Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 65
63
viðkomandi að slík ákvörðun sé tekin af öðru stjórnvaldi sem hefur
ekki umsjón með þeirri framkvæmd sem um ræðir. Eins og staðan er
hér á landi er ákvörðunarvald í flestum tilvikum á hendi þess ráðherra
sem fer með viðkomandi málaflokk. Hins vegar mætti hugsa sér aðra
skipan mála, svo sem að sjálfstætt stjórnvald sem yrði sett á fót með
lögum færi með ákvörðunarvald þegar leitað er eignarnáms.
Í þriðja lagi hefur verið bent á þá þróun síðasta aldarfjórðunginn
að dómstólar túlka vald sitt til efnislegrar endurskoðunar með æ
rýmri hætti. Skýrasta dæmið um tvíþætt mat, sem bæði tekur til
lagaheimildarinnar sem slíkrar sem og ákvörðunar í viðkomandi tilviki,
er að finna í dómi Hæstaréttar frá 15. nóvember 2012 í máli nr. 60/2012
(Hverfisgata). Þá má t.d. sjá af nýlegum dómum um eignarnám að sá
hluti eignarnámsákvörðunar stjórnvalda sem er undanskilinn endur-
skoðunarvaldi dómstóla er afar takmarkaður, sbr. dóma Hæstaréttar frá
5. nóvember 2015 í máli nr. 173/2015 (Hestamannafélagið Funi) og 12. maí
2016 í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015 (Suðurnesjalína 2).
Í fjórða lagi hefur verið tekið til skoðunar hvernig túlka beri skilyrði
72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf og hvort í því felist að
framkvæmd verði að þjóna almenningi í víðtækri merkingu. Niður-
staðan varð sú að matið á almenningsþörf sé alltaf atviksbundið og
að fyrirfram séu ekki takmörk af þessu tagi. Þannig má nefna tilvik
þar sem eignarnám sýnist þjóna tilteknum aðila eða afmörkuðum
hópi, en undirliggjandi hagsmunir eru almennir og þjóna fleirum.
Sem dæmi má nefna dóm Hæstaréttar frá 15. október 2015 i máli nr.
306/2015 (Umferðarréttur við Laugaveg II). Á hinn bóginn má leiða líkur
að því að matið sjálft sé aldrei strangara en í slíkum tilvikum, sbr. dóm
Hæstaréttar frá 5. nóvember 2015 í máli nr. 173/2015 (Hestamannafélagið Funi)
þar sem eignarnámið laut að gerð reiðvegar sem augljóslega þjónaði
hagsmunum afmarkaðs hóps öndvert við hið almenna vegakerfi
landsins.
Í fimmta lagi hefur verið gerð grein fyrir því að lagaumgjörð sem felst í
lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms sé barn síns tíma. Lögin
voru sett 20 árum fyrir setningu stjórnsýslulaga og taka í engu mið af
þeim grundvelli sem þau hafa markað allri stjórnsýsluframkvæmd. Til
að mynda er ekkert tillit tekið til þeirrar staðreyndar að framkvæmdir
sem krefjast eignarnáms þurfa að sæta ýmis konar lögbundnum
undirbúningi og ákvarðanatöku annarri en eignarnámsákvörðuninni