Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 50
48
umleitanir skuli ná til fleiri þátta, sbr. orðalagið „þar með talið um
endurgjald fyrir landnot, vatnsréttindi, jarðhitaréttindi eða aðrar
orkulindir“.
Svo sem vikið hefur verið að er sú óvenjulega tilhögun viðhöfð
í lögum um Landeyjahöfn að sérstaklega er tiltekið í 4. mgr. 4. gr.
laganna að það sé ekki skilyrði eignarnáms að áður hafi verið leitað
samninga um land við landeigendur, hvort sem er vegna lands eða
efnistöku. Í skýringum við greinina í frumvarpi til laganna er þessi
tilhögun útskýrð með vísan til þess að þegar hafi verið fullreyndir
samningar við landeigendur um land fyrir höfnina. Engin niðurstaða
hafi orðið af þeim samningaviðræðum og ekki við að búast að hún
fengist þótt frumvarpið yrði að lögum. Þótti því ekki ástæða til að
framgangur málsins tefðist af þeim sökum. Eignarnáms heimild 4. gr.
laganna um Landeyjarhöfn fellur í flokk sérstakra eignar námsheimilda
þar sem leggja verður til grundvallar að af hálfu löggjafans hafi verið
tekin afstaða til allra þátta sem varða undir búning og aðdraganda
eignarnámsins, þ.m.t. bæði réttmætis og nauðsynjaþáttinn. Undir þeim
kringumstæðum er þá fyrst og fremst á hendi viðkomandi stjórnvalds
að framkvæma eignarnámið í samræmi við hina lögfestu heimild. Allt
að einu er það þó sérkennilegt að taka skylduna til samningsumleitana
eina út úr með þessum hætti enda býður það meðal annars upp á
möguleikann til gagnályktunar í þá veru að af hálfu löggjafans hafi
ekki verið tekin afstaða til annarra þeirra þátta sem varða efnislegan
undirbúning eignarnáms og lúta m.a. að nauðsyn, tímasetningu
og umfangi. Þá má jafnframt velta því fyrir sér með vísan til 72. gr.
stjórnarskrár, sem og stjórnskipulegrar meðalhófsreglu, hvort það
fari nægilega vel á því að klippa á þennan hátt með lögum á það
eftirlitshlutverk sem dómstólum alla jafnan er ætlað með þessum
þætti eignarnámsákvörðunar.
d) Umfang eignarnáms
Í hinni efnislegu prófun stjórnvalds í aðdraganda eignarnámsákvörð-
unar felst að tryggt sé að andlag eignarnáms sé í samræmi við það
markmið sem að er stefnt með þeirri framkvæmd sem krefst eignar náms
og sé ekki umfangsmeira en nauðsyn krefur. Leikur meðalhófsreglan
lykilhlutverk í því sambandi.
Þegar vísað er til umfangs í þessu sambandi getur það haft fleiri en
eina merkingu. Sú einfaldasta lýtur einfaldlega að því álitaefni hversu
stórt andlag eignarnámsins skuli vera, svo sem stærð landsvæðis sem
tekið er eignarnámi í þágu framkvæmdar. Umfang getur einnig lotið