðherra til að endurskoða lög um
framkvæmd eignarnáms, sbr. þingsályktun frá 22. apríl 1970. Fjölritað handrit. Dóms- og
kirkjumálaráðuneytið 1975, bls. 65, að ákvörðun um að eignarnámi skuli beitt, væri
stjórnarathöfn sem háð væri almennum reglum um gildi stjórnarathafna.